Hugann seiða svalli frá
Ferskeytt – vísa 1, 2, 3 og 4 hringhendar
Á ferð til Breiðafjarðar vorið 1922
Hugann seiða svalli frá
sundin, heiði og skörðin;
vona-leið er valin þá
vestur Breiðafjörðinn.
Allt er borið burtu gróm
bæði af Skor og fjöllum,
því að vorið blóm við blóm
breiddi í sporum öllum.
Dægur-halli daggperlum
dreifir vallargróðann;
bjargastalla beltast um
blessuð fjallamóðan.
Þrjóti grið á þessum stað,
þá er lið að skeiðum,
því að hlið er opið að
úthafsmiðum breiðum.
Vísur: Jón S. Bergmann
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Jakob Bjarnason, Holtastöðum
Til baka -o- Lagboði 18