Lagboði 20

Þessi langi vetur vor

Ferskeytt – vísa 1, 2, 3 og 4 hringhendar

 

Til vorsins 1892

Þessi langi vetur vor
veldur strangri pínu.
Hvað mig langar, ljósa vor,
að liggja í fangi þínu.

Þar ég hlýði á þýðan klið,
þegar síð að kveldi
roðnar hlíð í vafningsvið
vors af blíðu eldi.

Komdu hart að hita geð
halda skarti í blómin
komdu bjarta brosið með
blíða hjartans óminn.

Út með dröngum ómar kátt
er þú göngu sýnir;
þér hafa löngum látið dátt
lóusöngvar þínir.

Vermdu hnjúk og blásin börð
blíða hjúkrun gefðu
allt hið sjúka og auma á jörð
örmum mjúkum vefðu.

Vísur: Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum.
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslum. Sveinn Jónsson, Hjallalandi

Til baka -o- Lagboði 21