Lög Kvæðamannafélagsins Iðunnar

1. gr.

Félagið heitir Kvæðamannafélagið Iðunn, skammstafað K.F.I.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að æfa kveðskap og safna rímnalögum (íslenskum stemmum) og alþýðuvísum, fornum og nýjum. Jafnframt sinnir félagið fræðslu- og kynningarstarfi um þjóðlög og alþýðutónlist.

3.gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, féhirðir og meðstjórnandi. Kosning skal fara fram á aðalfundi og skulu formaður og varaformaður kosnir sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
Á aðalfundi skulu einnig kosnir þrír varamenn stjórnar.

4. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. mars ár hvert. Skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara og telst löglegur, ef löglega er til hans boðað.
Stjórn og nefndir skulu kosnar til eins árs í senn, og skal kosning vera skrifleg, þegar fleiri eru í framboði en kjósa skal.
Í öllum kosningum og atkvæðagreiðslum ræður einfaldur meirihluti atkvæða.
Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:
1. Skýrsla formanns.
2. Skýrsla féhirðis.
3. Skýrslur nefnda.
4. Ákvörðun árstillags.
5. Lagabreytingar..
6. Kosningar:
a) Kosning formanns.
b) Kosning varaformanns.
c) Kosning þriggja annarra stjórnarmanna.
d) Kosning þriggja varamanna í stjórn.
e) Kosning formanns rímnalaganefndar.
f) Kosning formanns vísnanefndar.
g) Kosning formanns þjóðlaganefndar.
h) Kosning formanna annarra nefnda.
i) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins og
tveggja til vara
7. Önnur mál.

5. gr.

Í félaginu skulu starfa þrjár þriggja manna fastanefndir. Skulu formenn þeirra kosnir á aðalfundi sbr. 4. grein, en þeir velja sér tvo samstarfsmenn úr hópi félagsmanna.
Fastanefndirnar eru:
a) rímnalaganefnd, sem skal annast kennslu rímnalaga í félaginu og vinna að útbreiðslu og þekkingu á rímnalögum meðal félagsmanna og almennings. Hún skal og annast hljóðritun rímnalaga og varðveita þau fyrir félagið og gera allt sem auðið er til að forða rímnalögum frá glötun.
b) vísnanefnd, sem skal safna og skrá vísur, er félaginu berast á fundum félagsins, skemmtiferðum og öðrum samkomum.
c) þjóðlaganefnd, sem skal annast fræðslu og kynningarstarf um þjóðlög og alþýðutónlist, innlenda og erlenda, forna og nýja, veraldlega og trúarlega. Nefndin skal jafnframt standa fyrir flutningi slíkrar tónlistar á samkomum félagsins og stuðla að því að efla söfnun, rannsóknir og miðlun þjóðlaga.
Þessar nefndir skulu gefa félagsmönnum kost á að fylgjast með starfi sínu a.m.k. á einum fundi árlega.

6. gr.

Stjórnin skipar bókavörð félagsins. Skal hann varðveita og halda skrá yfir bækur og skjöl í eigu félagsins og láta afrita svo oft sem þurfa þykir til geymslu í Landsbókasafni.

7. gr.

Féhirðir leggur fyrir aðalfund til samþykktar endurskoðaða reikninga félagsins. Reikningsár er almanaksárið.
Árstillög félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Þeir, sem eru 75 ára og eldri eða yngri en 18 ára, eru ekki skyldugir til að greiða árstillag.

8. gr.

Fundir skulu vera einn til tveir í mánuði að vetrinum, ef ástæður leyfa, og annan tíma árs eftir því sem stjórnin ákveður. Heimilt skal félagsmönnum að taka með sér gesti á fundi og aðrar samkomur Iðunnar.
Ritari skrifar fundargjörð á öllum fundum. Í forföllum ritara getur formaður tilnefnt hvern sem er af mættum félagsmönnum sem fundarritara. Hljóðrita skal og varðveita þannig félagsfundi og samkomur félagsins, eftir því sem ástæða þykir til.

9. gr.

Hver sá, sem vill ganga í félagið, sendi stjórninni beiðni þar um ásamt meðmælum tveggja félagsmanna. Bera skal beiðnina undir atkvæði félagsfundar. Nýir félagar greiða árstillag við inngöngu.
Heimilt er félaginu að kjósa sér heiðursfélaga, ef ástæða þykir til. Til þess þarf meðmæli stjórnarinnar og samþykki félagsfundar.

10. gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og afhendast formanni.
Félaga, sem eftir árangurslausar innheimtutilraunir skulda meira en tvö árstillög, er heimilt að strika út af félagaskrá.

11. gr.

Breytingar á lögum félagsins geta því aðeins átt sé stað, að tillögur þar að lútandi hafi verið lagðar fram og ræddar einum fundi fyrir aðalfund hið minnsta. Til þess að öðlast gildi skulu þær samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða á aðalfundi.

12. gr.

Verði ákveðið, að Kvæðamannafélagið Iðunn hætti að starfa, skulu eigur þess fengnar til varðveislu þeirri stofnun íslenskri, sem þáver-andi stjórn og félagar telja öruggasta og best til þess fallna.
Skipulagsskrá skal samin að tilhlutan þeirra, sem þá verða í stjórn félagsins, og samþykkt af meirihluta þeirra, sem þá eru skuldlausir félagar. Þar skal kveðið á um eftirfarandi:
1. Sjóður, handrit og hljóðritanir í eigu félagsins skulu bera nafn Iðunnar.
2. Vöxtum sjóðsins skal að 3/4 hlutum varið til almennrar fræðslu-starfsemi um kveðskap, rímnalög, rímur og vísnagerð Íslendinga fyrr og síðar. Leggja skal við höfuðstól 1/4 hluta vaxta.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 6. mars 2009.