Lagboði 152

Mig við óar afli því

Ferskeytt – vísur 1 og 2 hringhendar, vísur 3, 4 og 5 oddhendar

 

Góuvísur.

Mig við óar afli því,
um það þó ég syngi.
Nú er Góa gengin í
garð með snjóa kyngi.

Feikna hleður fönn á slóð
fyllir geðið kvíðinn.
Úti kveður kynjaljóð
kafaldsveðurhríðin.

Sveipa náir sveit og lá
svella gljái breðinn.
Æpa dáin ýlustrá
út við skjáinn freðinn.

Fer um hauður fugla nauð,
finnst ei auður skári.
Ernir snauðir ei fá brauð,
allt er í dauðans fári.

Lyngs á móum raskar ró
rjúpur tóa kringum.
Heim sig þó að húsum dró
hópur af snjótittlingum.

Vísur: Ólína Andrésdóttir.
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir. (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Jón Oddsson, Breiðfirðingur.

Lagboði 153