c. Rímnaþáttur

Samhliða rímnaháttunum lifðu hinir fornu bragir og þó einkum hrynhenda. Mest var ort út af helgisögum eða slíku efni. Lilja er talin ort um miðja 14. öld, eða um líkt leyti og Ólafsríma. Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju, hefur verið andríkur maður og mikið skáld, og hefur kvæðið mikil áhrif. Í Lilju eru braglýti og rangar áherslur meira en gerist í eldri kvæðum, einnig það hefur haft sín áhrif.

Háttalykill Lofts ríka er ortur í byrjun 15. aldar. Þar eru notaðar kenningar. Ástarljóð þetta hefur vafalaust svifið mjög á rímnaskáld 15. aldar. Einnig bragskrautið.

Dansahættir og annað slíkt hefur einnig orðið lífseigt, og gætir þess alla tíð, einkum í viðlögum kvæða.

Alltaf hafa svo komið fram nýir hættir, einkum við sálmalög. Eftir siðaskipti barst hingað margt af nýjum brögum og var mikið þýtt af sálmum. Oft var þetta illa rímað og sumt vanstuðlað, en áherslur rangar. Þá spilltist mjög öll braglist, en þó meira síðar.

Á 18. öld var ort mikið af rímum, og jafnframt tíðkuðust aðrar ljóðagreinar. Þá var skáldamáli mjög hrakað, en þó fóru sumir vel með kenningar, og má nefna séra Þorstein Jónsson á Dvergasteini; hann fór snillilegar með kenningar en flest önnur rímnaskáld hafa gert.

Jón Þorláksson og mörg af skáldum 19. aldar fluttu nýjan skáldskaparanda í landið, en afræktu rímurnar. Þó nutu rímur enn vinsælda hjá alþýðu, enda komu nú fram höfuðkempur í rímnagerð, þar sem voru Sigurður Breiðfjörð og Bólu-Hjálmar. Rímur Hjálmars voru kjarnyrtar og kenningar snjallar, bragir fallegir, en ekki samdi hann nýja hætti. Rímur Sigurðar eru víða listavel ortar, lýsingar snjallar, kenningar stundum góðar og fimlega ort. Hann fann marga nýja hætti. Ekki rýmdi Sigurður burt ágöllum eldri rímna, en að mörgu fegraði hann rímnastílinn. Hjálmarskviða Sigurðar Bjarnasonar er snjallt kveðin, af heitri tilfinningu og naut mikillar hylli, en Sigurður dó fyrir aldur fram.

Símon Dalaskáld orti margar rímur og að sumu leyti góðar, fyndnar og létt kveðnar. Ekki var Símon frumlegt skáld og notaði fáa hætti. Símon færði stundum sögurnar í skáldsagnargervi, þegar hann orti, og var það fágætt í rímum áður, þó fór Sigurður Breiðfjörð einatt frjálslega með efni sinna rímna.

Matthías orti rímur af fljúgandi mælsku, en markaði ekki nýja stefnu.

Alþingisrímur Valdimars Ásmundssonar og Guðmundar Guðmundssonar voru léttilega ortar og bráðskemmtilegar, en fullar af braglýtum, eins og tíðkazt hafði.

Ólafs ríma Grænlendings eftir Einar Benediktsson er meistaraverk, en ekki hafði hún tilætluð áhrif að auka vinsældir rímna.

Oddsrímur Magnúsar Stefánssonar eru hnittilegar og góður viðauki spaugrímna, en þær hafa verið ortar allt frá fyrstu rímnatímum.

Enn eru nokkuð ortar rímur, og eru enn líkur til, að þær eigi sér viðreisnar von, ef vel er á haldið. Ekki má kasta niður braglist hinna eldri rímna, en sneiða mætti hjá dýrustu háttunum.

Rímur hafa oft verið ortar þannig, að þær hafa skáldskapargildi. Nefna má Úlfarsrímur Þorláks Guðbrandssonar, ortar í byrjun 18. aldar; þar er ort í nýstárlegum anda og gætir mjög fornmenntastefnu. Skáldlegt flug er í sumum köflum rímnanna. Alþýða kunni vel að meta slíkt lífsmark, og urðu rímurnar vinsælar.

Flest höfuðskáld þjóðarinnar frá Eysteini Ásgrímssyni til Bjarna Thorarensens, að hvorugum meðtöldum, hafa ort rímur. En þeir menn, sem líklegastir voru til að endurreisa þær í nýjum stíl, þeir létu það ógert; það voru Jónas Hallgrímsson, Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson. Þeir ortu þó margt undir rímnaháttum, einkum Þorsteinn og Stephan.

Enn yrkja Íslendingar undir sínum fornu bragarháttum og eftir stuðlareglum, enda ekki talið með ljóðum það, sem óstuðlað er.

Ég held, að lausavísan sé hér einhver vinsælasta ljóðagerð og hafi raunar verið það lengi. Einmitt í vísunum er að finna margt það, sem bezt og fegurst hefur verið ort. Þrátt fyrir mörg og góð ljóðskáld á síðustu áratugum, þá get ég trúað því, að þetta sé einkum tímabil vísnanna, og endilega held ég, að þeim sé yfirleitt helst lífvænt af því, sem ort er nú á landi hér. Vísan er alls staðar viðeigandi, í sorg og gleði, blíðu og stríðu. Þar birtist ást og hatur,  von og kvíði.

Mörgum hefur vísan bjargað frá hugstríði og víli.

Enn mætti rímnagerðin þróast samhliða lausavísunum, en þá mun hún verða nokkuð með öðrum hætti en fyrr, einfaldari og brotaminni. Í rímnaháttum er slík fjölbreytni, að þar má finna hina léttustu bragi, svo sem afhendingu, og allar götur þaðan upp í sléttubönd og fleiri bragþrautir. Nálega hver maður getur sett saman einfalda vísu og fundið hvort rétt er ort, þótt ekki leiki öllum skáldskapur á tungu. Einmitt upp úr slíkum þjóðarkveðskap vaxa meiriháttar skáld.