Lagboði 12

Enginn háttur hljómar þungt

Ferskeytt – vísa 1, 3 og 4 hringhendar og vísa 2 oddhent

 

Enginn háttur hljómar þungt,
heyrist kátt í runni:
hrört og lágt er orðið ungt
allt í náttúrunni.

Allt á sjó og út um mó
er nú þróun vakið;
flytur nógan frið og ró
fyrsta lóukvakið.

Geislar sindra sólu frá,
sveiginn binda rósum.
Drottins mynd er máluð á
mörk og tindum ljósum.

Alt í kring er eilífð skírð,
-ekkert þvingað grætur; –
fuglar syngja um draumadýrð;
daginn yngja nætur.

Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Eyjafirði. Jóhann Sveinsson frá Flögu

Til baka -o- Lagboði 13