Lagboði 120

Leggi menn á munaðshaf

Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar

 

Leggi menn á munaðshaf,
minnkar senn í vösum.
Margur kennir óhægð af;
ástar brennigrösum.

Drjúgum lama drengja þrótt
djúpir amabrunnar.
Slíta gaman strengi fljótt
straumhvörf hamingjunnar.

Víða er andbyr, vegur háll
von á strandi maður,
meinum blandinn mannlífsáll
mörgum vandrataður.

Senn fer klaki, síst þú skalt
sjá mistaka vottinn,
tímans bakvið tjald ávallt
trúlega vakir drottinn.

Vísur: Guðmundur Gunnarsson, Tindum.
Kvæðamaður: Björn Friðriksson.
Stemma: Jón Lárusson, Breiðfirðingur.

Til baka -o- Lagboði 121