15. Braghenda

Braghenda er gamall háttur; frá 14. eða 15. öld. Frumlína er þannig gerð, að vísuhelmingur með úrkastshætti er gerður að einni ljóðlínu. Frumlínan hefur þrjá stuðla, og eru þeir settir eins og í ferkvæðum háttum.

Upphaflega var braghendan samrímuð, en skárímað og frárímað eru 16. aldar tilbrigði.

Til eru mörg afbrigði braghendu, sem ortar voru við heilar rímur, flest eru þau við braghendu samrímaða, og má nefna framhent og frumhent, sem eru mjög gamlir hættir. Skjálfhenda gæti verið eftir Þórð á Strjúgi. Jón í Laufási mun hafa fundið braghendu rímvikaða, ekki hef ég séð þann hátt hjá fleirum. Hurðardráttur kallast, ef rím er eingöngu þversett, þau tilbrigði eru frá 17. og 18. öld. Háttur Jóns er líka stundum nefndur hurðardráttur.

 

(Sjá Háttatal, 15. Braghent.)