Lagboðar Iðunnar

Frá stofnun Iðunnar hefur einn megintilgangur félagsins verið söfnun og varðveisla kvæðalaga. Á fundi Iðunnar 2. nóvember 1929 var til umræðu að tilhlutan stjórnar félagsins að safna kvæðalögum og varðveita þau með því að skrá þau á bók.

Um langan aldur hefur það verið vani kvæðamanna sem kunna margar stemmur að hafa einhverja eina vísu sem þeir æfðu stemmuna á og síðan minnti sú vísa alltaf á lagið. Eru slíkar vísur kallaðar lagboðar eða lagboðavísur. Og það voru þessar vísur sem safnað var þegar kvæðalögin voru skráð á bók.

Sá háttur var hafður á að skrá stemmur með þeirri vísu sem flestir notuðu til að muna stemmuna en það gat verið mismunandi hvaða vísur hver og einn notaði og var því unnið að því að samræma lagboðana þannig að allir hefðu sama lag við sömu vísur.

Lagboðavísunum var síðan safnað og þær gefnar út. Fyrst árið 1957 og voru lagboðarvísurnar þá 177 talsins. Önnur útgáfa var gerð árið 1964 og voru lagboðavísurnar þá orðnar 303. Þriðja útgáfa lagboðaheftisins kom út 1984 og hafði þá enn aukist við safnið og taldi það þá 500 lagboða.

Árið 1935 var hafist handa við að hljóðrita rímnalögin og var það gert með þeim hætti að kveða þær inn á svokallaðar silfurplötur. Fyrstu 200 hljóðritanir Iðunnar voru gerðar á silfurplötur en síðar var kveðskapur tekinn upp á segulbönd.

Lagboðar þeir sem hér eru aðgengilegir eru 100 fyrstu lagboðar lagboðaútgáfunnar og eru það jafnframt sömu 100 stemmur og fyrst voru teknar upp.

Nú hefur komið út vegleg útgáfa lagboðasafns Iðunnar sem samanstendur af bók og fjórum geisladiskum og inniheldur 200 fyrstu lagboðana. Frekari upplýsingar um útgáfuna er að finna hér.

Hér er hægt að skoða lagboðavísurnar sem kveðnar eru á upptökunum ásamt upplýsingum um höfund vísnanna, kvæðamanninn sem kvað vísurnar inn og hverjum lagið er eignað. Einnig er þess sumstaðar getið hver kenndi stemmuna.

Lagboðar 1-100

Lagboðar 101-200