Hels á slóðir hrapaði
Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar
Hels á slóðir hrapaði,
harmar þjóðin skaðann,
Árni góði gersemi,
gullvel ljóðin kvað hann.
Þó hann gengi í þrælaspor,
þrátt hjá mengi hló’ann,
róms í strengi von og vor
vel og lengi dró’ann.
Þegar bylur bæinn sló,
burtu yl að strjúka,
muna þilin reifði ró
raddarspilið mjúka.
Öls í krá ef komast vann,
kættist dável sálin.
Man ég þá er þrumdi hann
Þorsteins Hávamálin.
Þó við bindi Bakkus ást
bæri lyndisgalla,
heilsteypt mynd af manni sást
milli syndafalla.
Vísur: Sveinn Hannesson, Elivogum.
Kvæðamaður: Ingibjörg Friðriksdóttir. (kenndi og kvað)
Stemma: Björn Jóhannesson, Reykjavík