Lagboði 114

Hugans þó sé nepja nóg

Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar

 

Hugans þó sé nepja nóg
nærist frjó og hlýnar,
vermir ró í Vatnaskóg
vonir sljóar mínar.

Þótt ég gleymi stund og stað
starfar dreyminn andi.
Beinir sveimi öruggt að
óðsins heimalandi.

Hugans máttur hreyfir sér
horfnar áttir kunnar.
Skal í háttum skemmta mér
skaut við náttúrunnar.

Nú við skæran geislaglans
grösin næring fanga.
Skógar bærist krónukrans
kitlar blærinn vanga.

(Fagur glóir grasa her
grósku nóg auglýsir.
Veita fró og munað mér
mildar skógardísir. Þessi vísa er að auki í handritinu.)

Vísur: Þórarinn Bjarnason, Hafnarsmiðju Reykjavík.
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir.(Ingþór Sigurbjörnsson kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu.

Til baka -o- Lagboði 115