Man ég fyrrum þyt á þökum
Langhent – vísa 1, 2, 3 og 4, hringhendar
Kvöldvökur
Man ég fyrrum þyt á þökum
þreyta styr við éljadrög,
þá á kyrrum kvelda vökum
kveiktu hyrinn rímnalög.
Birti um rann af fornum funa
fljótt er annir leyfðu það.
Gleði brann í mildum muna.
Mamma spann, en pabbi kvað.
Söng í eyrum sagan góða,
sagði meira en orðin tóm.
Rann af geirum refilþjóða
rauður dreyri máls í hljóm.
Svipti griðum sérhver líking,
send á mið hins dýra brags,
eins og skriði í vesturvíking
valið lið þess horfna dags.
Vísur: Jóhannes úr Kötlum.
Kvæðamaður: Sigríður Friðriksdóttir.
Stemma: Víða kunnugt.