Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar
Áttunda ríma – Langhent
181 Langhent Langhent |
Gróðursælan heimahaga hylur fannaslæða grá. Virðist mér um vetrardaga von og kvíði takast á. |
182 Frumhent |
Undir mjöllu meginkraftur moldarlífsins bíður þó; hér við fjöllin hlýnar aftur, hýrnar jarðargróskan frjó. |
183 Víxlhent Skrúðhent |
Man ég prýddu vorsins veldi veðrin mætu ljúf og hlý. Dagur skrýddur fögrum feldi fram á nætur vakti því. |
184 Hringhent Velstígandi |
Oft um brattan flugstik fjalla fór ég hratt á stefnumót. Þá var glatt á grænum hjalla, gleðin spratt af sælurót. |
185 Oddhent Flughent |
Kom til fundar hvíta hrundin, heillastundin fegurst var, sæl við undum örmum bundin ein í lundi — Manstu hvar? |
186 Oddhent, síðinnhent Draugalag |
Langt er síðan svannann blíða sá ég hlíðum fríðum á. Enn skal bíða betri tíða, bægja kvíða stríðum frá. |
187 Samrímað, áttstiklað |
Oft þó hinna fljóða finni fegurst svinna vinur þinn, eigi ginnast okkar kynni öll úr minni fyrst um sinn. |
188 Frumhent, frumbakhent, síðþríframþætt Steituþreyta |
Hugur vildi heiman sveima; hróður góðan fljóðið á, hlýja skyldi hreima geyma. Háttaþáttinn máttu sjá. |
189 Frumstiklað |
Senn ég veit að vorið heita vermir þetta land á ný. Burtu leita böl og þreyta. Bráðum kem ég hvamminn í. |
190 Þríkveðið |
Hlynur dvaldi á værðar valdi vertrarkalda hríðarnótt. Þegar birtist vera virtist veðurkyrrt og lygnurótt. |
191 Fráhent |
Vildi halur heim án dvalar hefja ferð er dagljóst var, vera kallar fært á fjallið, færi bezta sýndist þar. |
192 Fráhent, síðframhent Álfaháttur |
Blæja kuldans hauðrið huldi hrein í einum lit að sjá, líkt og hendur himinsendar hafi vafið allt í snjá. |
193 Fráhent, síðstiklað |
Bóndi segir: „Bústu eigi burtu héðan flýti með, bíða sorglaus máttu morguns, mun þá veður hagstætt léð. |
194 Skáhent, síðinnhent |
Úlfur fetað feginn getur fram á heiðaleið með þér, fyrir skata hörku hvata hjarnið breiða greiðfært er. |
195 Frumbakhent |
Þar í góðu gengi drengur glaður var til næsta dags. Gafst á meðan mengi fengur margrar sögu og skemmtun brags. |
196 Framhent |
Hildur mild og fegurst fljóða föður glöðum sat þar hjá, undi hrund við ljúfra ljóða lestur gestsins vörum frá. |
197 Skámishent |
Brag af tíva dáðum dýru drengur svífa lét um rann, málið óf af efni skýru; orð af hófi valin fram. |
198 Frumstímað |
Óðins frægð var lýst í ljóði, lof um Þór var fært í brag, hróður Freys í fögrum óði felldur slétt í vandað lag. |
199 Misþráhent |
Freyju veldi um að inna eigi heldur gleymist þá. Prýddan hróður helgra minna hlýddu fljóðin brosleit á. |
200 Þráhendubrugðið |
Háttafallið djarft þó dyndi dátt með harla ramman klið, snjallan þátt um ástaryndi allir máttu kannast við. |