Fundur, kvæðalagaæfing og Söngvaka í apríl 2019

Næsti fundur hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni verður haldinn föstudaginn 5. apríl kl. 20:00 og næsta kvæðalagaæfing verður miðvikudaginn 3. apríl kl. 19:00

Að venju er fjölbreytt og skemmtileg dagskrá á aprílfundinum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir flytur erindi sem hún kallar „Óttinn við hið óþekkta – hálendið í íslenskum þjóðsögum“.

Ólína Þorvarðar

Í erindinu verður fjallað um það hvernig náttúruöflin birtust fyrri tíðar fólki í gervi álfa, trölla og annarra vætta. Samskipti manna og vætta hafa verið með ýmsu móti gegnum tíðina, oft stríð en líka blíð. Vættasögurnar íslensku kenna okkur samskipti við náttúruna og annað fólk með ýmsum hætti.

Tenorsöngvarinn og þjóðfræðineminn Eyjólfur Eyjólfsson flytur eigin lög og útsetningar fyrir rödd og langspil á völdum lögum úr Þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar. Einnig mun hann skreppa út fyrir landsteinana og koma m.a. við í Frakklandi. Þá sérstaklega í héruðum þar sem fyrr á öldum menn í mislitum sokkabuxum sungu um grösuga garða og háværa lævirkja.

Eyvi og langspilið

Ryan Koons og Niccolo Seligmann frá USA munu syngja og leika nokkur lög  m.a.  á barrokkhljóðfæri

Ragnar Ingi Aðalsteinsson sér um bragfræðihornið.

Eftirtaldir fastir liðir verða á sínum stöðum: Tvísöngvar, litla kvæðamannamótið og samkveðskapur í umsjón Rósu Jóhannesdóttur og litla hagyrðingamótið og Skálda í umsjón Helga Zimsen.

Félagar eru hvattir til að mæta á sem flesta fundi og ekki gleyma æfingunum því þar geta menn kynnst betur innviðum félagsins og sögu. Einnig eru félagar hvattir til að taka með sér gesti, bæði á fundi og æfingar, því fundir Iðunnar eru öllum opnir.

Kvæðalagaæfingar og fundir Iðunnar fara fram í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi sjá kort á ja.is og hér.

Söngvaka verður þriðjudaginn 9. apríl kl.19:30 í Gröndalshúsi á horninu á Fischersundi og Mjóstræti, 101 Reykjavík. Umsjónarmenn: Chris Foster og Linus Orri Gunnarsson Cederborg. Kenndur verður meðal annars tvisöngurinn Vorið langt.

Þjóðlagasamspil er vikulega á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 – 23:00 á Bar Ananas á horninu á Grettisgötu og Klapparstíg. Þar geta menn komið og kveðið og sungið.

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.