Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar
Ellefta ríma – Stafhent
241 Stafhent Stafhent |
Viltu heyra væna mín, vísur, sem ég kvað til þín eina þögla þorranótt þegar allt var kyrrt og rótt. |
242 Framhent Háttabönd |
Svinnust hlynnir söngvum að sætan mæt, ég kveð um það, mest og bezt þitt lundarlag, leiðir greiðir mínum brag. |
243 Missamframhent |
Hrímuð Gríma skyggði skjá. Skímu–bríma gneisti þá, hrokkinn, stokkinn óði af okkur nokkurn bjarma gaf. |
244 Bakhent |
Yndi margt við áttum þrátt, orða- röktum –þáttu sátt. Þóttumst engan eiga beyg; ofar hyggjan fleyga steig. |
245 Framsneitt |
Ljósa dísin ljóðamáls, lokkar stukku þér um háls; bjarma hvörmum fríðum frá fagurlogar sendu þá. |
246 Misafturbrugðið |
Saman þá við ortum óð; oft var gaman þegar ljóð tveggja máli orðuð á okkar beggja lýstu þrá. |
247 Misaukrímað |
Þessi tími þannig leið þar til hugans annað beið. Minning hrein í hyggju bjó, ——hvert sem vegir liggja þó. |
248 Frumstiklað Þríþættingur |
Sumartíðin björt og blíð bjó að skrauti löndin víð; allt hið kalda vetrarvald varð að leysa hvítan fald. |
249 Frumstiklað, síðframhent |
Hófum undir ymur grund eina hreina morgunstund, hlaupa fráir hestar þá Herkis merka bænum frá. |
250 Frumstilkað, síðsamframhent |
Fáki gráum fremstur á fríður ríður Hlynur þá. Klárinn þéttan þrífur sprett þýður, blíður, stilltur rétt. |
251 Skárímað, frumstiklað |
Rauður jór með flýti fór fagurlima-svæðin stór, sat hann Kár í söðli hár, sveif á skeiði hestur frár. |
252 Skárímað |
Fylgja bræðrum seggir sex. Sungið er og gleði vex. Hvers í greipum háskept öx hærra ber en alreist föx. |
253 Mishent |
Upp til heiða halir geyst hafa breiða skóga þeyst. Ferðum heldur flýttu þá, fyrir kveld að Veggjum ná. |
254 Hringhent |
Hlýyrt fagnar heimaöld hópi bragna þetta kvöld. Veizlu magna vífin þá, virðum hagnar beini sá. |
255 Misframrímað |
Gleðisöngva kappar kátt kveða næsta snjallt og hátt. Rekkar glæddu gamanskil, gekk þar allt með friði til. |
256 Framrímað |
Hildur kom þar, vífa val vildi fagna prúðum hal; snilldin skein af skírri brá. Skildi fögrum hélt hún á. |
257 Stímað Ferstíma |
Gekk hún fram að fríðum rekk, fékk nú Hlyni mærin þekk valinn skjöld, og hóf svo hjal: „Halur gripinn eiga skal. |
258 Misþráhent |
Njóttu Hlynur hlutar góðs; hljóttu vinur kjörgrip fljóðs. Reyna verður háskinn höld. Hreinan berðu jafnan skjöld.“ |
259 Misstiklað Ferþættingur |
Þessi mærin þegni kær þakkir ærið góðar fær. Gullbaug svanna gefur hann. Greina þannig síðan vann. |
260 Klifað |
Vann ég ást, þess minnast má, máist varla ljómi sá; sá ég snót, og vona völd völdu þig hið sama kvöld. |