17. Stuðlafall

Stuðlafall er líklega fyrst ort á 15. öld. Frumlínan hefur fimm bragliði, og er lengsta braglína óklofin í rímnaháttum. (Sjá braghendu). Stuðlasetning í frumlínu er aðeins með tvennum hætti: Yfirstuðull er í fyrsta eða öðrum braglið, en undirstuðull alltaf í þriðja braglið.

Oftast var stuðlafall frárímað, en stundum skárímað eða samrímað.

Fimmsneitt er gamalt tilbrigði, frá tímum Bjarna Borgfirðingaskálds. Kurlað er frá 17. öld; einnig samhent. Árni Böðvarsson fann stuðlafall nýja. Jón Jónsson langur í Ólafsvík orti líklega fyrstur rímu með framhentu stuðlafalli.

Stuðlafall var meðal mest ortu rímnahátta á 18. og 19. öld. Mishent var einna algengast á 19. öld.

Af stuðlafalli þekki ég 16 tilbrigði heilla rímna.

 

(Sjá Háttatal, 17. Stuðlafall.)