Kvæðamenn og vísnahöfundar

Anna Árnadóttir (1845-1924) var húsfreyja í Köldukinn á Ásum, A-Húnavatnssýslu, hálfsystir Árna gersemi.

Anna Halldóra Bjarnadóttir (1888-1963), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Ari Árnason (1864-1933) var bóndi á Illugastöðum á Vatnsnesi, V-Húnavatnssýslu, giftur Auðbjörgu Jónsdóttur.

Auðbjörg Jónsdóttir (1853-1929) húsfreyja á Illugastöðum á Vatnsnesi, kona Ara Árnasonar. [1]

Árni Árnason gersemi (1861-1917) var fæddur á Stóru-Mörk á Laxárdal fremri og bjó í Skyttudal; þótti afburða kvæðamaður; fór oft á milli bæja í sveitinni, kveðandi rímur og var allsstaðar aufúsugestur; hálfbróðir Önnu Árnadóttur. [2]

Árni Böðvarsson (1713-1776) var eitt stórvirkasta rímnaskáld 18. aldar. Hann var Snæfellingur, fæddist á Slitvindastöðum í Staðarsveit og bjó á Vatnabúðum í Eyrarsveit en síðan á Ökrum á Mýrum; orti 19 rímnaflokka, þar á meðal Rímur af Úlfari sterka (1775), fyrstu veraldlegu rímur prentaðar á Íslandi.

Ásgeir Jónsson (1876-1963) bóndi frá Gottorp í Víðidal; kunnur hestamaður og rithöfundur; skrifaði m.a. bækurnar Horfnir góðhestar og Forystufé. [3]

Baldvin Halldórsson skáldi (1863-1934) var frá Hamarsgerði á Fremribyggð í Skagafirði; vinnumaður á Fjósum í Svartárdal og í Þverárdal á Laxárdal fremri, A-Húnavatnssýslu; gerðist síðan bóndi í Geysirbyggð og Fljótsbyggð í Nýja-Íslandi, Kanada. [4]

Baldvin Jónsson skáldi (1826-1886) var snikkari og kunnur hagyrðingur í Skagafirði. Hann var frá Hofsstöðum í Skagafirði. [5]

Benedikt Einarsson læknir (1796-1859); bóndi og smáskammtalæknir í Hnausakoti í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu. Hann var einnig smiður á járn. [6]

Benedikt Einarsson (1852-1928) bóndi og hreppsstjóri á Hálsi í Eyjafirði var frá Hallandi á Svalbarðsströnd, S-Þingeyjarsýslu. [7]

Benedikt Gröndal (Jónsson) (1760-1825) skáld og dómari í Landsyfirrétti; þýðing hans á Musteri mannorðsins eftir A. Pope undir fornyrðislagi hafði mikil áhrif á endurnýjun fornra bragarhátta í íslenskri ljóðlist á 19. öld. [8]

Bjarni Björnsson (1851-1917) var bóndi og steinhöggvari á Neðra-Vatnshorni í Línakradal, V-Húnavatnssýslu. [9]

Bjarni Gíslason (1880-1940) var fæddur í Holtskoti í Seyluhreppi í Skagafirði en bjó á Harrastöðum í Miðdölum og á Fremri-Þorsteinsstöðum í Haukadal, Dalasýslu.

Bjarni Guðmundsson (1891-1971), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Bjarni Jónsson (um 1570- um 1655), einnig nefndur Borgfirðingaskáld eða Húsafells-Bjarni var frá Fellsöxl í Skilmannahreppi, Borgarfirði; bóndi og skáld í Borgarfjarðarsýslu.

Bjarni Jónsson (1859-1936) bóndi og oddviti á Neðsta-Sýruparti á Akranesi; síðan í Hraunsfirði í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og loks á Búðum í Fáskrúðsfirði. [10]

Björn Björnsson nepja eða kuldi (1856-1953) var frá Ytra-Mjóadal á Laxárdal fremri; bóndi í Mýrakoti á Laxárdal fremri og á Þverá í Norðurárdal, A-Húnavatnssýslu, síðar járnsmiður á Sauðárkróki. [11]

Björn Friðriksson (1878-1946), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Björn Jóhannesson (1895-1964) frá Spena (Litlahvammi) í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu; hafnargjaldkeri, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði um tvo áratugi; einnig félagi í Kvæðamannafélagi Hafnarfjarðar. [12]

Björn M. Ólsen (1850-1919) rektor við latínuskólann í Reykjavík og prófessor við Háskóla Íslands; fæddur á Þingeyrum í Þingi. [13]

Björn Stefánsson (1873-1951) var húsmaður í Kirkjuskarði á Laxárdal fremri, A-Húnavatnssýslu, síðar trésmiður á Sauðárkróki og í Árnesbyggð, Nýja-Íslandi í Kanada. Hann var sonur Stefáns Guðmundssonar í Kirkjuskarði. [14]

Bólu-Hjálmar, sjá Hjálmar Jónsson í Bólu.

Davíð Stefánsson (1895-1964), skáld og rithöfundur frá Fagraskógi í Eyjafirði; vakti ungur athygli með ljóðabók sinni Svörtum fjöðrum (1919) og var upp frá því eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar. Orti í anda nýrómantísku stefnunnar. [15]

Ebeneser Árnason (1840-1913) bóndi í Tungukoti í Hlíðardal á Vatnsnesi; góður hagyrðingur og orti mikið afÝrímum um sveitunga sína; þótti með afbrigðum mikill matmaður og átti það til að betla sér til matar á öðrum bæjum þegar lítið var til heimafyrir. Faðir Ragnhildar Ebenesersdóttur. [16]

Eggert Eggertsson (1828-1890), fæddur á Þernumýri í Vesturhópi, bóndi á Urriðaá í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu, síðast í Grímstungu í Vatnsdal, A-Húnavatnssýslu.

Eggert Ólafsson (1726-1768) frá Svefneyjum á Breiðafirði var varalögmaður, náttúrufræðingur og skáld; bjó síðast í Sauðlauksdal við Patreksfjörð, V-Barðastrandasýslu. Fórst á Breiðafirði. [17]

Eggert Thorberg Gíslason (1852-1928) var fæddur í Bjarneyjum á Breiðafirði; kom sem tökudrengur í Fremri-Langey 10 ára gamall en tók síðan við búinu af fóstra sínum og breytti því úr kotbýli í gjöfula jörð; leitaði sér tvítugur lækninga í Noregi við visnu í höndum og fótum með nokkrum árangri; las Norðulandamálin reiprennandi og aflaði sér meiri þekkingar í reikningi og íslensku en almennt gerðist. Jóhann Garðar Jóhannsson var tengdasonur Eggerts í Langey. [18]

Einar Andrésson (1814-1891) bóndi og skáld í Bólu í Blönduhlíð, Skagafirði, síðast á Þorbrandsstöðum í Langadal, A-Húnavatnssýslu. Einar þótti dverghagur á hvað sem var, smíðaði hluti jafnt úr málmi sem tré og hafði forkunnarfagra rithöfnd; átti stórt bókasafn og lét mikið eftir sig í bundnu máli. [19]

Einar Jónsson Bachmann (1899-1955) var fæddur í Steinsholti í Leirársveit í Borgarfirði; rafvirkjameistari í Reykjavík, hagyrðingur og frístundamálari; bjó um skeið í Chicago í Bandaríkjunum.

Einar Benediktsson (1864-1940) var fæddur á Elliðavatni við Reykjavík; hann var þjóðskáld og sýslumaður, bjó víða erlendis og hérlendis, síðustu átta ár ævi sinnar í Herdísarvík í Selvogi. [20]

Einar E. Sæmundsson skógarvörður (1885-1953) fæddist á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð en ólst upp í Syðri-Vík í Vopnafirði; nam skógfræði í Danmörku, var skógarvörður að Vöglum í Fnjóskadal og síðan í sunnlendingafjórðungi; var ritstjóri Dýraverndarans. [21]

Einar Þórðarson (1877-1963) var bóndi á Innri-Skeljabrekku í Andakíl, Borgarfirði en fluttist til Reykjavíkur og starfaði þar við bensínafgreiðslu. [22]

Eiríkur Jónsson (1882-1975) var faðir Jóns Eiríkssonar. Eiríkur var frá Keldunúpi á Síðu, V-Skaftafellssýslu, en hélt 1908 til Reykjavíkur og gerðist þar járnsmiður; starfaði lengst af hjá Hafnarsmiðjunni. [23]

Eyjólfur Jóhannesson (1824-1911) var kunnasta alþýðuskáld Borgfirðinga á sínum tíma; bjó víða í Borgarfirði, m.a. í Sveinatungu í Norðurárdal. [24]

Finnur Jónsson (1842-1913) hét fullu nafni Friðfinnur Jónsson en var ætíð nefndur Rauði-Finnur; húsmaður og síðar bóndi á Stóru-Giljá í Þingi, A-Húnavatnssýslu; sagður drykkfelldur óeirðamaður og átti oft í málaferlum og allskonar útistöðum; lét stundum prenta níðpésa um óvini sína og náfrændur. Þeir Ebeneser Árnason voru bræðrasynir. [25]

Friðrik Gunnarsson (1840-1899), bóndi á Þorgrímsstöðum og Bergsstöðum á Vatnsnesi, síðar í Neðra-Vatnshorni í Línakradal og í Enniskoti í Víðidal; faðir þeirra systkina Björns, Ingibjargar, Sigríðar og Þuríðar sem kveða öll á silfurplötum Iðunnar. [26]

Friðrik Magnússon (1860-1946), bóndi og trésmiður í Bjarghúsum í Vesturhópi, V-Húnavatnssýslu, síðar málari og trésmiður á Akureyri.

Gísli Konráðsson (1787-1877) ólst upp í Skagafirði; bóndi þar og hreppstjóri. Hugur hans stóð til fræðistarfa og af þeim sökum fluttist hann út í Flatey á Breiðafirði, þar sem hann gerði samning við Framfarastiftun Flateyjar þess efnis, að hún eignaðist allar hans bækur og handrit eftir hans dag, gegn því að séð yrði fyrir honum í lifanda lífi. Gísli var einstakur og afkastamikill sagnaritari, minnugur og fjölfróður um ættfræði og atburðasögu. Eftir hann er fjöldi þátta, kvæða og rímna auk afskrifta. [27]

Gísli Ólafsson (1885-1967) var frá Eiríksstöðum í Svartárdal, síðar bóndi í Hólabæ í Langadal, A-Húnavatnssýslu. Gísli var drátthagur mjög, frábær eftirherma, hagmæltur, góður kvæðamaður og lék ágætlega á orgel. Upptökur með kvæðasöng hans eru til í varðveislu Ríkisútvarpsins. [28]

Guðfinna Lilja Einarsdóttir (1890-1936) fæddist í Ballarárgerðum á Skarðsströnd, Dalasýslu, en ólst upp í Efri-Langey á Breiðafirði og varð húsfreyja þar.

Sr. Guðlaugur Guðmundsson (1853-1931) var frá Syðri-Skógum í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadalssýslu. Prestur í Staðarhraunsprestakalli í Mýrasýslu, í Skarðsþingum í Dalasýslu og loks á Stað í Steingrímsfirði, Strandasýslu; varð að láta af embætti sökum blindu og settist þá að í Reykjavík; orti rímur og gaf út Ljóðmæli 1925. [29]

Guðlaugur Hinriksson (1884-1957), fæddur í Þúfukoti í Kjós; trésmiður og bóndi á Ytri-Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd og á Þrándarstöðum í Brynjudal. Guðlaugur bjó síðast í Reykjavík. [30]

Guðmundur Andrésson (um 1615-1654) frá Bjargi í Miðfirði; fræðimaður á sviði málvísinda og fornfræði. Um hann ritaði Þórarinn Eldjárn bókina Brotahöfuð.

Guðmundur Eyjólfsson Geirdal (1885-1952) var úr A-Barðastrandasýslu; fæddist á Brekku í Gufudalssveit og stundaði vinnumennsku á bænum Gautsdal í Geiradal. Guðmundur var kennari á Ísafirði, einnig lögregluþjónn og sýsluskrifari; bjó síðustu æviárin í Reykjavík. [31]

Guðmundur Finnbogason (1863-1913) fæddist í Torfgarði á Langholti í Skagafirði. Var vinnumaður á Holtastöðum í Langadal og í Gautsdal á Laxárdal fremri, A-Húnavatnssýslu, síðar sjómaður á Ísafirði; drukknaði þar. Hann var hálfbróðir Kristins á Vesturá.

Guðmundur skáld Friðjónsson (1869-1944) ól allan sinn aldur í Aðaldal, S-Þingeyjarsýslu; var fæddur að Sílalæk og bjó síðan búi sínu á Sandi. Í æsku lauk hann gagnfræðaprófi á Möðruvöllum, en mun ekki hafa átt kost á frekari framhaldsmenntun. Út hafa verið gefnar eftir hann 15 bækur í bundnu máli og óbundnu, en handritasafn mun hann hafa átt nokkurt óútgefið. [32]

Guðmundur Guðmundsson „lausi„ eða „póli„ (1848-1922) var fæddur í Holti í Svínadal og smali þar, síðar lausamaður á Ytri-Löngumýri í Blöndudal, A-Húnavatnssýslu; var sífellt í ferðum fyrir aðra; kunnur fyrir skondin tilsvör; var bróðir Jónasar smala á Geitaskarði. [33]

Guðmundur Guðmundsson skólaskáld (1874-1919) var fæddur í Hrólfsstaðahelli á Landi, Rangárvallasýslu en bjó lengst af í Reykjavík. Hann hlaut viðurnefni sitt af skáldskap á skólaárum sínum; naut mikillar hylli aldamótakynslóðarinnar og tónskáld færðu sér ljóð hans óspart í nyt. [34]

Guðmundur Ingiberg Guðmundsson (1887-1961) var fæddur í Hólakoti í Reykjavík og ólst þar upp; dvaldi um skeið á Góðravonahöfða í Afríku við hvalstöð Ellefsens. Guðmundur var einn af frumbyggjum í Kópavogi. [35]

Guðmundur Gunnarsson (1878-1940) bjó á bænum Tindum á Skarðsströnd í Dalasýslu; nam bókbandsiðn og stundaði hana með öðrum störfum. Hann var fljótur að kasta fram lausavísum við ýmis tækifæri og voru þær á vörum margra við Breiðafjörð. [36]

Guðrún Ólafsdóttir (1866-1922) fæddist á Illugastöðum í Laxárdal ytri í Skagafirði. Hún var húsfreyja að Keldulandi á Skagaströnd, A-Húnavatnssýslu.

Guðrún Þorkelsdóttir (1831-1931), fædd á Svaðastöðum í Hofstaðaplássi, húsfreyja á Hvalnesi á Skaga, síðast á Hofstöðum í Hofstaðaplássi, Skagafjarðarsýslu. „Guðrún var mikil búkona, sem hún átti kyn til.“[37]

Gunnar Guðnason (1870-1944) var fæddur á Fótaskinni í Aðaldal en gerðist bóndi á Kjalarnesi í Kjósarsýslu, fyrst í Vestur-Saltvík og síðan á Esjubergi. Hann varð seinna verkamaður í Reykjavík.

Halldór Þorvaldsson (1861-1923) eða Úthlíðar-Dóri var fæddur í Helludal í Biskupstungum; vinnumaður í Úthlíð í Biskupstungum og síðar húsmaður í Deild og í Eimu á Eyrarbakka. Úthlíðar-Dóri stundaði sjóróðra í Njarðvíkum með bræðrum Jóns Lárussonar um 1890, og af þeim lærði Anna Bjarnadóttir væntanlega stemmu hans.

Hallgrímur Jónsson læknir (1787-1861) var fæddur í Borgargerði í Höfðahverfi, S-Þingeyjarsýslu. Hann var bóndi og smáskammtalæknir á Keldum í Sléttuhlíð, síðast í Miklagarði á Langholti í Skagafirði. [38]

Hanna í Holti, sjá Jóhönnu Sesselju Ingólfsdóttur.

Hannes Bjarnason á Ríp (1776-1838) var fæddur í Djúpadal í Blönduhlíð í Skagafirði. Hann var bóndi og stúdent í Kýrholti í Viðvíkursveit en gerðist síðan prestur á Ríp í Hegranesi, Skagafirði. [39]

Hannes Magnússon (1845-1919) var fæddur á Blöndubakka í Refasveit; bjó á Syðri-Ey á Skagaströnd og á Árbakka á Skagaströnd, síðast húsmaður á Árbakkabúð, A-Húnavatnssýslu.

Hákon Hákonarson (1793-1863) var fæddur á Stóru-Seljum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi; húsmaður í Brokey á Breiðafirði.

Herdís Andrésdóttir (1858-1939) skáldkona frá í Flatey á Breiðafirði, tvíburasystir Ólínu Andrésdóttur. Þær systur ólust upp hvor í sínu lagi, Herdís í Geiradal á Barðaströnd en Ólína í Dölum og á Patreksfirði. Þær hittust vart fyrr en á gamals aldri þegar þær settust að í Reykjavík og gáfu þá út ljóðabókina „Ljóðmæli„ árið 1924. Þær urðu þjóðkunnar fyrir kvæði sín. [40]

Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar (1796-1875) var fæddur að Hallandi við Eyjafjörð en ólst upp á Svalbarðsströnd og síðar á Blómsturvöllum í Eyjafirði. Hann fluttist til Skagafjarðar um 1820 og kvæntist þar; bjó um skeið í Bólu og var kenndur við þann bæ enda þótt hann ætti lengst af heimili á Minni-Ökrum í Skagafirði. Bólu-Hjálmar var eitt höfuðskálda sinnar samtíðar þrátt fyrir örðug lífskjör. Hann orti rímur af fornum köppum, svo sem Göngu-Hrólfs rímu, Hjaðningarímu, Hjálmarskviðu, Perusarrímur, Tímarímu hina nýju og Örvar-Odds rímu. [41]

Hjálmar Lárusson (1868-1927), maður Önnu Halldóru Bjarnadóttur, sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar. [42]

Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi (1886-1982) var fæddur á Reykjum í Hrútafirði; ólst upp hjá fósturforeldrum að Mosfelli í Svínadal, A-Húnavatnssýslu en keypti árið 1912 jörðina Mánaskál í Laxárdal fremri og bjó þar í fjögur ár þar til hann fluttist að Hofi á Kjalarnesi. Á Norðurlandi stundaði Hjálmar íþróttir, bæði sund og glímur og á Kjalarnesi stofnaði hann glímufélagið Geisla. Hjálmar gaf út fjórar ljóðabækur. [43]

Hnausa-Sveinn, sjá Svein Jóhannesson á Hnausum.

Hólmfríður Þorláksdóttir (1870-1949) var fædd á Melum á Skarðsströnd í Dalasýslu en fluttist ung út í Rúfeyjar á Breiðafirði og gerðist húsfreyja þar; fluttist um 1910 til Reykjavíkur.

Höskuldur Eyjólfsson (1893-1993) var frá Hofstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði en gerðist bóndi í Saurbæ í Villingaholtshreppi, síðar á Hofstöðum. Hann var kunnur hesta- og tamningamaður og búmaður góður. [44]

Ingibjörg Steinunn Friðriksdóttir (1883-1962), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Ingimundur Sveinsson (1842-1929) var smáskammtalæknir (hómópati) í Austur-Húnavatnssýslu. Hann fæddist í Hólabæ í Langadal, var bóndi á Tungubakka á Laxárdal fremri, síðar húsmaður á Móbergi í Langadal og loks á Stóra-Búrfelli á Ásum. [45]

Ingþór Bjarni Sigurbjörnsson (1909-1992) var frá Kambhóli í Víðidal en ekki skyldur Valdimar K. Benónýssyni frá sama bæ. Hann starfaði sem málarameistari í Reykjavík og tók þátt í stofnun Kvæðamannafélagsins Iðunnar. [46]

Jakob Bjarnason (1873-1894) var fæddur á Þorkelshóli í Víðidal, V-Húnavatnssýslu; var vinnumaður á Holtastöðum í Langadal, A-Húnavatnssýslu en drukknaði rúmlega tvítugur í Blöndu. Jakob var bróðir Þórarins Bjarnasonar.

Jóhann Eiríksson (1858-1936) var úr Reykhólasveit í A-Barðastrandasýslu: fæddist á Miðjanesi og var vinnumaður í Mýrartungu og á Hafrafelli; fluttist síðan vestur í Vatnsdal við Patreksfjörð og eftir 1910 á Grímsstaðaholtið í Reykjavík. Jóhann gekk í Kvæðamannafélagið Iðunni á gamals aldri.

Jóhann Garðar Jóhannsson (1897-1965), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Jóhann Sakkeusson (1848-1917) frá Búrfelli í Miðfirði ól allan sinn aldur í Húnavatnssýslum: var fyrst vinnumaður í Sauðanesi á Ásum en síðan á Refsteinsstöðum í Víðidal.

Jóhann Sveinsson frá Flögu (1897-1981) var fæddur á bænum Myrkárdal en ólst upp í Flögu í Hörgárdal. Hann var kennari, bókavörður og skáld í Reykjavík. [47]

Jóhanna Sesselja Ingólfsdóttir (1874-1947) eða Hanna í Holti var fædd í Hólakoti á Höfðaströnd í Skagafirði en ólst upp á Undirfelli í Vatnsdal. Hanna var vinnukona í Holti á Ásum en gerðist síðan húsfreyja í Reykjavík.

Jóhannes úr Kötlum (1899-1972) var fæddur á Goddastöðum í Laxárdal í Dölum. Hann var kennari í Ljárskógseli og á Sámstöðum í Laxárdal, síðar í Hveragerði og Reykjavík. Jóhannes úr Kötlum orti í anda nýrómantíkur en varð síðan einn af frumkvöðlum atómljóðagerðar hérlendis. Hann sendi frá sér 14 ljóðabækur og fimm skáldsögur fyrir fullorðna en einnig ljóð og sögur fyrir börn. [48]

Jón S. Bergmann (1874-1927) ólst upp á Króksstöðum í Miðfirði í V-Húnavatnssýslu; fór ungur til sjóróðra og gerðist síðan togarasjómaður á enskum skipum. Í einni ferðinni glataðist skipskista hans og þar með allur skáldskapur Jóns í bundnu máli. [49]

Jón Eiríksson (1925-), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Jón Gunnarsson (1844-1892) var bróðir Friðriks Gunnarssonar á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi, fæddur á Mýrum í Hrútafirði en bjó í Sporði í Vesturhópi, V-Húnavatnssýslu. Varð úti ásamt syni sínum við túnfótinn á Sporði í Sporðsfeðgabylnum svonefnda. [50]

Jón Jónsson (1861-1944); fæddur á Hrappsstöðum í Víðidal en var alla ævi bóndi á Hofi í Vatnsdal. Jón var víðkunnur fyrir afskifti sín af félagsmálum og stjórnmálum; fjallkóngur sveitunga sinna í 39 ár. [51]

Jón Konráðsson (1859-1938) var Vatnsdælingur í húð og hár: fæddist í Grímstungu og var síðan bóndi í Kárdalstungu. Jón var um skeið verkamaður á Blönduósi en hélt þá til Kanada og settist að á Gimli í Manitoba. Þar tók hann sér ættarnafnið Kárdal.

Jón Lárusson (1873-1959), bóndi og landskunnur kvæðamaður í Hlíð í Hlíðardal á Vatnsnesi, bróðir Hjálmars Lárussonar (1868-1927). Sjá nánar formála Njáls Sigurðssonar. [52]

Jón Kr. Lárusson (1878-1949) var fæddur í Rifgirðingum á Breiðafirði; var framan af ævi bóndi og skipstjóri við Breiðafjörð, fyrst í Sellóni skammt frá Stykkishólmi, í Arney og síðar í Arnarbæli á Fellsströnd. Jón gerðist verkamaður og fisksali í Reykjavík en var samt jafnan kenndur við Arnarbæli. Hann var kvæðamaður góður og eru upptökur til með kveðskap hans í fórum Ríkisútvarpsins. Jón gaf út sjálfævisögu sína, Ævisögu Breiðfirðings. [53]

Jón Magnússon (1896-1944) var frá Fossakoti í Andakíl í Borgarfirði en ólst upp á Svartagili í Þingvallasveit; stundaði beykisiðn og kaupmennsku í Reykjavík. [54]

Jón Mýrdal Jónsson (1825-1899) trésmiður, skáld og rithöfundur frá Suður-Hvammi í Mýrdal, V-Skaftafellssýslu; bjó á Illugastöðum í Fnjóskadal, S-Þingeyjasýslu, í Rauðseyjum á Breiðafirði og á Akranesi. Kunnasta saga hans er Mannamunur (1872). [55]

Jón Oddsson (1835-1900) var fæddur í Fremri-Langey á Breiðafirði; var lengi á Skarðsströnd í Dalasýslu, m.a. í Grænanesi hjá bænum Melum og í Langeyjarnesi. Hann endaði ævi sína í Rauðseyjum á Breiðafirði. Hólmfríður Þorláksdóttir á Melum hefur lært stemmur af Jóni í frumbernsku og kennt síðan í Iðunni. [56]

Jón Skúlason (1872-1928) var bæði ábúandi í Bjarneyjum og í Fagurey á Breiðafirði; lét konu sína að mestu um búskapinn en var sjálfur á sjó. Vor og haust reri hann frá heimili sínu, á vetrum var hann formaður á Hellissandi, á sumrum skipstjóri á fiskiskipum, ýmist frá Flatey eða Ísafirði. [57]

Jón Þorsteinsson frá Arnarvatni (1859-1948) var helsta skáld Mývetninga fyrir og eftir aldamótin 1900; fæddur á Grænavatni í Mývatnssveit en gerðist bóndi á Arnarvatni. Við þann bæ var hann jafnan kenndur. [58]

Jón Þorsteinsson úr Kjós, Jón Kjósarlangur eða koparhaus (1822-1886) fæddist í Reykjavík; var förumaður víða um land og ekki vel kynntur, kenjóttur og kjöftugur, hafði mikla söngrödd og kvað gjarnan klámvísur. [59]

Jón Þórðarson (1818-1868) var fæddur á Tindum í Geiradal, A-Barðastrandasýslu en bjó á Ströndum: fyrst í Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði og síðan á Einfætingsgili í Bitrufirði. Jón var vinsælt skáld. Merkilegt er að Anna Bjarnadóttir í Bjarnarfirði (1888-1963) skuli læra stemmu hans áratugum eftir að Jón fellur frá. [60]

Jónas Guðmundsson (1840-1886) á Geitaskarði var kallaður smali og kvæðalag hans Smalalagið. Hann var líkt og Sveinn á tólffótunum fæddur í Hallárdal – á Sæunnarstöðum – en hóf búskap á Eyrarlandi á Laxárdal fremri; gerðist síðan vinnumaður á Geitaskarði í Langadal og á Kornsá í Vatnsdal. Bróðir Jónasar smala var Guðmundur lausi eða póli.

Jónas Jónasson (1850-1907) var fæddur á Kagaðarhóli á Ásum, A-Húnavatnssýslu; gerðist bóndi í Blönduhlíð í Skagafirði, fyrst á Torfmýri og síðan á Dýrfinnustöðum, síðast ráðsmaður á Syðri-Hofdölum. [61]

Jónbjörn Gíslason (1879-1969) var meðal þeirra kvæðamanna sem lögðu leið sína að Hrafnaflöt til Hjálmars Lárussonar á Blönduósi. Hann var fæddur í Strjúgsseli (Kárahlíð) á Laxárdal fremri en ólst upp í Núpsöxl á sama dal. Jónbjörn var fyrst húsmaður í Köldukinn á Ásum og á Blönduósi en gerðist síðan verkstjóri og verslunarmaður í Reykjavík. Hann lærði múraraiðn og stundaði hana í Winnipeg í Manitoba, Kanada. Var síðustu árin á Akureyri í skjóli dóttur sinnar. Sjá nánar formála Njáls Sigurðssonar. [62]

Jósep Sveinsson Húnfjörð (1876-1959) frá Illugastöðum á Vatnsnesi, V-Húnavatnssýslu, stundaði sjó heima á Vatnsnesi, á Ísafirði og í Reykjavík. Jósep Húnfjörð þótti góður kvæðamaður og skemmti oft með því efni; var einn af stofnendum Kvæðamannafélagsins Iðunnar og gerður heiðursfélagi. Nokkrar bækur komu út eftir hann í bundnu máli. Móðir Húnfjörðs var Pálína Pálsdóttir.

Júlíana Jónsdóttir (1838-1918) fæddist á Búrfelli í Hálsasveit í Borgarfirði. Hún var vinnukona í Akureyjum á Breiðafirði og bjó síðan í Blaine í Washingtonfylki, Bandaríkjunum. Júlíana gaf fyrst íslenskra kvenna út ljóðabók, Stúlku (1876). Vestra sendi hún frá sér ljóðabókina Hagalagða (1916).

Karl Friðriksson (1891-1970) frá Hvarfi í Víðidal var bóndi og húsasmiður á Efri-Þverá í Vesturhópi, V-Húnavatnssýslu, svo brúarsmiður og síðar umdæmisstjóri hjá Vegagerð ríkisins á Akureyri. [63]

Kjartan Jón Gíslason (1902-1980); bókhaldari og rithöfundur í Reykjavík; kenndi sig jafnan við Mosfell í Grímsnesi.

Kjartan Ólafsson (1880-1962), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Kristinn Árnason á Vesturá (1874-1943) fæddist á Refsstöðum en ólst upp að Vesturá á Laxárdal fremri; var lausamaður og póstur víða í A-Húnavatnssýslu, svo sem á Húnsstöðum á Ásum, á Ytri-Löngumýri og Höllustöðum í Blöndudal, síðar á Kagaðarhóli á Ásum. Kristinn var um tíma gangnastjóri á Auðkúluheiði. Hann var hálfbróðir Guðmundar Finnbogasonar.

Kristinn Kristjánsson (1903-1985) var fæddur á Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dölum; nam söðlasmíði í Reykjavík en gerðist síðan skrifstofumaður og innheimtustjóri í Reykjavík. [64]

Kristinn Stefánsson (1856-1916) fæddist að Egilsá í Skagafirði og fluttist 17 ára einn síns liðs vestur um haf. Þar giftist hann Guðrúnu Jónsdóttur frá Helluvaði í Mývatnssveit. Heimili fjölskyldu hans í Winnipeg í Kanada þótti eitt mesta menningarheimili meðal Íslendinga á þeim slóðum. Kristinn gaf út ljóðabækur og ritaði greinar og sögur í Tímarit Þjóðræknisfélagsins. [65]

Kristín Friðriksdóttir (1901-1992) var Norður-Þingeyingur, fædd að Grund í Kelduhverfi. Hún giftist til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð. [66]

Kristín Jónsdóttir (1858-1946) var fædd í Svefneyjum á Breiðafirði 1858; nam ljósmóðurfræði í Stykkishólmi 1885 og gerðist síðan ljósmóðir í Flateyjarhreppi; fylgdi starfinu að sigla í öllum veðrum milli eyja og aðstoða konur í barnsnauð, en hún var alin upp við sjóvolk og orti vísur í stað þess að láta bilbug á sér finna. [67]

Kristín Sæmundsdóttir (1880-1968) var fædd á Skarfsstöðum í Hvammssveit í Dölum. Hún var húsfreyja á Fjósum við Búðardal, Dalasýslu, síðast í Borgarnesi. [68]

Kristján Jóhannsson (1865-1922) fæddist í Garpsdal í Geiradal en var vinnumaður á Kambi í Reykhólasveit, A-Barðastrandarsýslu og jafnan kenndur við þann bæ; stundaði sjó frá Ísafirði en eyddi síðustu æviárunum í Breiðafjarðareyjum.

Kristján Fjallaskáld (1842-1869) var fæddur í Krossdal í Kelduhverfi, N-Þingeyjasýslu. Hann orti í anda rómantíkur um ættjörð og náttúru, ást og fornar hetjur.

Kristmann Sturlaugsson (1896-1978), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Lárus Erlendsson (1834-1934) var fæddur í Engihlíð í Langadal; bóndi á Smyrlabergi á Ásum og í Holtastaðakoti í Langadal og síðar verkamaður á Blönduósi. Hann var tengdasonur Bólu-Hjálmars en synir hans voru Hjálmar og Jón Lárussynir. Lárus var bróðir Pálma Erlendssonar. [69]

Jóhann Líndal Bjarnason (1870-1943) var fæddur í Sporðshúsum í Línakradal, V-Húnavatnssýslu; lausamaður á Stóru-Borg í Vesturhópi og síðar húsmaður á Stóru-Giljá í Þingi, A-Húnavatnssýslu.

Loftur Bjarnason (1883-1956) var Strandamaður, bróðir Önnu Halldóru Bjarnadóttur; fæddur á Bassastöðum á Selströnd en gerðist bóndi í Asparvík í Nessveit; settist síðan að á Hólmavík og starfaði þar sem smiður og skipstjóri.

Lúðvík Blöndal (1822-1874) var fæddur í Hvammi í Vatnsdal, A-Húnavatnssýslu, trésmiður og skáld í Hvammi, síðast á Auðshaugi á Hjarðarnesi, V-Barðastrandasýslu; hann þótti óstöðugur í lífi og drykkfelldur en skáldmæltur vel og orti rímur að þeirra tíma sið. [70]

Magnús Guðmundsson (1870-1914) var fæddur í Belgsdal í Saurbæ, Dalasýslu, gerðist skósmiður á Ísafirði, síðan í Reykjavík og loks á Flateyri við Önundarfjörð. Hann var kennamaður mikill, hrókur alls fagnaðar á skemmtunum og kvað vísur eða lék á harmónikku.

Magnús í Magnússkógum (Jónsson) (1763-1840) var fæddur í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu; var með einstæðri móður sinni víða í Húnavatnssýslu en gerðist síðan vermaður undir Jökli og stundaði smíðar; bjó frá 1787 í Magnússkógum í Hvammssveit og síðast að Laugum í Sælingsdal, Dalasýslu. Hann þótti níðskældinn og ekki alveg laus við smákerkskni. [71]

Magnús Pétursson (1891-1971), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Magnús Sigurðsson (1880-1944), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Markús Hallgrímsson (1900-1965) var fæddur í Túngarði á Fellsströnd, Dalasýslu en starfaði sem smiður og verkstjóri í Reykjavík. [72]

Matthías Jochumsson (1835-1920) var eitt helsta skáld rómantísku stefnunnar á Íslandi; fæddist að Skógum í Þorskafirði, A-Barðastrandasýslu en stundaði prestsskap á Móum á Kjalarnesi, á Odda á Rangárvöllum og síðar á Sigurhæðum á Akureyri. [73]

Natan Líndal Ketilsson (1795-1828) var frá Strjúgsstöðum í Langadal, A-Húnavatnssýslu; var snemma bráðger og bókhneigður, vel hagmæltur en tregur til vinnu; hóf snemma grasalækningar og þótti takast vel; nam veturlangt í Kaupmannahöfn hjá dönskum lyfsala; settist að á Illugastöðum á Vatnsnesi, gat börn við margar konur – frægust þeirra Vatnsenda-Rósa eða Skáld-Rósa. Natan var veginn af tveimur vinnukonum sínum, Agnesi Magnúsdóttur og Sigríði Guðmundsdótur en Friðrik Sigurðsson, lagði þeim lið. Agnes og Friðrik voru hálshöggvin en Sigríður lést eftir níu ára fangelsisvist í Kaupmannahöfn, 28 ára að aldri. [74]

Ólafur Bjarnason seigi (1867-1953) var frá Stafni í Svartárdal og kenndur við þann bæ; lausamaður á Keldulandi á Kjálka í Skagafirði, síðar á Æsustöðum í Langadal og loks á Skeggstöðum í Svartárdal. Hann kvað sérkennilegar vísur um granna sína og hitti oft á skringilegar líkingar eins og þessi vísa ber með sér:[75]

Gvendur púta gömlum hrúti líkur.
Æði þrútinn er um kinn
eins og sútað húðarskinn.

Ólafur Ólafsson sjóli (1849-1906) var frá Syðra-Rauðamel í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadalssýslu; lausamaður á Björnólfsstöðum og bóndi á Miðgili í Langadal, síðast á Kaldrana á Skaga. Fór1900 með fjölskyldu sína vestur um haf og gerðist bóndi í Mountain í Norður-Dakota, Bandaríkjunum, síðast í Árdalsbyggð á Nýja-Íslandi, Kanada; tók vestra upp ættarnafnið Johnson. [76]

Ólína Andrésdóttir (1858-1935) var fædd í Flatey á Breiðafirði. Hún gerðist vinnukona á Hvítadal í Saurbæ, Dalasýslu og á Patreksfirði, en gat sér síðar orð sem skáldkona í Reykjavík; var tvíburasystir Herdísar Andrésdóttur. Þær systur urðu landskunnar fyrir Ljóðmæli sem komu út árið 1924. [77]

Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum (1857-1933) lærði til ljósmóður en köllun hennar var fyrst og fremst að sinna ritstörfum; var eindregin kvenréttindakona og orti um kvenlega reynslu og eigin þrá til frelsis og listsköpunar. Ólöf var húsfreyja á Hlöðum í Hörgárdal og við þann bæ var hún kennd; fluttist til Akureyrar og loks til Reykjavíkur. [78]

Pálína Pálsdóttir (1852-1915) var móðir Jóseps S. Húnfjörð kvæðamanns, fædd í Ásbjarnarnesi í Vesturhópi; var vinnukona í Vesturhópshólum í Vesturhópi, húskona á Kistu á Vatnsnesi og á Blönduósi.

Páll Ólafsson (1827-1905) var eitt kunnasta alþýðuskáld Íslendinga á sinni tíð, fæddur að Dvergasteini við Seyðisfjörð en gerðist bóndi á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu og í Nesi í Loðmundarfirði; var um skeið þingmaður Norðmýlinga. Kunnastur er Páll fyrir ástarljóð sín. [79]

Páll Vídalín Jónsson (1667-1727) var frá Víðidalstungu í Víðidal, V-Húnavatnssýslu; gerðist rektor í Skálholti í Biskupstungum, síðar sýslumaður og lögmaður í Víðidalstungu. [80]

Páll Þorsteinsson (um 1795-1829) fæddist á Reykjavöllum á Neðribyggð; bóndi og hagyrðingur í Pottagerði á Víkurengjum, síðar á Grænhóli í Borgarsveit, Skagafirði. Hann þótti hraðkvæður með afbrigðum. [81]

Pálmi Erlendsson (1849-1909), bróðir Lárusar Erlendssonar, fæddist á Sneis á Laxárdal fremri og bjó ýmist þar í dal eða í Norðurárdal, fyrst í Hvammi, þá á Neðra-Skúfi og síðan á Vesturá. Hann flosnaði upp og gerðist húsmaður á Sauðárkróki, síðan í Reykjavík og loks vetrarmaður í Kaldaðarnesi í Flóa, Árnessýslu. [82]

Ragnheiður Pálsdóttir (1866-1930) var fædd á Auðunarstöðum í Víðidal en ólst upp í Dæli. Hún giftist sr. Jóni Þorlákssyni presti á Tjörn á Vatnsnesi, síðar á Patreksfirði.

Ragnheiður Ingibjörg Sveinsdóttir (1871-1927); fædd á Enni í Refasveit, A-Húnavatnssýslu; húsfreyja þar og í Skrapatungu á Laxárdal fremri, síðar í Skuld á Blönduósi.

Ragnhildur Ebenesersdóttir (1878-1930) fæddist á Stóra-Ósi í Miðfirði, dóttir Ebenesers Árnasonar (1840-1913). Hún var vinnukona á Stöpum og í Saurbæ á Vatnsnesi, síðar húskona á Syðri-Reykjum í Miðfirði og á Gauksmýri í Línakradal, V-Húnavatnssýslu.

Sigríður Friðriksdóttir (1886-1982), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar. [83]

Sigríður Hjálmarsdóttir (1910-1986), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Sigríður Sigfúsdóttir Blöndal (1853-1936) frá Tjörn á Vatnsnesi; húsfreyja á Útibleiksstöðum á Heggstaðanesi og í Kirkjuhvammi á Vatnsnesi; síðar vinnukona í Reykjavík.

Sigrún Gestsdóttir (1874-1929) var fædd á Ormsstöðum í Skógum, S-Þingeyjarsýslu en ólst upp á Fossi í Vopnafirði. Hún giftist Stefáni Eiríkssyni (1862-1924) útskurðarmeistara sem kenndi m.a. listamönnunum Ríkarði Jónssyni og Gunnlaugi Blöndal.

Sigurbjörn Hansson (1859-1901) bjó alla sína tíð á Vatnsnesi, V-Húnavatnssýslu; fæddist á Þorgrímsstöðum og var bóndi á Vigdísarstöðum.

Sigurbjörn Jóhannsson á Fótaskinni (1839-1903) var fæddur á Breiðumýri í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu; stundaði búskap á Fótaskinni í Aðaldal (nú Helluland) og á Hólmavaði; var afar hagmæltur en margan sveið undan kviðlingum hans; hrökklaðist til Argylebyggð í Manitoba, Kanada, og bjó þar til æviloka. [84]

Sigurður Bjarnason (1841-1865) frá Tungu á Vatnsnesi; stundaði sjó frá Bergsstöðum en fórst ungur í róðri. Var afar hagmæltur; orti m.a. Rímur af Hjálmari og Ingibjörgu. [85]

Sigurður Breiðfjörð (1798-1846), fæddur í Rifgirðingum á Breiðafirði; eitt kunnasta rímnaskáld 19. aldar; lærði beykisiðn í Kaupmannahöfn og vann víða við þá iðn sína, m.a. á Grænlandi. Kunnustu rímur Sigurðar eru af Tistrani og Indiönu (1831). Sjá nánar formála Guðmundar Andra Thorssonar. [86]

Sigurður Jóhannesson á Mánaskál (1841-1923) var fæddur í Miklabæjarsókn í Óslandshlíð í Skagafirði en ólst upp á Síðu í Refasveit; bóndi og alþýðuskáld á Mánaskál, síðar húsmaður í Gautsdal á Laxárdal fremri. Fór 1873 til Winnipeg í Kanada. [87]

Sigurður Jónasson (1903-1933) ólst upp á Ásum á Bakásum í A-Húnavatnssýslu; fluttist ásamt foreldrum sínum að Álfgeirsvöllum í Skagafirði; starfaði við bú Thors Jensen á Lágafelli í Kjós og við vöruflutninga en hóf síðan búskap Álfgeirsvöllum. Fórst í bílslysi. [88]

Sigurður Jónsson (1846-1904) var frá Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi, Hnappadalssýslu; húsmaður í Fjósakoti í Saurbæ, Dalasýslu og síðar bóndi á Kaldárbakka og á Fögrubrekku í Kolbeinsstaðarhreppi; faðir Magnúsar Sigurðssonar.

Sigurður Magnússon (1856-1939) hundalæknir (hundadoktor) í Vonarholti, Arnkötludal undir Tröllatunguheiði á Ströndum; fór víða um Strandir og Dali við hundahreinsun; dittaði þá að hjá bændum með smíðatólum sem hann hafði í poka um axlir sér, fór í leiki með börnum og kvað stemmur. Jón Leifs tónskáld hljóðritaði Sigurð kveða. [89]

Sigurður Sigurðsson Straumfjörð (1876-1957), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Símon Dalaskáld (1844-1916) var frá Höskuldsstöðum í Skagafirði; hlaut viðurnefni sitt af því að búa lengst af í framdölum Skagafjarðar; fór um landið og seldi bækur sínar; var hraðkvæður með afbrigðum og orti rímur og tækifærisvísur. [90]

Stefán Guðmundsson (1845-1920) var fæddur á Stóra-Grindli í Fljótum; bóndi og vefari í Brennigerði í Borgarsveit, Skagafirði, síðar á Kirkjuskarði á Laxárdal fremri, A-Húnavatnssýslu; var sönglaginn, hafði laglega kvæðarödd og gerði nokkuð af því að kveða rímur heima hjá sér; faðir Björns Stefánssonar. [91]

Stefán frá Hvítadal (1887-1933) fæddist á Hólmavík í Steingrímsfirði; ólst upp frá 15 ára aldri á bænum Hvítadal í Saurbæ í Dölum og kenndi sig við þann bæ; nam prentiðn og dvaldist um skeið í Noregi en stundaði síðan búskap í Dölum. Stefán frá Hvítadal er eitt fremsta skáld nýrómantíkur í íslenskum bókmenntum.

Stefán Vagnsson (1889-1963) var frá Miðhúsum í Blönduhlíð í Skagafirði; stundaði búskap á Hjaltastöðum í Blönduhlíð en gerðist síðan skrifstofumaður á Sauðárkróki. [92]

Steingrímur Thorsteinsson (1831-1913) var eitt helsta ljóðskáld rómantísku stefnunnar í íslenskum bókmenntum. Ættjarðarkvæði hans voru á hvers manns vörum og sungin við lög innlendra og erlendra tónskálda. [93]

Steinn Sigurðsson (1872-1940) frá Fagurhóli á A-Landeyjum; bóndi þar, síðan kennari í Vestmannaeyjum og í Garðahreppi. Hann var kunnur fyrir kvæði sín og tónskáld leituðu fanga í smiðju hans. [94]

Stephan G. Stephansson (1853-1927) var fæddur á Kirkjuhóli í Seyluhreppi, Skagafirði en fluttist til Bandaríkja Norður-Ameríku 1873 og til Kanada 1889; bjó þar til dauðadags. Af búsetu sinni hlaut Stephan G. Stephansson viðurnefnið Klettafjallaskáldið. [95]

Sveinbjörn Björnsson (1855-1931) var fæddur í Narfakoti á Vatnsleysuströnd; hafði lífsviðurværi sitt af steinsmíði í Hafnarfirði, síðar í Reykjavík. [96]

Svanborg Lýðsdóttir (1863-1954) var frá Hlíð í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu; vann frækinn sigur ásamt manni sínum Skúla Guðmundssyni á sandfoki sem ógnaði bæ þeirra, Keldum á Rangárvöllum. [97]

Sveinn Hannesson frá Elivogum (1889-1945), fæddur í Móbergsseli í Litla-Vatnsskarði, A-Húnavatnssýslu; ólst upp í Skagafirði en bjó á Sneis og Refsstöðum á Laxárdal fremri. Var níðskældinn um sveitunga sína og galt þess. [98]

Sveinn Jóhannesson eða Hnausa-Sveinn (1836-1890) var fæddur á Breiðabólstað í Vatnsdal en gerðist vinnumaður í Hnausum í Þingi, A-Húnavatnssýslu; sótti sjó í Reykjarfirði á Ströndum og síðast á Ísafirði; fórst í sjóslysi. [99]

Sveinn Jóhannesson „á tólffótunum„ (1856-1889) var fæddur á Vakursstöðum í Hallárdal, A-Húnavatnssýslu; fóstraður að Núpsöxl á Laxárdal fremri og gerist vinnumaður á Kirkjubæ í Norðurárdal; 1880 er Sveinn við sjóróðra á Brimnesi í Ólafsfirði, kemur 1887 af Höfðaströnd í Skagafirði að Efstalandskoti í Öxnadal og fer1889 til unnustu sinnar að Skógum á Þelamörk; deyr þar.

Sveinn Jónsson frá Hjallalandi (1872-1963) var fæddur á Sigríðarstöðum í Vesturhópi; hreppsómagi á sífelldum flækingi milli bæja, vannærður og umhirðulaus; fór ungur til sjós á Suðurnesjum og braggaðist af lýsisdrykkju; réri ferju yfir Hrútafjörð, síðar lausamaður á Hjallalandi og vinnumaður í Grímstungu í Vatnsdal; bróðir Þorleifs Helga Jónssonar. [100]

Sveinn Jónsson (1889-1966) fæddist í Norðurkoti hjá Fuglavík á Miðnesi, Gullbringusýslu; bóndi í Saltvík á Kjalarnesi, Kjósarsýslu og síðan sjómaður í Reykjavík.

Sveinn Sölvason (1722-1782) var frá Grund í Eyjafirði en gerðist lögmaður á Munkaþverá; lét eftir sig erfiljóð, rímur, fræðirit og annála. [101]

Theodóra (Friðrika) Thoroddsen (Guðmundsdóttir) (1863-1954), fædd á Kvennabrekku í Miðdölum, Dalasýslu, húsfreyja og skáldkona á Ísafirði, síðar á Bessastöðum á Álftanesi, Gullbringusýslu, og loks í Reykjavík. Theodóra var „mjög vel ritfær, skáldmælt og listhneigð. Orti þulur, kvæði og stökur, samdi smásögur, skráði minningar frá liðinni tíð.“[102] „Hún var mannblendin, djarfmælt, hvort sem rætt var um menn eða málefni, og svo vinsæl, að allir vildu hennar sóma sem mestan.“[103]

Tómas Skúlason (1879-1941) frá Mið-Vatni á Efribyggð í Skagafirði; bóndi í Álftagerði en síðan fasteignasali í Reykjavík.

Tyrfingur Agnarsson (1908-1981) fæddist í Hafnarfirði en ólst upp á Kötlustöðum í Vatnsdal; stundaði veitingarekstur í Reykjavík og sjómennsku. [104]

Úthlíðar-Dóri, sjá Halldór Þorvaldsson.

Valdimar Kamillus Benónýsson (1885-1968); fæddur á Kambhóli í Víðidal; einn kunnasti hagyrðingur Húnvetninga á sinni tíð. Bjó í Húnavatnssýslu, síðast á Ægisíðu á Vatnsnesi; gerðist mæðiveikisvörður á sumrin en bjó í Reykjavík á vetrum: Barnsmóðir Valdimars, Þuríður Friðriksdóttir, kveður tvær stemmur eftir hann, nr. 109 og 110. [105]

Þorlákur Guðbrandsson Vídalín (um1673-1707) var frá Ási í Vatnsdal; sýslumaður í Súðavík við Álftafjörð og síðar í Efri-Miðvík í Aðalvík á Hornströndum. [106]

Þorleifur Jónsson (1896-1983) frá Skálateigi í Norðfirði starfaði sem lögreglumður, málflutningsmaður og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, síðan framkvæmdastjóri og sveitastjóri á Eskifirði. [107]

Þorleifur Jónsson (1878-1958) myndaði ásamt Hjálmari Lárusson og Jónbirni Gíslasyni hina heilögu þrenningu kvæðamanna á Blönduósi. Þorleifur var frá Vatnsnesi, fæddur á Egilsstöðum, en gerðist lausamaður í Forsæludal í Vatnsdal áður en hann varð verkamaður á Blönduósi. [108]

Þorsteinn Erlingsson (1858-1914) fæddist í Stóru-Mörk í Fljótshlíð en ólst upp í Hlíðarendakoti. Hann var skáld og ritstjóri á Seyðisfirði og á Bíldudal, síðar kennari í Reykjavík. Hann var mótaður af rómantísku stefnunni en gerðist jafnaðarmaður á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og orti mörg þekktustu kvæði sín í anda raunsæis. [109]

Þórarinn Bjarnason (1877-1966) fæddist á Syðri-Þverá í Vesturhópi en ólst upp á Jörfa í Víðidal; húsmaður á Blönduósi, síðar bóndi á Vatnsenda í Vesturhópi og loks járnsmiður í Hafnarsmiðjunni í Reykjavík; bróðir Jakobs Bjarnasonar. [110]

Þórarinn Sveinsson (1873-1957), fæddur í Kílakoti í Kelduhverfi, N-Þingeyjarsýslu, bóndi og skáld í Kílakoti. Þórarinn „var meðalmaður á hæð, fremur grannvaxinn, en þó vel á sig kominn að þreki. Hann hafði mjög hýrlegt viðmót og einkennilega geislandi augu. Ávörp hans og tilsvör voru venjulega gamni blandin og glettin, ef því varð við komið efnis vegna.“[111]

Þórður Magnússon (um 1545-um 1610), frá Strjúgi í Langadal, A-Húnavatnssýslu, bóndi og skáld á Strjúgi. Þórður „var vinsælt skáld á sinni tíð, og enn kunna menn vísur eftir hann. Eftir hann eru varðveittar Rollantsrímur, Valdimarsrímur og Fjósaríma, auk þess kvæði og vísur.„[112]

Þuríður Friðriksdóttir (1887-1954), sjá nánar kaflann um kvæðamenn Iðunnar.

Athugið: Upplýsingar um kvæðamenn og vísnahöfunda eru fengnar úr manntölum og kirkjubókum nema vísað sé í tilvísanaskrá.

Tilvísanaskrá

[1] P.V.G. Kolka: Föðurtún. Útgefandi P.V.G. Kolka. Reykjavík 1950, bls. 314-317, 354-355.

[2] Magnús Björnsson: „Saga Nikulásar.” Troðningar og Tóftarbrot. Svipir og sagnir III. Húnvetningafélagið í Reykjavík. Reykjavík 1953, bls. 160-161.

[3] Jón Marteinsson: „Ábúendur á Reykjum í Hrútafirði og fleira úr fórum hans.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 19.árgangur. Reykjavík 1994. bls. 76-80. Kristmundur Bjarnason: „Frá Baldvini skálda” Langt inn í liðna tíð. Minningaþættir frá 19. öld. Kristmundur Bjarnason sá um útgáfuna. Bókaútgáfan Norðri. 1952, bls. 186-198.

[4] Gerrard, Nelson S.: Icelandic river saga. Saga Publications. Arborg, Manitoba 1985, bls. 529-530.

[5]Kristmundur Bjarnason: „Þorvaldur Sveinsson. Frá Baldvini skálda.” Langt inn í liðna tíð. Minningarþættir frá 19. öld. Bókaútgáfan Norðri.

[6] Björn H. Jónsson: „Brot úr ævi Benedikts í Hnausakoti.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 22. árgangur. Reykjavík 1998, bls. 83-87.

[7] Brynleifur Tobiasson: Hver er maðurinn. Íslendingaævir. 1. bindi. Bókaforlag Fagurskinna, Reykjavík 1944, bls. 46-49.

[8] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 1. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1948, bls. 123-124.

[9] P.V.G. Kolka: Föðurtún, bls. 314-317.

[10] Hjálmar Jónsson frá Bólu: Ritsafn III. Laust mál. Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík 1965, bls. 264-265.

[11] Guðmundur Frímann: Þannig er ég – viljirðu vita það. Ósamstæðir minningaþættir um lifandi menn og dauða. Bókaútgáfan Ögur. 1978, bls. 64-64.

Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1910-1950. 1. bindi. Umsjón og ritstjórn: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1994, bls. 44-49 og64-65.

[12] „Björn Jóhannesson.” Minningargrein. Alþýðublaðið 24. nóvember 1964, bls. 1 og 27. nóvember 1964, bls. 5.

[13] „Björn Magnússon Ólsen prófessor, Dr. Phil.” Ritað af J. Ól. Óðinn. Júlí 1910. 4. blað. 6. ár.

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 1. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1948, bls. 236-239.

[14] Gunnar Árnason: „Af Laxárdal.” Troðningar og Tóftarbrot. Svipir og sagnir III. Húnvetningafélagið í Reykjavík. Reykjavík 1953, bls. 264-267.

[15] Skáldið frá Fagraskógi. Endurminningar samferðamanna um Davíð Stefánsson. Árni Kristjánsson og Andrés Björnsson sáu um útgáfuna. Kvöldvökuútgáfan. Reykjavík 1965, bls. 102 og 148-149.

[16] Hafsteinn Sigurbjarnarson: Ævisaga Hafsteins Sigurbjarnarsonar, Reykholti í Höfðakaupstað. Prentsmiðjan Leiftur hf. Reykjavík 1974, bls. 10-12.

[17] Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar. 6. bindi. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Bókfellsútgáfan. Reykjavík 1957, bls. 6-9.

[18] Bergsveinn Skúlason: Gamlir grannar – viðtöl og minningar. Skuggsjá. Hafnarfjörur 1976, bls. 7-25.

[19] Einar Andrésson: „Einar Andrésson í Bólu” Menn og minjar. Íslenzkur fróðleikur og skemmtun. 6. bindi. Leiftur hf. Reykjavík 1949, 14-17.

[20] Valgeir Sigurðsson: Rangvellingabók: Saga jarða og ábúðar í Rangárvallahreppi. Síðara bindi. Rangárvallahreppur. Hella 1982, bls. 420-421.

Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. Fyrra bindi. Mál og menning. Reykjavík 1969, bls. 26-37 og 198-201.

[21] „Einar E. Sæmundsen. ” Minningargrein. Tíminn 25. febrúar 1953, bls. 3 og Morgunblaðið 25. febrúar 1953, bls 7 og 12.

[22] Borgfirzkar æviskrár. Safnað hafa og skráð: Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason og Guðmundur Illugason. 2. bindi. Sögufélag Borgarfjarðar. Akranesi 1971, bls. 188.

Jón Guðnason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965. 6. bindi. Hið íslenska bókmenntafjelag. Reykjavík 1976, bls. 112-115.

[23] „Eiríkur Jónsson járnsmiður.” Minningargrein. Morgunblaðið 29. janúar 1975, bls 14-15.

[24] Borgfirzkar æviskrár. Safnað hafa og skráð: Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason og Guðmundur Illugason. 2. bindi. Sögufélag Borgarfjarðar. Akranesi 1971, bls. 284-287.

[25] Ingvar Pálsson: „Förumenn.” Húnavaka. 29.ár – 1989. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1989, 170-173.

Magnús Björnsson á Syðra-Hóli: Mannaferðir og fornar slóðir. Bókaforlag Odds Björnssonar. Akureyri 1957, bls. 82-83.

[26] „Kaflar úr endurminningum Guðbjargar S. Árnadóttur.„ Húni. Sögur, sagnir og kveðlingar. 11. árgangur 1989. útgefandi: Ungmennasamband Vestur-Húnavatnssýslu,16-17.

[27] „Gísli Konráðsson” Merkir Íslendingar. Nýr flokkur. 5. bindi. Bókfellsútgáfan hf. Reykjavík 1966, bls. 110-113.

[28] Glóðafeykir. Félagstíðindi Kaupfélags Skagfirðinga. 15. hefti. Nóvember 1974, bls. 53.

Gunnar Árnason: „Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 2. árgangur. Reykjavík 1974, bls. 47-63.

Þórhildur Sveinsdóttir: „Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 10. árgangur. Reykjavík 1985, bls. 71-75.

Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1910-1950. 4. bindi. Umsjón og ritstjórn: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 2000, bls. 50-55.

[29] „Síra Guðlaugur Guðmundsson.” Minningargrein. Vísir 16. mars 1931, bls. 2.

[30] Haraldur Pétursson: Kjósarmenn. Æviskrár ásamt sveitarlýsingu eftir Ellert Eggertsson. Átthagafélag Kjósverja. Reykjavík 1961, 58-59.

[31] „Guðmundur Eyjólfsson Geirdal skáld.” Minningargrein. Morgunblaðið 25. mars 1952, bls. 8.

[32] „Guðmundur Friðjónsson skáld.” Minningargrein. Dagur 29. júní 1944, bls. 3, Íslendingur 7. júlí 1944 og Vísir 2. júní 1944.

Þóroddur Guðmundsson: Guðmundur Friðjónsson. Ævi og störf. Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík 1950, bls. 308-309.

[33] „Ég skal moka” Ársritið Húnvetningur 1960. Húnvetningafélagið á Akureyri, bls. 49.

Ingvar Pálsson: „Förumenn.” Húnavaka. 29.ár – 1989. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1989, 166-171.

[34] „Guðmundur Guðmundsson skáld.” Óðinn. Febrúar 1906. 11. blað. 1. ár, bls. 84.

[35] Þorsteinn Jónsson: Bólu-Hjálmar. Niðjar og ævi. Niðjatal Hjálmars Jónssonar skálds í Bólu og konu hans Guðnýjar Ólafsdóttur. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1997.

[36] Jón Guðnason: Dalamenn. Æviskrár 1703-1961. 2. bindi. Gefið út á kostnað höfundar. Reykjavík 1961, bls. 334-335.

[37] Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1890-1910. 1. bindi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1966, bls. 270.

[38] Margeir Jónsson: Heimar horfins tíma. Rannsóknir og sagnir úr safni Margeirs Jónssonar á Ögmundarstöðum. Friðrik Margeirsson og Hjalti Pálsson sáu um útgáfuna. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkrókur 1989, 56-59.

Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1850-1890. 6. bindi. Aðalhöfundur er Guðmundur Sigurður Jóhannsson. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1992, bls. 100-107.

[39] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 2. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1949, bls. 304-305.

[40] Þorsteinn Jónsson: Eylenda II., Æviskrár og saga Flateyjarhrepps. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1996, bls. 158-159.

[41] Handrit Guðmundar Sigurðar Jóhannessonar fræðimanns á Sauðárkróki. Héraðsskjalasafnið á Sauðárkróki

[42] Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. Fyrra bindi. Mál og menning. Reykjavík 1969, bls. 26-37 og 198-201.

[43] „Flótti Jóns Pálma Jónssonar” Skagfirðingabók. Rit Sögufélags Skagfirðinga. Ritstjórn Gísli Magnússon, Hjalti Pálsson, Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson. 22. árgangur. Sögufélag Skagfirðinga. Reykjavík 1993, bls 142-145.

„Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi.” Minningargrein. Morgunblaðið 2. júní 1982, bls. 24.

[44] Brynjólfur Ámundason: Ábúendatal Villingaholtshrepps 1801-1981. Reykjavík 1983. Fyrra bindi, bls. 356-359.

[45] Magnús Björnsson: „Hafnamenn á Skaga.” Búsæld og barningur. Svipir og sagnir IV. Húnvetningafélagið í Reykjavík. Reykjavík 1955, bls. 176-179.

[46] Gjafabréf til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. „Bækur úr eigu hjónanna Ingþórs Sigurbjörnssonar málarameistara og Unu Pétursdóttur.” Héraðsskjalasafnið á Sauðárkróki.

[47] „Jóhann Sveinsson frá Flögu.” Minningargrein. Morgunblaðið 12. mars 1981, bls. 36-37.

[48] „Jóhannes skáld úr Kötlum.” Minningargrein. Íslendingaþættir Tímans. 9. tbl. 5. árg. 1. júní 1975, bls. 1-3 og 10. tbl. 5. árg. 29. júní 1975, bls. 12-15.

[49] Brynleifur Tobiasson: Hver er maðurinn. Íslendingaævir. 1. bindi. Bókaforlag Fagurskinna, Reykjavík 1944, bls. 397-398.

Þórarinn Egilsson: „Minning Jóns Bergmanns skálds” Húni. Sögur, sagnir og kveðlingar. Útgefandi USVH. 1987, bls. 80-87.

[50] Þórarinn Egilsson: „Minning Jóns Bergmanns skálds” Húni. Sögur, sagnir og kveðlingar. Útgefandi USVH. 1987, bls. 80-87.

[51] „Jón Jónsson, Hofi, Vatnsdal.” Minningargrein. Morgunblaðið 28. júní 1944, bls. 4.

Magnús Magnússon: Syndugur maður segir frá. Minningar og mannlýsingar. Prentsmiðjan Leiftur hf. Reykjavík 1969, bls. 34-35.

Ríkisútvarpið 1941.

Pálmi Jónsson: „Að kveða sig úr kútnum.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 17. árgangur. Reykjavík 1993, bls. 49-65.

[53] Jón Guðnason: Dalamenn. Æviskrár 1703-1961. 2. bindi. Gefið út á kostnað höfundar. Reykjavík 1961, bls. 194-195.

[54] „Jón Magnússon skáld.” Minningargrein. Morgunblaðið 4. mars 1944, bls. 8.

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 5. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1952, bls 404.

[55] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 3. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1950, bls. 229.

[56] Magnús Bl. Jónsson: Endurminningar I. Bernska og námsár. Ljóðhús. Reykjavík 1980, bls. 190-195, 256-259 og 296-297.

[57] Jónas Árnason: Syndin er lævís og lipur. Stríðsminningar Jóns Kristófers. Ægisútgáfan. Reykjavík 1962, 14-17.

Þorsteinn Jónsson: Eylenda I., Ábúendur í Flateyjarhreppi og þjóðlífsþættir. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1996, bls. 46-47.

[58] „Jón Þorsteinsson skáld á Arnarvatni.” Minningargrein. Dagur 1. september

[59] Borgfirzkar æviskrár. Safnað hafa og skráð: Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason og Guðmundur Illugason. 6. bindi. Sögufélag Borgarfjarðar. Akranesi 1979, bls. 113 og 314-317.

Kristleifur Þorsteinsson: Úr byggðum Borgarfjarðar II. Leiftur. Reykjavík 1971-1972.

[60] Jón Guðnason: Strandamenn. Æviskrár 1703-1953. Gefið út á kostnað höfundar. Reykjavík 1955, bls. 160-161.

[61] Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1890-1910. 2. bindi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1966, bls. 186-187.

[62] Bjarni Jónasson: „Litazt um í Svínavatnshreppi.” Húnavaka. 21.ár – 1981. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1981, 118-119.

Guðmundur Frímann: Þannig er ég – viljirðu vita það. Ósamstæðir minningaþættir um lifandi menn og dauða. Bókaútgáfan Ögur. 1978, bls. 110-111.

[63] „Karl Friðriksson brúarsmiður.” Minningargrein. Morgunblaðið 3. apríl 1970, bls 22.

[64] „Kristinn Kristjánsson.” Minningargrein. Morgunblaðið 25. október 1985, bls. 44.

[65] „Kristinn Stefánsson” Lögberg. Winnipeg, Manitoba. 5. október 1916.

Vestur-íslenskar æviskrár. Benjamín Kristjánsson bjó undir prentun. III. Bindi. Bókaforlag Odds Björnssonar. Akureyri 1968, bls. 306-307.

[66] „Kristín Friðriksdóttir.” Minningargrein. Morgunblaðið 17. mars 1992, bls. 44-45.

[67] Bergsveinn Skúlason: „Kristín Jónsdóttir”. Íslenskar ljósmæður I. Æviþættir og endurminningar. Séra Sveinn Víkingur bjó til prentunar. Kvöldvökuútgáfan. Akureyri 1962, bls. 87-96.

Ljósmæður á Íslandi I. Rit þetta er gefið út í tilefni af 60 ára afmæli Ljósmæðrafélags Íslands 2. maí 1979. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Ljósmæðrafélag Íslands. Reykjavík 1984, bls. 394.

Þorsteinn Jónsson: Eylenda I., Ábúendur í Flateyjarhreppi og þjóðlífsþættir. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1996, bls. 167-169.

[68] Munnleg heimild: Sigurður Þorsteinsson iðnverkamaður, Borgarnesi.

[69] Hjálmar Jónsson frá Bólu: Ritsafn III. Laust mál. Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík 1965, bls. 264-269.

Þorsteinn Jónsson: Bólu-Hjálmar. Niðjar og ævi. Niðjatal Hjálmars Jónssonar skálds í Bólu og konu hans Guðnýjar Ólafsdóttur. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1997, bls. 75.

[70] Lárus Jóhannesson: Blöndalsættin. Niðjatal Guðrúnar Þórðardóttur og Björns Auðunssonar Blöndals sýslumanns í Hvammi í Vatnsdal. Jón Gíslason bjó til prentunar. Skuggsjá. Bókabúð Olivers Steins sf. 1981, bls. 99-103.

[71] Oscar Clausen: Prestasögur. Fyrra bindi. Ísafoldarprentsmiðja. Reykjavík 1960, bls. 96-101.

Jón Guðnason: Dalamenn. Æviskrár 1703-1961. 2. bindi. Gefið út á kostnað höfundar. Reykjavík 1961, bls. 10-11.

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 3. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1950, bls. 437.

[72] „Markús Hallgrímsson frá Túngarði.” Minningargrein. Tíminn 27. júlí 1965, bls. 7.

[73] „Síra Matthías Jochumsson.” Óðinn. Nóvember 1905. 8. blað. 1. ár, bls. 57-58.

Valgeir Sigurðsson: Rangvellingabók: Saga jarða og ábúðar í Rangárvallahreppi. Fyrra bindi. Rangárvallahreppur. Hella 1982, 332-334.

[74] Guðlaugur Guðmundsson: Enginn má undan líta. Sagnfræðilegt skáldrit, sem varpar nýju ljósi á morðmálin í Húnaþingi, aðdraganda þeirra og afleiðingar. Bókaútgáfan Örn og Örlygur. Reykjavík 1974.

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 3. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1950, bls. 487.

[75] Rósberg G. Snædal: Skáldið frá Elivogum og fleira fólk. Bókaútgáfan Iðunn. Reykjavík 1973, bls. 77-87.

Sverrir Haraldsson: „Frá höfuðbóli í eyðiból.” Húnavaka. 34.ár – 1994. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1994, 152-153.

[76] Almanak fyrir árið 1931. Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi og fleira. 37. ár. Útgefandi Ólafur S. Thorgeirsson. Winnipeg 1931, bls. 52-55.

[77] Þorsteinn Jónsson: Eylenda II., Æviskrár og saga Flateyjarhrepps. Byggðir og bú ehf. Reykjavík 1996, bls. 258-259.

[78] Ljósmæður á Íslandi I. Rit þetta er gefið út í tilefni af 60 ára afmæli Ljósmæðrafélags Íslands 2. maí 1979. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Ljósmæðrafélag Íslands. Reykjavík 1984, bls. 483.

[79] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 4. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1951, bls. 134.

[80] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 4. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1951, bls. 145-146.

[81] Gísli Konráðsson: Sagnaþættir. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík 1946, bls. 162-163.

[82] Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1910-1950. 4. bindi. Umsjón og ritstjórn: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 2000, bls.222-225.

[83] Þórarinn frá Steintúni. „Áttræð Sigríður Friðriksdóttir” Afmælisljóð. Tíminn 27. mars 1966, bls. 22.

[84] Bjartmar Guðmundsson: „Skáldið frá Fótaskinni.” Árbók Þingeyinga 1964. 7.árgangur. Útgefendur: Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla og Húsavíkurkaupstaður, bls. 32-61.

Centennial History of Argyle. „Come into Our Heritage, bls. 487-488.

[85] Theodór Arnbjörnsson: Sagnaþættir úr Húnaþingi. Ísafoldarprentsmiðja. Reykjavík 1941, bls. 88-89.

[86] Guðmundur Sigurður Jóhannsson og Magnús Björnsson: Ættir Austur-Húnvetninga. 1. bindi. Skagahreppur, Höfðahreppur. Mál og mynd. Reykjavík 1999, bls. 283.

[87] „Sigurður J. Jóhannesson.” Minningargrein. Lögberg. Winnipeg, Manitoba. 25. janúar 1923.

[88] Handrit Hjalta Þórarins Pálssonar, ritstjóra á Sauðárkróki. Héraðsskjalasafnið á Sauðárkróki

[89] „Um Sigurð hundalækni”. Strandapósturinn 1967, útg. Átthagafélag Strandamanna, bls. 65-67.

Munnleg heimild: Sverrir Guðbrandsson, Hólmavík (f.1921) og Sigurrós G. Þórðardóttir, Hólmavík (f. 1924): Viðtal 24.7.2004 við Gunnstein Ólafsson.

[90] „Símon Dalaskáld.” Óðinn. Maí 1906. 2. blað. 2. ár, bls. 14.

Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1850-1890. 3. bindi. Friðrik Margeirsson og Hjalti Pálsson frá Hofi sáu um útgáfuna. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1985, bls. 214-219.

Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. Síðara bindi. Mál og menning. Reykjavík 1970, bls. 70-80.

[91] Gunnar Árnason: „Af Laxárdal.” Troðningar og Tóftarbrot. Svipir og sagnir III. Húnvetningafélagið í Reykjavík. Reykjavík 1953, bls. 264-267.

[92] Glóðarfeykir. Félagstíðindi Kaupfélags Skagfirðinga. 13. hefti. Nóvember 1972, bls. 56-58.

Skagfirskar æviskrár. Tímabilið 1910-1950. 2. bindi. Umsjón og ritstjórn: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki 1996, bls. 270-274.

[93] Haraldur Níelsson: „Steingrímur Thorsteinsson” Andvari. Tímarit hins íslenzka þjóðvinafélags. 39. ár. Reykjavík 1914, bls. 1-16.

„Steingrímur Thorsteinsson, rektor.” Óðinn. Júní 1905. 3. blað. 1. ár, bls. 18.

„Til Steingríms Thorsteinssonar 19. maí 1911.” Óðinn. Apríl 1911. 1. blað. 7. ár, bls. 10-14.

[94] Valgeir Sigurðsson: Landeyingabók. Austur-Landeyjar. Viðbætur unnu: Ragnar Böðvarsson, Þorgils Jónasson og Ingólfur Sigurðsson. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Útgefandi Austur-Landeyjarhreppur. Gunnarshólma 1999, bls. 77.

[95] „Stephán G. Stephánsson.” Óðinn. Desember 1910. 9. blað. 6. ár, bls. 65-66.

[96] Múraratal og steinsmiða II. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Þjóðsaga. Reykjavík 1993, bls. 743.

[97] Valgeir Sigurðsson: Rangvellingabók: Saga jarða og ábúðar í Rangárvallahreppi. Fyrra bindi. Rangárvallahreppur. Hella 1982, bls. 212-215.

[98] Lárus í Grímstungu: Æviminningar Lárusar Björnssonar bónda í Grímstungu í Vatnsdal. Gylfi Ásmundsson bjó til prentunar. Bókaforlag Odds Björnssonar. Akureyri 1981, bls. 75-77.

Rósberg G. Snædal: Skáldið frá Elivogum og fleira fólk. Bókaútgáfan Iðunn. Reykjavík 1973, bls. 24-35.

[99] Sigurður Ingjaldsson: Ævisaga Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði / rituð af honum sjálfum. Bókfellsútgáfan. Reykjavík 1957, bls. 108-111.

[100] Björn Bergmann: „„Gefðu nú Ragnhildur, nú er tíð til þess.” Frásögn Sveins Jónssonar frá Grímstungu.” Húnavaka. 1. ár – 1961. Önnur útgáfa. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1980, bls. 40-41.

Jón Gestur Sigurðsson, Tungu, Vatnsnesi: „Úr blöðum Jóns frá Tungu.” Húnavaka. 32.ár – 1992. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Reykjavík 1992, bls. 101-105.

Lárus í Grímstungu: Æviminningar Lárusar Björnssonar bónda í Grímstungu í Vatnsdal. Gylfi Ásmundsson bjó til prentunar. Bókaforlag Odds Björnssonar. Akureyri 1981, bls. 58-59.

[101] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 4. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1951, bls. 377.

[102]Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 6. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1976, bls. 471.

[103] Ritsafn Theodóru Thoroddsen, bls. 23.

[104] „Tyrfingur Agnarsson.” Minningargrein. Morgunblaðið 16.desember 1981, bls. 26.

[105] Björn Þ. Jóhannesson: „Valdimar K. Benónýsson skáldbóndi á Ægisíðu á Vatnsnesi.” Húnvetningur. Ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík. 13. árgangur. Reykjavík 1989, bls. 7-17.

[106] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 5. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1952, bls 156-157.

[107] „Þorleifur Jónsson bæjarfulltrúi.” Minningargrein. Morgunblaðið 7. október 1983, bls. 34.

[108] Lárus í Grímstungu: Æviminningar Lárusar Björnssonar bónda í Grímstungu í Vatnsdal. Gylfi Ásmundsson bjó til prentunar. Bókaforlag Odds Björnssonar. Akureyri 1981, bls. 75-77.

[109] „Þorsteinn Erlingsson” Óðinn. September 1905. 6. blað. 1. ár, bls. 41-42.

[111] Árbók Þingeyinga 1963, bls. 33

[112] Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. 5. bindi. Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík 1952, bls. 107.