Rím

Rím er ýmist endarím eða innrím.

Endarím er oft runuhendurím:

Hné fólk á fit
við fleina hnit.
(Egill Skallagrímsson.)

Tíðara er þó víxlrím:

Hver sem skilur ekkert af
efni því sem honum er kennt,
finnst þeim allt sem fánýtt skraf,
festist engin hjá þeim mennt.
(Jón Magnússon í Laufási.)

Stundum er ein ljóðlínan órímuð, en hinar ríma saman; rímvik:

Var því líkt sem vogurinn allur brynni,
þegar lóns um ljósa blik
leika náði aldan kvik.
(Þorlákur Guðbrandsson.)

Innrím er stundum þversett og ríma þá saman orð í sömu ljóðlínu:

Frúin hefur fagran munn.
(Hallur Magnússon.)

Langsett kallast það innrím sem tekur yfir meira en eina ljóðlínu:

Dvínar mátt við mærðar slag
mansöngs þátt að greina,
vanda hátt, þó veikt sé lag,
verður brátt að reyna.
(Þorvaldur Magnússon.)

Lengi var þess nokkuð gætt um innrím, að orðin rímuðu rétt saman, bæði ris og hnig:

Höfðu báðir fyrðar fjáðir
fimmtán skeiðir,
hugðu tjáðir heim með dáðir
halda á leiðir.
(Bjarni Borgfirðingaskáld.)

Þarna blindfellur allt. Á nítjándu öld og síðan er þessa miður gætt.

Fallegra er að innríma nákvæmt, en fáir gera það. Í sléttuböndum ætti þó alltaf að fylgja þeirri reglu; þau missa mikið af fegurð sinni, ef illa er vandað til innríms.

Stundum eru rímuð saman orð, ólík að hljómi, vegna þess að annað orðið hefur samhljóða á eftir þeim samhljóða, sem rímið myndar; rímhalli. Þetta er allslæmt:

Auðs systur mjög trauðan.
(Hallfreður.)

 

Heims vafurlogi sveimar.
(Einar Skúlason.)

 

Stýrir dýrs með trausti.
(Konráðsrímur.)

Það var oft í fornum kvæðum, að áherzla var færð milli atkvæða til þess að fá rím:

Áleifur konungur mála.
(Sighvatur.)

 

Farlands konungur jarla.
(Þórður Kolbeinsson.)

Þarna virðist rímað eftir framburði. Þetta var fágætt í rímum þangað til á nítjándu öld, en gerðist þá altítt og þekkist enn. Þetta er slæmt lýti:

Þess ég ætíð óska má
ef mér lætur kvæðaskrá
stúlkum sæti að hafa hjá
heldur kætist sálin þá.
(Sigurður Breiðfjörð.)

Í háttatali Snorra er sú rímgerð er heitir náhent:

Vann kann virðum banna.

Þarna standa rímrisin saman. Þetta er fátítt í rímum, en sést þó stundum í gömlum rímum, þar sem ætti að vera hnig milli rímatkvæða:

Fann hann belg af dýri.
(Konráðsrímur.)

Enginn hefur ort rímu undir náhendum hætti, en til eru vísur náhendar:

Ljóðum á þá lund að dá þá lengst, sem smá þá.
Skulum fá þá eigin ásjá
út úr lágþrá, kvíða og váspá.
(Stephan G. Stephansson.)

Víða má finna rangar áherzlur í rími; áherzluvillur. Oft eru þríkvæð orð notuð þannig, að endasamstafan er látin gilda sem stúforð:

Hlífa ei lífi höldar par
hrundu úr undum benfossar.
(Magnús Jónsson prúði.)

Algengt hefur það verið lengi að láta sams konar endingar orða ríma og er þetta slæm rímvilla:

Þarna fipast fljótráðum,
fá þó svip af gersemum.
(Matthías Jochumsson.)

Þó er enn verra ef einn sérhljóði myndar rímið:

Þú hefnir þess í héraði,
sem hallaðist á Alþingi.
(Páll Vídalín.)

Verst er þó, ef hnig tvíliðs er látið mynda einrím:

Gæti ég öfugt í bit
á þeim djöfuls hælbein.
(Natan Ketilsson.)

Minna ber á lýtinu, ef þríliðirnir ríma saman að öllu leyti, en er þó jafnrangt:

Súða lýsti af sólunum
síla víst á bólunum.
(Magnús í Magnússkógum.)

Þetta tíðkast enn mikið en þarf að hverfa.

Í dróttkvæðum var mikið notað sniðrím; það hét þá skothent. Sniðrím er þannig gert, að áherzlusamhljóðar í rímorðunum er þeir sömu, en sérhljóðinn annar: Land — sund, dáð — geð.

Ástum leiddi okkur fast.
(Björn Breiðvíkingakappi.)

Þetta komst inn í rímurnar á sextándu öld og var mikið notað á sautjándu öld; minna síðan, en þó alltaf talsvert.

Aldarskáldináðurfróð
orðagjörðum breyttu.
(Kolbeinn Jöklaraskáld.)

Hristist jörð við geira gust.
(Hákon í Brokey.)