Lagboði 118

Klárnum létta, er lagt af mjöll

Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar

 

Klárnum létta, er lagt af mjöll
lítur þetta færi,
finnst sem sléttuð álfan öll
örskots sprettur væri.

Teygir í baugum taumabönd,
togar þau en hikar.
Glampa augun ákefð þönd,
allar taugar kvikar.

Skeifublaðið sköflum blá-
skændar traðir bítur,
þegar úr hlaði hoppi á
hringmakkaður þýtur.

Jór á sprikli yfir ís
æðið mikla stöðvar.
Fætur stikla, fagurt rís
fax, en hnyklast vöðvar.

Vísur: Stephan G. Stephansson.
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (Jósep Húnfjörð kenndi)
Stemma: Guðmundur Guðmundsson (lausi), Húnavatnss.

Til baka -o- Lagboði 119