Önnur ríma – Draghent

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Önnur ríma – Draghent

 

51
Draghent
Draghent
Ef að tími vildi vinnast
verður nóg til braga.
Skal þá fyrst í máli minnast
margra góðra daga.
52
Frumstiklað
Sumardagur sólarfagur
söngvaraddir vakti;
samdist bragur, hugur hagur
háttaþræði rakti.
53
Frumstiklað, síðbakhent
Ljósar myndir, ljúfast yndi,
líf í æðum glæða.
Mitt varð lyndi fleygt, sem fyndi
fögnuð gæðakvæða.
54
Oddhent
Ljóð á vör að léttum svörum
léku, spör á trega.
Hættuför með hróðri snörum
heppnast örugglega.
55
Fráhent
Foldar angan ferðalangi
færði unun góða.
Nam ég lönd á norðurströndum
nýrri tíðar ljóða.
56
Fráhent, síðbakhent
Veltilag
Grösug hlíð, með gagn og prýði,
gleði bjó mér nóga;
þá var bjart hjá brekkuskarti,
blómskrúð hló í móa.
57
Þríkveðið
Þrístikla
Þar ég mærð í málið færði;
menntir lærði að vanda.
Fornir þættir, fagrir hættir
frjálsan kættu anda.
58
Bakhent
Kom þá haust og hlíða prýðin
hvarf í fannir anna.
Mátti stundum stríða hríðin
stefin þannig banna.
59
Frumhent
Þegar aftur undan klaka
andans hlíðar leysast,
lífsins krafta læt ég vaka;
ljóð úr skorðum geysast.
60
Hringhent
Eigi kvíðir ungur hugur.
Enn mun hríðin dvína.
Ver í stríði stefjadugur
stuðlaprýði sína.
61
Draghend sléttubönd
Kvæða létu þrotinn þáttinn
þreyttar hendur falla,
glæða skyldi hróðrar háttinn
hyggjan vizkusnjalla.
62
Draghend sléttubönd, frumhend
Heyra vildi sannar sögur
sveitin glaðra þegna.
Meira gildi fræði fögur
fengu rímsins vegna.
63
Draghend sléttubönd, víxlhend
Mætur granni frera-fjalla
flytur sögu nýta.
Lætur þannig orðsnilld alla
óðar-lögum hlíta:
64
Draghend sléttubönd, víxhend, afturbrugðin
Unnu forðum löndin lýðir
lengi sunnan farnir.
Runnu norður straumar stríðir,
stukku þunnar varnir.
65
Draghend sléttubönd, frumstikluð
Víðar lendur áttu endur
ýmsar vaskar þjóðir.
Stríðar hendur felldu fjendur,
fagrar vörðu slóðir.
66
Draghend sléttubönd, frumstikluð, síðhend
Norðar héruð ágæt eru
yndir blíðu kafin.
Storðar verin góðu greru
grænni prýði vafin.
67
Draghend sléttubönd, frumstikluð, síðbakhend
Norður lengi mjakast mengi.
Minnkar gróður óðum.
Skorður þrengri virðist vengi
vöskum bjóða þjóðum.
68
Draghend sléttubönd, oddhend
Veldur flótta dreifðra drótta
dirfsku gnóttin stinna.
Heldur þótti auka ótta
ægur þróttur hinna.
69
Draghend sléttubönd, þríkveðin
Sættir betur margir meta.
Mildast hretin geira.
Ættir vanda bitnar blandast.
Byggist landið meira.
70
Draghend sléttubönd, framrímuð
Bíða mærðir, foldin fanna
fríða geymir hætti.
Blíða heyra sveitin svanna
síðar bragi ætti.

 

Til baka -o- Stefjahrun