Fjórða ríma – Skammhent

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Fjórða ríma – Skammhent

 

91
Skammhent
Skammhent
Kem ég enn af köldum heiðum,
kæra fljóð til þín.
Frerasvip á fannabreiðum
fengu stefin mín.
92
Frumhent
Ég hef reikað eftir ísum
allan veg til þín
til að kveikja von með vísum.
Var nú þörfin brýn.
93
Víxlhent
Hríðarvöldin vetrarríku
villtan tróðu dans;
von að köld í veðri slíku
væru ljóðin manns.
94
Hringhent
Glæsilag
Blik frá rauðum ástareldi
eftir nauðir mér
sumarauðugt sólarveldi
síðan bauð hjá þér.
95
Oddhent
Ástin meðan öllu réði
okkar geði hjá
allt var kveðið eins og gleði
entist héðan frá.
96
Víxlþráhent
Nem ég hér við ástar yndi,
enn með snilld það sést:
Kemur sér á klakastrindi
kvennamildin best.
97
Frumframhent
Hlýr og nýr varð háttum kvæða
hljómur gefinn þar.
Enga lengur um að ræða
ísabragi var.
98
Síðbakhent
Hve við sorglaust sjafnarkvæði
saman áttum þrátt.
Hef ég líka forna fræði
fært í háttaþátt.
99
Fráhent
Bragaþegn með fornar fregnir
fór í stefjum enn.
Hróðurtal um Hafladalinn
heyra vildu menn.
100
Fráhent, síðhent
Byggðu dalinn herknir halir;
helst var treyst á megn.
Þeirra meðal mestu réði
menntur hreysti þegn.
101
Þríkveðið
Meðalhent
Nefndist Herkir hetjan sterka,
hreystiverkum frá
sögur gengu glæstar lengi
göfgum drengjum hjá.
102
Skáþríkveðið
Herkis brúður heitir Þrúður,
hæfir prúðum rekk,
allrar þjóðar hæstan hróður
hrundin góða fékk.
103
Frumstiklað
Þeirra arfi, æði djarfur,
Álfur nefndur var,
heimastarfið þreytti þarfur,
þrek og dáðir bar.
104
Frumstiklað, síðframhent
Hlynur annar, afbragð manna,
óttast þótti fæst,
frækinn glanni, fús að kanna
fjöllin mjöllu glæst.
105
Frumstiklað, síðbakhent
Fram um heiðar, hann að veiðum
heiman báru þrár;
einatt skreið á öndrum breiðum
undra frár og knár.
106
Frumstiklað, síðalrímað
Einn í ströngum ógnargöngum
eyðiskrauti hjá
háska þröngan hreppti löngum
heiðarbrautum á.
107
Frumstiklað, síðhent
Kár, hinn þriðji þeirra niðja,
þróttinn mestan bar.
Vildi iðjur engar styðja,
óþjáll flestum var.
108
Frumstiklað, síðstímað
Löngum fremur lítt sér kemur
liðið annað við.
Flím hann semur, fyrða gremur,
friðar týnir sið.
109
Frumstiklað, síðframrímað
Oft um granna-sakir sannar
samdi kíminn þátt,
glöppum þannig gleymsku bannar
gramdist mörgum þrátt.
110
Frumstímað
Hæðir einatt orðaskræður
allt, sem geðjast lítt.
Æði styrkar stuðlaræður
stukku furðu vítt.

Til baka -o- Úrkast