b. Rímnahættir

Rímnahættir eiga langa sögu og mikla, en margt er þar ókannað. Hættir þessir hafa þróazt í sex hundruð ár og eru þeir nú orðnir óteljandi.

Því eru þó skorður settar, hvernig fjölga má rímnaháttum, og skal aðeins gera grein fyrir helztu reglum þess.

Ljóðlínur eru 4, 3 eða 2.

Eftir lengdarmismun og röðun braglína má greina hættina í 17 flokka.

Með breytingum á endarími fæst 91 tilbrigði, og er þá miðað við þær kröfur, sem gerðar hafa verið til endaríms í háttum þessum.

Tíu bragflokkar eru víxlrímaðir. Þeir geta einnig verið skárímaðir eða samrímaðir. Svo geta þessir flokkar verið fráhendir og skáhendir og skáhendan skárímuð..

Frá þessu dragast samrímuð gagaraljóð og samrímuð dverghenda, en það eru samhenda og valstýfa.

Aftur má bæta við gagaraljóð og breiðhendu stikluvikstilbrigðum og síðstiklu, sem geta verið skárímuð. Þar að auki breiðstafhent, sem getur verið skárímað. Þetta eru 64 tilbrigði.

Runuhendurímaðir flokkar eru fjórir. Stafhenda getur verið skárímuð og stikluvik skárímað eða samrímað. Þarna bætast við sjö tilbrigði.

Þríkveðnir flokkar eru fjórir.

Braghenda er samrímuð, skárímuð, frárímuð eða rímvikuð og þá miðskárímuð stundum.

Auk þess er hurðardráttur endarímslaus, en það er einsdæmi í rímnaháttum.

Valhenda var jafnan ort samrímuð, en henni má breyta á sama hátt og braghendu, en þá eru sex afbrigði hvors flokks.

Stuðlafall er samrímað, skárímað eða frárímað, og jafnmörg eru tilbrigði vikhendu. Endarímsafbrigði þríkveðnu flokkanna eru því 18.

Loks eru báðir tvíkveðnu flokkarnir.

Sumt af þessu er fágætt og margt ekki til í rímum.

Innrími er hægt að breyta því nær takmarkalaust. Þau tilbrigði, sem ortar hafa verið við heilar rímur, eru víst nær tveimur hundruðum. Undir sumum er aðeins til ein ríma, en margar af öðrum.

 

Það greinir mjög sundur hættina, hvort ljóðlínur eru óstýfðar eða stýfðar. Óstýfðar eru þær, sem enda á tvílið, en stýfðar, ef þær enda á stúforði.

Óstýfð:
Mæðu brunnar mjög upp spretta.
(Magnús Einarsson á Tjörn.)

Stýfð:
Regn er úti á röðuls mar.
(Séra Eiríkur Hallsson.)