Hin svokölluðu skáld

Hér er tilkynning frá hinum svokölluðu skáldum:

Hin svokölluðu skáld er yfirskrift ljóðadagskrár sem tíu skáld, sem líta á sig sem ungskáld, standa fyrir í stóra salnum í Háskólabíói laugardaginn 12. apríl nk. klukkan 14.00.

Við erum: Davíð Þór Jónsson, Sigrún Haraldsdóttir, Valdimar Tómasson, Teresa Dröfn Njarðvík, Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Snæbjörn Ragnarsson (Bibbi í Skálmöld), Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, Örlygur Benediktsson, Eva Hauksdóttir og Bjarki Karlsson. Kynnir er Sigurður Karlsson, leikari og þýðandi.

Miða er hægt að kaupa hér: http://midi.is/atburdir/1/8199/ eða við innganginn.

Við drögum enga dul á að við sækjum fyrirmynd að atburðinum til Listaskáldanna vondu, frá 1976, sbr: http://uni.hi.is/hsae/page/4/ og http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3868817. Nafn hópsins kallast á við nafn þeirra, salurinn er sá sami og kynnirinn einnig.  Eitt þeirra flutti ljóð við tónlist og eitt þeirra var reyndara og viðurkenndara en hin á þessum tíma. Hjá okkur flytur Aðalsteinn Svanur ljóð sín við eigin undirleik en Þórunn Erlu Valdimarsdóttir er fulltrúi hinna viðurkenndu.

Hins vegar erum við að einu leyti gerólík. Lítum á það sem Hjalti Snær Ægisson segir í vefsíðunni við vísum í hér að ofan:

Á þessum árum urðu vatnaskil í íslenskri ljóðagerð; flest skáld sem hafa náð einhverri fjöldahylli á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa annað hvort tilheyrt þessum skáldahópi eða beitt svipuðum aðferðum og þau. Jafnvel þau ljóðskáld sem hafa snúist gegn listaskáldunum vondu á beinskeyttan hátt (og hér er Kristín Svava Tómasdóttir nærtækt dæmi) hafa gert það með vopnum þeirra sjálfra: Usla, íróníu og útúrsnúningi.

Við, Hin svokölluðu skáld, þykjumst hvorki höll undir aðferðir listaskáldanna né í uppreisn gegn  þeim. Við erum ólík en það sem sameinar okkur er það að við yrkjum á bundnu máli. Stuðlum allt og  rímum flest. Við erum sem sagt hvorki atómskáld né póstmódernistar. Sum okkar  hafa reyndar sent frá sér óbundin ljóð og eru vís með að halda því áfram en á morgun verðum við öll háttvís.

Við beitum hinum fornu stílbrögðum á persónulegan hátt og tölum við samtíma okkar, ekki fortíðina. Við erum nýtt vín á gömlum belgjum, ekki skugginn af Skólaljóðunum.

Það hefur vakið athygli að við seljum inn á atburðinn en fólk á því að venjast að ljóðaupplestur sé ókeypis. Við kusum þó að fara þessa leið, að sækjast ekki eftir styrkjum, hvorki frá opinberum aðilum né einkaaðilum. Við erum því engum háð nema þeim sem kaupa miða og vonumst til að geta sýnt fram á að ljóðið sé sjálfbært.

Frekari upplýsingar veita:

Bjarki Karlsson, bjarki@fraedi.is, sími 698 3823
Aðalsteinn Svanur Sigfússon, adalsteinn.svanur@simnet.is  sími 893 8560

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar