Fimmta ríma – Úrkast

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Fimmta ríma – Úrkast

 

111
Úrkast
Úrkast
Reyndar hefur rumið lengi
raustin slæma.
Nú skal betur stilla strengi
stefjanæma.
112
Frumframhent
Gamansamar gerðar skyldu
glettnibögur
blíð ef hlýða vísum vildu
vífin fögur.
113
Frumsamframhent
Góðan óð á gæfustundu
gert ég hefi;
fljóðin hljóðu fegin undu
fögru stefi.
114
Frumbakhent
Oft ég gekk á eyðileiðum
óra-fjarri
hrundar ást, á heiðum breiðum
hættu nærri.
115
Síðtvíþætt
Þá var oft af kæti kveðin
kímin ríma;
þannig hlýrri gerði gleðin
grímutíma.
116
Víxlalsneitt, frumhent
Yndi fundið óðarræða
auka tekur;
enda stundum kliður kvæða
klakann hrekur.
117
Fráhent
Skal frá Hlyni Herkissyni
hraustum kynna.
Heiman gildur víkja vildi,
veiðum sinna.
118
Frummisfjórþætt
Víða á skíðum skríður síðan
skjótur drengur,
mjallarfjalla hjallahalla
hraustur gengur.
119
Frumstiklað
Skálmhent
Flokkur hreina framhjá sveini
fræknum renndi.
Þá varð einum ör að meini,
er hann sendi.
120
Samrímað, frumstiklað
Fiðlulag
Hrein, sem féll að fenntum velli,
fjarri elli,
var að helli hátt á felli
hann af svelli.
121
Frumsniðstiklað
Geymir hann í hamrakynni
hlotna veiði;
leitar enn, ef föng hann finni
fram um heiði.
122
Frumhent
Léttilag
Leið á daginn, dimmu fljótt
og drífu gerði.
Rann um snæinn rekkur skjótt,
þó rokkið verði.
123
Hályklað
Vanda reynir röskur þá
í römmu þófi,
handaskil hann hvergi sá
í hægu kófi.
124
Frumþráhent
Lengi rennur frár um fjöll
að finna skýli;
gengur enn um ógn og mjöll,
þó áttir tvíli.
125
Frumalrímað
Leið svo nóttin löng og myrk
og lét að meini
eyðast þrótt með ströngum styrk
hjá stæltum sveini.
126
Alrímað
Engar veit hann áttir þá,
en uggir þeygi;
lengi þreyta mátt sinn má
á muggudegi.
127
Innbrugðið
Úlfar stökkva ærið svangir
út úr mökkva;
skrúðadökkvir, skrefalangir
skjótt fram hrökkva.
128
Samrímað
Ýlfra taka tugir varga,
tönnum sarga,
ætla stoltir segg að farga
sér til bjarga.
129
Framrímað
Nasa þeir úr fenntum förum
flasa villtir,
rasa fram í ólmleik örum
asatrylltir.
130
Víxlframrímað
Lúinn hlýtur lundar-illu
liði verjast;
á bæði varg og villu
við að berjast.

Til baka -o- Dverghent