Njáll heiðraður

Á októberfundinum var Njáll Sigurðsson Iðunnarfélagi og kvæðamaður með meiru heiðraður af félaginu. 

Njáll þenur nikku í Þrastalundi

Njáll þenur nikku í Þrastalundi

Hann fæddist í Vik í Mýrdal þann 26. júní árið 1944. Hann gekk í Kvæðamannfélagið Iðunni 24. mars 1973.  Hann hefur sem sé verið í félaginu í 44 ár og unnið þar ötult starf.

Njáll hefur verið virkur í félags og nefndarstörfum Iðunnar í gegnum tíðina. Hann var formaður rímnalaganefndar og átti sæti í henni í fjölda ára á 8. og 9. áratugnum. Einnig átti hann sæti í skemmtinefnd í tvö ár 8. áratugnum. Njáll var formaður þjóðlaganefndar frá upphafi, 2009 til 2016. Hann var leiðsögumaður í haustferð Iðunnar 2012, þegar farið var um suðurlandið, og ma. safnið á Skógum heimsótt.

Njáll hefur margoft komið við sögu í tengslum við útgáfur Iðunnar. Hann hélt utan um flutning og útgáfu á Iðunnarplötunni sem var gefin út 1979 í tilefni af 50 ára afmæli Iðunnar. Á þeirri plötu kveða ýmsir kvæðamenn Iðunnar 100 kvæðalög. Hann átti sæti í ritnefnd þegar lagboðaheftið, 3. útgáfa, var prentað haustið 1984.  Njáll var í ritnefnd afmælisrits Iðunnar sem var gefið út 1989 í tilefni 60 ára afmælið félagsins. Hann skrifaði þar grein sem heitir „Um rímur kveðskaparlist og kvæðalög“. Hann skrifaði grein í Silfurplötur Iðunnar sem voru útgefnar 2004 á 75 ára afmæli Iðunnar. Kveðskaparlistin, varðveisla og saga, nefnist greinin.

Njáll hefur einnig skrifað grein í væntalega útgáfu á Segulböndum Iðunnar, sem fjallar um sögu og tilkomu hljóðritanna. Eins og félagsmenn vita er Njáll afbragðs kvæðamaður og hefur kveðið mikið í gegnum tíðina hér á fundum og í ferðum félagsins. En hann hefur einnig komið víða fram og kveðið á tónleikum og ýmsum viðburðurm hérlendis og erlendis og kynnt íslenskan tónlistararf. Hann hefur haldið námskeið og fyrirlestra um rímnakveðskap og íslensk þjóðlög víða hérlendis og erlendis.

Stjórn og félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni þakka Njáli Sigurðssyni innilega fyrir heillaríkt starf í þágu félagsins í marga áratugi.

Hér má hlusta á formann Iðunnar heiðra Njál og einnig viðbrögð hans. Upptöku annaðist Arnþór Helgason.

 

 

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar