90 ára afmæli Iðunnar og dagur rímnalagsins

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 15. september 1929 og heldur því upp á 90 ára afmælið um þessar mundir, en félagið er eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Einnig verður Dagur rímnalagsins haldinn hátíðlegur í fyrsta skiptið en Iðunn hefur haft frumkvæði að stofnun hans. Verða eftirtaldir viðburðir haldnir á vegum félagsins af því tilefni og eru þeir opnir öllum:

Laugardaginn 14. september kl. 11 – 16:30

Rímnamaraþon tónleikar.

Kvæðamenn úr Iðunni kveða rímur á þremur stöðum í miðbæ Reykjavíkur.

Hugmyndin er að gera tilraun til þess að leyfa rímunni að vera í sínu náttúrulega umhverfi. Að hún megi vera löng og leiðinleg, líka spennandi og skemmtileg eða eins og malandi útvarp í bakgrunni. Kvæðamennirnir munu koma sér vel fyrir á látlausum stað og flytja heilan rímnaflokk, en það getur tekið a.m.k. tvo tíma. Þeir verða á eftirtöldum stöðum: Tólf tónar, Skólavörðustíg 15, Kl. 11:00. Rósa Þorsteinsdóttir kvæðakona

Stofan – Kaffi, Vesturgata 3, Kl. 13:00. Rósa Jóhannesdóttir kvæðakona

Borgarbókasafnið Grófinni, Kl. 14:30. Pétur Húni Björnsson kvæðamaður

Sunnudaginn 15. september

Á kvæðaslóð – söguganga .

Gangan hefst við Hallgrímskirkju kl. 11 árdegis og lýkur við Iðnó um það bil klukkustund síðar. Gengið verður um götur Þingholtanna og stiklað á stóru í sögu Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Áð verður við staði sem tengjast sögu félagsins og stemmur og vísur rifjaðar upp og kveðnar. Pétur Húni Björnsson leiðir gönguna.

——————-

Félagar Iðunnar halda afmælishátíð sína síðar sama dag í Iðnó með góðum gestum, kveðskap og tónlistaratriðum. Þar verða einnig Stúllurímur frumfluttar af barnakór en það eru glænýjar rímur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Nánar um Dag rímnalagsins 15. september 2019

Dagur rímnalagsins verður haldinn hátíðlegur í fyrsta skiptið á afmælisdegi Kvæðamannafélagsins Iðunnar og verður hann á almanaksárinu framvegis. Eins og áður hefur komið fram á félagið frumkvæðið að stofnun þessa dag og hafa Stemma – Landssamtök kvæðamanna og Menntamálaráðurneytið hvatt Iðunni til framtaksins.

Þessi færsla var birt undir Óskilgreint. Bókamerkja beinan tengil.