1. Ferskeytt

Ferskeytt er að líkindum elsti rímnabragur.

Ólafsríma Haraldssonar er varðveitt í Flateyjarbók og sennilega ort um 1360. Ríman er með ferskeyttum hætti og gæti verið frumsmíð í rímnagerð. Höfundur er Einar Gilsson lögmaður, skagfirskur að ætt, en bjó lengst í Húnaþingi. Eftir Einar eru til kvæði með dróttkvæðahætti, allvel ort:

Öls leit ennisólir
eyk hrafnskyggnar leika.

Til eru nokkrir rímnaflokkar, sem gætu verið frá 14. öld. Þegar Ólafsríma var ort, höfðu danskvæði tíðkazt hér lengi, sennilega í þrjár aldir eða lengur. Danskvæðin voru oftast ástaljóð og frásögukvæði, einföld og ljúf; oft sorgleg. Hættirnir voru léttir og lítt hirt um stuðla, en rím óvandað:

Önnur var öldin,
er Gaukur bjó á Stöng;
þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.
(Gömul vísa, viðlag?)

Jafnframt voru sífellt ort kvæði undir fornum háttum, alvöruþrungin og formföst:

Beiðist hann með björtum kvæðum
byskups heiður að víða mest.
(Arngrímur Brandsson, 1345.)

Þessi háttur, hrynhenda, var fyrst ortur á 10. öld að vitað sé, en var altíður á 14. og 15. öld.

Þessi tvenn snið voru sameinuð í rímunum af hinni fegurstu list, haldið formfestu dróttkvæða, en tekin upp frásagnarháttur dansa og ástaljóð skeytt við sögukvæðin. Ólafsríma markar stefnuna í braglistinni, en efnisval og hugblær sveigist meira til annarar áttar.

Rímur fyrri tíma voru fullar af spaugi og oft skemmtilegar; stundum ofurlítið klúrar, en sjaldan til lýta. Þó er oft sorgarhreimur í þeim, einkum í mansöngvum.

Braglistin þróaðist hægt og sígandi. Lengi vel var innrímið einkum þversetis. Fráhent er mjög gamalt tilbrigði, og framhent. Á 16. öld varð langsett rím algengt og þá var farið að kveða sniðhent. Til eru sléttubandavísur frá 16. öld, en fyrsta sléttubandaríma er að líkindum ort um miðja 17. öld af Guðmundi Andréssyni á Bjargi. Það eru einföld sléttubönd. Hallgrímur Pétursson orti sléttubönd frumhend, og Kolbeinn Jöklaraskáld víxlhend, en þannig voru þau mest ort síðan. Hringhendar vísur eru til frá 17. öld, eftir Stefán Ólafsson og fleiri. Þorvaldur Magnússon orti sennilega fyrstur hringhenda rímu; hann dó 1747. Þorlákur Þórarinsson orti Þagnarmál 1728. Það kvæði er að mestu með hringhendum hætti. Árni Böðvarsson orti hringhenda rímu 1741. Ekki var þó hringhenda mjög algeng fyrr en á 19. öld, en þá varð hún öllum brögum vinsælli og er það enn. Oddhent er til frá 17. öld.

Mér er kunnugt um rúm 30 afbrigði ferskeytts háttar, sem heilar rímur hafa verið ortar undir.

Mikill kveðskapur er með ferskeyttum hætti annar en rímur, þar með ógrynni lausavísna.

 

(Sjá Háttatal, 1. Ferskeytt.)