Ingimar Halldórsson kveður vísur eftir Sigmund Benediktsson

Á Iðunnarfundi þann 8. desember kvað Ingimar Halldórsson kvæðamaður vísur eftir Sigmund Benediktsson, en þeir eru báðir Iðunnarfélagar.

Ingimar Halldórsson fæddist á Akranesi árið 1945. Hann gekk í félagið árið 1970 og hefur lengi verið einhver besti kvæðamaður þess. Sigmundur Benediktsson, vélvirki á Akranesi, er fæddur 1936. Hann er sveitamaður, mikið náttúrubarn og einn af bestu hagyrðingum félagsins.

Hér fyrir neðan má hlusta á upptöku af kveðskapnum, auk þess sem hægt er að lesa vísurnar sem kveðnar voru.

Arnþór Helgason hljóðritaði

 

Stakan
Meðan vakir óðsnilld ein
og andartakið bálar,
breiðir stakan björt og hrein
blóm á akur sálar.

Við það bjóðast gleðigrið
að gista ljóðaþáttinn.
Stundir hljóðar styttast við
stefja gróðurmáttinn.

Sólsetur á siglingu yfir hafið
Sólsetur á siglingu yfir hafið
kristaltárunum.
Geislahárið glóey breiðir
glöð á bárunum.

Sól í arma hafsins hnígur
hljóð í bjarmanum.
Ljóssins hvarm á svefninn sígur
svalar varmanum.

Nóttin breiðir vængjavoðir
vel um skeiðina.
Hugur greiðir stuðlastoðir
styttir leiðina.

Í ljósaskiptunum í Hvalfirði
Rýni ég í rökkurshyl,
reifast margt í sinni.
Ljóss og skugga litaspil
lyftir fegurðinni.

Furðulita fléttar band
fæðir kvöldsins gaman
þegar himinn, haf og land
hnýta örmum saman.

Ferð á Vestfirði
Augu nærir ásýnd tær,
yndi færir geði.
Ekki hrærast Hornatær
hátt þó blærinn kveði.

Við himinhvolfið trónir tindur
tæp er gatan Elís hjá.
Glóðadísin silfursindur
sjávarflötinn breiðir á.

Við Lokinhamra leið að kveldi,
lyfti bergið svimahæð.
Undir Skeggjans ógn og veldi
andinn finnur sína smæð.

Hvatning
Andinn djarfi yrki þarfur unga bögu.
Ljóða arfsins lengjum sögu,
lyftum starfi kvæðahögu.

Kvæðavefur kátur hefur kennt oss lengi,
Styrk hann gefur málsins mengi,
manndóm vefur fljóð og drengi.

Eflum góðan orðasjóð við aukin kynni,
svo að þjóðin farsæl finni
frelsisglóð í tungu sinni.

Vetrarsólhvörf
Skaða ristur skuggin er,
skerðing gistir ragur.
Gengur yst í álfu hér
ársins stysti dagur.

Sól um vetur sígur hljóð
sóar getu eigi,
hún með leti hækkar glóð
hænufet á degi.

Skugginn lækkar, gleðin grær,
geislinn smækkar myrkur.
Sólin stækkar, sífellt nær,
sálar hækkar styrkur.

Kom þú sól
Köldu vetrar kvöldin löng
krenkja afl og þorið.
Ég þrái frið og fuglasöng,
fögur blóm og vorið.

Langan vetur þig hef þráð,
það er gömul saga,
að vorið skerpir viljans dáð
væna sólskinsdaga.

Ljúfa sól er landsins kjör
laugar geislaböndum,
hraða máttu heldur för
heim að Íslandsströndum.

Lífsins geisla sendu senn,
sem að fegurð skarta,
svo ég finni ylinn enn
inn í mínu hjarta.

Á gamlárskveldi
Árið hefur orðið mér
allvel þekkt til fanga.
Ljóðadís ég þakka þér
þína leiðsögn stranga.

Þegar kemur annað ár
yfir þanka mína.
Viltu gegnum gleði og tár
gefa leiðsögn þína.

Harpan mun þá hljóma vel,
hefja söng um vökur,
því í hjarta alltaf el
óort ljóð og stökur.

Jólavísur
Af þeim stafar ástúð hlý,
opnast kærleiksrósin.
Bjartast auga barnsins í
blika jólaljósin.

Þó að felist fold í snæ,
fenni él á glugga.
Hátíð dvelur helg í bæ
hvergi elur skugga.

Myrk þó frjósi foldar kinn
fegurð hrósa kenndir.
Helga rós í hjartað inn
hátíð ljósa sendir.

Klukkur hljóma, kætist geð,
kirkjan ljómar bjarta.
Kristur frómur kominn með
kærleiksblóm í hjarta.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar