Sjöunda ríma – Gagaraljóð

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Sjöunda ríma – Gagaraljóð

 

151
Gagaraljóð
Gagaraljóð
Kem ég enn og kveð til þín,
kona góð sem bannar þögn,
ef að vetrarvísan mín
vakið gæti eina sögn.
152
Frumframhent
Eigi segjum einskisverð
yrkismál um fornan þátt.
Látum kátir ljóðagerð
leika djarft við margan hátt.
153
Framhent
Fortaksháttur
Þegar tregar dýran dag
drósin ljós við sortans haf,
sést það best hve ljóðalag
léttir þéttum sorgum af.
154
Bakhent
Þú ef nema nennir enn
nýja hætti, góða fljóð,
þáttinn lengjum þenna senn,
þræðum týnda ljóða slóð.
155
Frumhent
Eftir hreðu hrökin stór
Hlynur skjóli fagnar má,
bónda með í bæinn fór,
björtum húsum réði sá.
156
Víxlhent
Þá var kveldi er kom í rann
kröppum dansi Hlynur frá.
Viðareldur varmur brann;
vopnin glansa þiljum á.
157
Víxlhent, hályklað
Hrakta þegninn húsi í
hressti veittur beini þar.
Vaktist fegnum hugsun hlý,
hvíldin þreyttum sælust var.
158
Hringhent
Heimamönnum hugnast að
hætta önn er gestur sá
allt með sönnu segir það,
sem að fönnum gerðist á.
159
Síðaukrímað
Spurði Hlynur hverjum stað
hann þar staddur væri á.
Honum bóndinn hermdi það:
Hér að veggjum bærinn sá.
160
Fráhent
Nefndist Héðinn hann sem réð
húsum þar við rausn og gnægð.
Nokkurt Hlynur hafði skyn
hans á æskudaga frægð.
161
Frumstiklað
Afbragð manna áður vann
ærið margt, sem lofað var.
Nú með svanna sínum hann
sat að góðu búi þar.
162
Síðstiklað
Arfi þeirra Úlfur hét
öðrum bar af mönnum þar.
Jafnt við máls og hjörva hret
heldur svarakaldur var.
163
Stiklað
Kolbeinslag
Hjóna dóttir hreppti fljótt
hæstu prýði snjöll og blíð,
auðug þótti af yndisgnótt
eins og hlíðablómin fríð.
164
Oddhent
Nefndist Hildur mærin mild;
mennt og snilld þar skorti síst.
Hljóta vildu hennar fylgd
hetjur gildar margar víst.
165
Víxlbrugðið
Bragðalag
Héðinn , að hrundin fríð
horfði blíðusjónum þá
drenginn á, sem hörkuhríð
hyggjustríður barg sér frá.
166
Stímað
Stíma
Vafalaust þeim gætur gaf
gleðibragði karlinn með.
Stafar þetta ástúð af
eða því er fyrr var skeð?
167
Frumsniðstímað, síðstímað.
Formstíma
Sveimar mætust minning fram:
Mundi hann að glöð var lund,
heiman að er hvíta nam
hrund um dökkva næturstund.
168
Gagaravilla, frumsniðstímuð, síðstímuð
Þá úr háska hvatan dró,
hneigjast lét að boðum ei;
fráum hann á fáki þó
feginn komst í burt og mey.
169
Gagaravilla, stímuð
Nýstíma
Flýðu hefnd og heiftar stríð
heiðar upp í löndin breið;
síðan leyndust langa hríð;
leið var þangað ekki greið.
170
Gagaravilla, frumsniðstímuð, síðstímuð, framrímuð
Kliðstíma
Síðar faðir fljóðs í neyð
flýði þangað stáls úr hríð.
Stríða hatrið hvarf um leið,
hlýða þótti sættin blíð.
171
Gagaravilla, skávíxlhend
Fjalla breiðum hömrum hjá
hérna síðan dvöldu þó.
Gnægðar veiði gagnast má
gildum lýði, sem þar bjó.
172
Gagaravilla, skávíxlhend, sniðstikluð
Fagursneitt
Bóndi mælir hlýtt við hal:
„Hent ég tel þú gerir dvöl,
herja kælinn heiðardal
hríðarélin myrk og svöl.
173
Gagaravilla, skávíxlhend, stikluð
Skrautstikla
Firna ströng er ferðin löng,
færir enga miskunn dreng,
hans á göngu hreystiföng
hirðir þrenging mikilfeng.
174
Gagaravilla, víxlhend
Hér á stigum hafa sést
háskamenn, og vil ég sízt
vita þig sem þeirra gest,
þá ég kenni að illu víst.
175
Gagaravilla
Gagaravilla
Værrar hvíldar nú í nótt
njóti fólkið vinnuþreytt.
Svefninn gefur þrek og þrótt
þeim, sem hafa kröftum eytt.“
176
Gagarastikluvik
Gagarastikluvik
Þeir, sem hafa þreytzt og mæðzt,
þekkja svefnsins gildi bezt,
hversu aftur getur glæðzt
gegnum blundinn styrking æðst.
177
Gagarastikluvik, þríhent
Rík að mætti, megin-skír,
mönnum birtast þvílík rök:
Þann sem grættur böli býr
blundur sættir heilladýr.
178
Gagarastikluvik, vikframhent
Mörgum höpp úr hendi dró
hörku mörkuð æfiþraut,
sá er tapar svefnsins ró
sýnist mestu rændur þó.
179
Síðstikluvik
Síðstikluvik
Margur gekk um mæðukveld
meini hryggður undir feld;
reis að morgni heill og hress;
harm sinn bar á lífsins eld.
180
Síðstikluvik, stikluð
Kraftsins gnótt í svefninn sótt
sendir dróttum nýjan þrótt;
mannsins dáð og meginráð
magnas hjótt um draumanótt.

Til baka -o- Langhent