a. Bragfræði

Bókstafir tákna þau hljóð, sem málið er myndað af. Þeir skiptast í sérhljóða og samhljóða.

Sérhljóðar eru þessir a, á, e, i, í, o, ó, u, ú, y, ý, æ, ö. Auk þess eru tvístafirnir au, ei, ey. Y, ý og ey hafa sama framburð og i, í og ei og eru því aðeins rittákn.

Samhljóðar eru é, b, d, ð, f, g, h, j, k, l, m, n, p, r, s, t, v, x, z, þ. Z er borin fram eins og s og er aðeins rittákn (úrelt).

Orðin eru mynduð úr atkvæðum (samstöfum). Sum orð eru eitt atkvæði, önnur tvö, þrjú, fjögur og fleiri ef samsett orð eru. Sagt er að orð séu einkvæð, tvíkvæð, þríkvæð eða fjórðkvæð: Sjór, mað/ur, kerl/ing/ar, skræl/ingj/ann/a. Alltaf er þyngst áherzla á fyrsta atkvæði orðs, en sé orðið fjórkvætt er aukaáherzla á þriðju samstöfu. Oft eru orð sett saman, tvö eða fleiri, og er þá áherzla á fyrsta atkvæði hvers orðhluta. Dæmi: hesta/maður, skák/manns/efni.

Ljóð eru saman sett úr bragliðum.

Það heitir tvíliður sé bragliður tvö atkvæði og er áherzlan á því fyrra, sem heitir ris, en það síðara hefur linan framburð og heitir hnig.

Ef rímað er með tvíliðum, þá heitir það tvírím:

Það yndi mig aftur dreymir,
er angan frá hvönninni streymir.
(Hulda.)

Þegar aðeins er ris, en ekki hnig á eftir, þá heitir sá bragliður stúfur; einrím kallast ef slíkir bragliðir ríma:

Hugrökk teygist á háum legg
hvönnin fram yfir gljúfurvegg.
(Jón Helgason.)

Stundum er áherzlulint atkvæði fremst í ljóðlínu og heitir það forliður:

En þetta frægur sigur var.
(Magnus Ásgeirsson.)

Forliður er í mörgum söngljóðum, en ekki í fornbrögum eða rímnaháttum, nema síðlínum úrkasts, dverghendu og valstýfu, ef hnig fellur aftan af frumlínum:

Unun fann í hjarta hann
sem hrindir banni.
(Sigurður Breiðfjörð.)

Forliðir verða oft þar, sem þeir eiga ekki að vera með réttu, og er það leyfi en ekki regla:

Úr hofmóðs fjöllum hlaupa skriður.
(Bólu-Hjálmar.)

Oft er skotið atkvæði inn í ljóðlínu, þar sem lítið ber á:

Hatar slaður og húsgangsraus.
(Bólu-Hjálmar.)

Illt er að nota mikið af slíku, en meinlaust, ef hóf er á.

Þríliður heitir það, ef tvö lág atkvæði fara á eftir risi:

Fjörðurinn opnaðist, breiður og skínandi.
(Stephan G. Stephansson.)

Ef rímað er með þríliðum, heitir það þrírím:

Skall yfir eldhafið, ólgandi, logandi,
eldvargar runnu fram hvæsandi, sogandi.
(Hannes Hafstein.)

 

Fáir yrkja þríliðuhætti svo vel fari.

Þríliður var stundum hafður til fjölbreytni í fornum háttum:

Meðan hans ætt
í hverlegi
gálgafarms
til goða teljum.
(Eyvindur skáldaspillir.)

Þríliður er alls ekki til í rímnaháttum.

Þegar þríkvætt orð er í rímnahætti, þá klofnar það í tvílið og stúforð, ef það er í enda braglínu:

Dreyrugan spenna dragvendil.
(Árni Böðvarsson.)

Ekki fer vel á þessu.

Ef þríliður er inni í vísuorði, þá klofnar hann, eða gidir sem tvíliður, og er það betra:

Hallgrímur á harðri brók.
(Jón Þorláksson.)

 

Stól marglitan standa sér.
(Gísli Konráðsson.)

 

Sigurður heitir sæmdarmaður.
(Stefán Ólafsson.)

Í söngljóðum er stundum öfugur tvíliður og er þá lint atkvæði á undan sterku:

Í dag skein sól.
(Davíð Stefánsson.)

Öfugur þríliður myndast á sama hátt:

Ég geng draumum á hönd
inn á leiðslunnar lönd.
(Guðmundur Magnússon.)

Mörg sönglög heimta slíka öfugliði, en þeir eri andstæðir íslenskum málreglum. Illt er að vita, hvernig kvæðum er oft misþyrmt til þess að syngja þau við lög, sem þannig eru. Þessu fylgir málspilling.