Kveðskaparlistin

Á félagsfundi Iðunnar í apríl 2013 flutti Ragnheiður Ólafsdóttir erindi sitt um kveðskaparlistina og birtist það hér í heild.

Erindi flutt á Iðunnarfundi 5. Apríl 2013

Tileinkað minningu Magneu Halldórsdóttur kvæðakonu.

KVEÐSKAPARLISTIN

Í þessum fyrirlestri ætla ég að ræða flutning vísna undir rímnaháttum: kveðskap, kveðandi, kvæðamennsku, eða kvæðaskap, eins og sumir kalla það. Orðanotkun í sambandi við rímnahefðina er að mörgu leyti svolítið ruglandi, og þess vegna finnst mér rétt að taka fram að ég ætla að nota orðin “kveðskap” og “kveðandi” um það að kveða vísur, þ.e. þegar rímnalög, eða stemmur eru notaðar til að koma texta á framfæri.

Sögulega séð, þá völdu kvæðamenn sínar eigin stemmur. Sumir lærðu af öðrum en aðrir bjuggu sínar stemmur til sjálfir. Þetta gildir að sjálfsögðu bæði um menn og konur, þó svo ég tali hér um kvæðamenn í karlkyni. Það er oft minnst á að kvæðamenn hafi haft sína sérstöku stemmu, og ýmsir staðhæfa að það hafi verið frekar algengt að kvæðamenn notuðu að mestu eina stemmu sem þeir sveigðu að ólíkum bragarháttum.[1]

Í byrjun tuttugustu aldar talar Jónas frá Hrafnagili um að kveðandin hafi verið fjölbreytt, og að sumir kvæðamenn hafi átt stemmu við hvaða bragarhátt sem var. Sumir voru rómsterkir og vildu láta heyrast vel í sér og aðrir skreyttu laglínur stemmunnar þannig að þær urðu næstum óþekkjanlegar, segir hann í bók sinni Íslenzkir þjóðhættir, sem kom út í fyrsta sinn árið 1934, en var rituð um tuttugu árum áður og byggir á merkri þjóðháttarannsókn.[2]

Í fundargerðarbókum Iðunnar má finna ýmsar athugasemdir um kveðskap, en þó ekki margt sem lýtur beint að því hvernig menn kváðu. Þar er meðal annars kvartað yfir því að ekki séu margir góðir kvæðamenn eftir í Iðunni – og þetta var eftir að fyrsta kynslóðin, það er að segja stofnendurnir, voru flestir gengnir til feðra sinna.

Tónlistar-og þjóðfræðingurinn danski Svend Nielsen kom hingað til lands seint á sjöunda áratugnum í leit að hinni “ekta” rímnahefð. Landi hans, Thorkild Knudsen, hafði rannsakað svokallaða “þæfingasöngva” eða “waulking songs” þeirra Hjaltlandseyinga og sett þar á svið þæfingarstöð með borði og ullarklæði. Thorkild Knudsen komst að þeirri niðurstöðu að söngvararnir mundu söngva sína mun betur þegar þeir sátu við vinnu sína við þæfingarborðið. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart þegar þessir söngvar eru skoðaðir, því þá sést að þeir auðvelda fólkinu að halda taktinum við þæfinguna.[3] Þessir skosku þæfingasöngvar eru því beintengdir vinnunni, öfugt við rímnalögin sem notuð voru fólki til skemmtunar meðan það vann, ef marka má frásagnir Íslendinga.[4] Svend Nielsen reyndi að setja á svið það sem hann hélt að væri upprunalegur rímnakveðskapur, en varð fyrir vonbrigðum, og hélt því fram að kveðskaparhefðin á Íslandi væri í uppnámi og jafnvel alveg dauð, þar sem hefðbundið “svið” kveðskaparins væri horfið, það er að segja að baðstofan var horfin með öllu sínu innihaldi, bæði vinnu og skemmtan. Svend Nielsen leit framhjá þeim stóra mun sem er á þessum tveimur – og að mínu mati – mjög ólíku sönghefðum. Skosku söngvarnir eru beintengdir vinnunni, á meðan kveðskapur var hafður til skemmtunar meðan aðrir en kvæðamaðurinn unnu, meðal annars vegna þess að hann kvað stundum uppúr bókum, eða var gestur á heimilinu. Á hinn bóginn var kveðskapur auðvitað tengdur vinnu líka, en þá fremur á þann hátt að einstaklingar kváðu sjálfum sér til hugarhægðar, eða til að muna betur vísuna sem þeir voru að setja saman. Einnig eru til dæmi um fólk sem alltaf kvað sérstakar vísur við sérstök störf, eins og til dæmis Jón bóndi í Hlíð á Vatnsnesi, sem kvað ávallt sömu vísuna þegar hann var búinn að reka inn féð í sláturhúsið á haustin.

Það sem ennfremur skilur að hina skosku þæfingasöngvahefð og íslensku rímnahefðina er að kveðskaparhefðin fluttist til höfuðborgarinnar árið 1929, og lifði sæmilega góðu lífi þegar Svend Nielsen var hér á ferð að viða að sér efni um 1970. Það var algengt, fyrir ekki svo löngu síðan, að fræðimenn leituðu að hefðum á þeim stöðum eða í þeim aðstæðum sem þær voru sagðar upprunalegar, og vildu hreinlega ekki viðurkenna að hefðir breytast með fólkinu og samfélaginu, og færast til líka. Nielsen sá sem sagt ekki að hefðin var lifandi hér í Reykjavík og fjarri því að vera horfin eins og hann skrifaði í bók sína sem kom út 1982. Þó var hann í sambandi við Kjartan Ólafsson og kom ef til vill á fund kvæðamannafélagsins (ég hef ekki séð fundargerðarbækur eftir 1979).[5]  Áhersla hans á svokallaða “upprunalega” og “ekta” hefð varpar skugga á rannsókn Svend Nielsen, hvað varðar kveðskaparhefðina og stöðu hennar uppúr 1980, að mínu mati.[6] Hins vegar er bók hans mjög góð heimild um stíl Þórðar Guðbjartssonar kvæðamanns.

Ég færi að því rök í ritgerðinni minni að Kvæðamannafélagið Iðunn hafi haldið lífinu í kvæðamennskunni, þó hún hafi breyst eitthvað og þrátt fyrir mjög breyttar aðstæður almennings í landinu: frá því að mikill meirihluti landsmanna bjuggu í sveitum og þorpum, og þar til nú þegar meira en helmingur íbúanna býr á höfuðborgarsvæðinu. Í höfuðatriðum má segja að kveðskaparhefðin sé mikið til hin sama og hún hefur alltaf verið.

Hvernig lærum við að kveða?

Stofnfélagar Iðunnar lærðu kveðskaparlistina af foreldrum sínum, öðru fólki sem það var samvistum við, eða hreinlega af kvæðamönnum Iðunnar. Þeir kvæðamenn sem lærðu að kveða sem börn hafa flestir lært það án þess að veita náminu mikla athygli, nánast fengið kveðskapinn með móðurmjólkinni, nema þeim hafi farið eins og Jóni Eiríkssyni yngsta kvæðamanninum á Silfurplötunum, sem lærði hjá Birni Friðrikssyni. Hann lagði ýmislegt á sig til að læra bæði vísur og rímnalög, og mamma hans hlýddi honum yfir, en hann sagði samt ekki frá þessu í skólanum, því hann vildi ekki láta stríða sér. Kvæðamenn að norðan sem ég tók viðtal við fyrir ritgerðina mína, sögðu mér að þeim hafi verið strítt í skólanum. Þau höfðu nefnilega farið með föður sínum í kvæðaferð til Reykjavíkur og komið fram opinberlega við góðar undirtektir. Aðalatriðið hér er, að áður fyrr voru nægilega margir góðir kvæðamenn í sveitum landsins til þess að þeir sem höfðu áhuga á gátu lært af þeim, milliliðalaust og án teljandi fyrirhafnar.  Þetta hefur breyst.

Ef við berum okkur aðeins saman við nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum, þá er staðan þar öðruvísi en hér og hefur svo verið um langa hríð. Þar hefur tíðkast í meira en hundrað ár að þeir sem hafa áhuga á að læra þjóðlegan söng eða hljóðfæraleik fari í læri til kvæðamanns eða hljóðfæraleikara sem hefur getið sér gott orð, og læri af honum, eða henni, þangað til lærimeistarinn er ánægður með nemandann. Þessu kynntist ég af eigin raun þegar ég lagði stund á þjóðleg tónlistarfræði við háskólann í Osló á síðustu árum 20. aldar. Aðalkennarinn minn þar var fiðluleikari sem hafði farið til lærimeistara á afskekktum stað og dvalið um hríð hjá honum við nám. Ég stundaði þjóðlegt söngnám við Oslóarháskóla í ríflega þrjú ár. Norðmenn kalla þennan söng reyndar kveðskap (kveding). Tveir aðalkennararnir mínir eru vel þekktar söngkonur eða kvæðakonur, Eli Storbekken og Agnes Buen Garnås. Þær gerðu báðar þá kröfu til mín, sín í hvoru lagi, að ég lærði lögin nákvæmlega eins og þær sungu þau. Þegar þær voru ánægðar með árangurinn – þegar ég hafði lært hefðina nægilega vel að þeirra mati – mátti ég túlka söngvana að vild. Staða þjóðlegs söngs og hljóðfæratónlistar í Noregi sem og á hinum Norðurlöndunum er mjög sterk og stendur að mörgu leyti jafnfætis öðrum listgreinum. Þjóðlega tónlist má nema við ýmsa háskóla og það er til sérstakur skóli fyrir norska úrvalsnemendur, í Voss í Noregi. Þeir sem fá þar inngöngu fá mikinn stuðning við að koma sér á framfæri og verða yfirleitt mjög þekktir fyrir flutning sinn á þjóðlegri tónlist. Svipaða sögu má segja um Tónlistarháskólann í Osló, sem einnig styður mjög vel við sína nemendur.

Kennsluaðferðin sem ég lýsti hér að ofan, er í raun mjög gömul og hefur verið notuð í listnámi um aldir, og nefnist imitatio á  latínu, þar sem nemandinn á að herma eftir kennaranum, mjög nákvæmlega, til að læra, hvort heldur það eru aðferðir við málun eða teikningu; flutning texta eða laglínu; hreyfingu eða hvaða listgrein sem það mátti vera –  þarna lærðu nemendur undirstöður og aðferðir til að geta stundað listgreinina. Enn tíðkast það að nemendur fara til listmálara eða tónlistarmanna í sérnám, til að fá persónulega kennslu í listinni.

Hefð og hefðbundnar listir þýðir samt ekki kyrrstöðu, heldur eru hefðir og hefðbundnar listir á hreyfingu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það eru nefnilega tvö prinsípp sem eru að verki í hefðbundum listum, og þau eru “varðveisla” og “sköpun”. Í kínverskri myndlist á dögum Song veldisins 960-1279, var litið svo á að það væri hugmynd meistarans sem ætti að herma eftir, en ekki hið ytra birtingarform hennar, og það var álitin ókurteisi að gera nákvæma eftirmynd af verki meistarans. Þannig lærðu nemendur að fylgja í fótspor meistara síns, en fara þó sínar eigin leiðir. Eftirlíkingin sjálf gegndi einungis því markmiði að nemandinn öðlaðist sjálfur þá þekkingu sem nauðsynleg var til að iðka listina sjálfstætt. Til að stunda hina hefðbundnu list og færa hana áfram þurfti að læra nákvæmlega af meistarnum, en nemandinn þurfti líka að hafa eigið frumkvæði og sköpunargáfu, nokkuð sem ekki er hægt að afrita.[7]

 

II

Á meðal hinna 200 rímnalaga sem Kvæðamannafélagið Iðunn tók upp á Silfurplötur 1935-36 eru mörg hin sömu eða mjög lík. Ein möguleg skýring á því er sú að rímnalaganefndin hafi ekki skilgreint stemmu sem hina sömu ef hún var kveðin við aðra vísu af öðrum kvæðamanni, eins og kemur fyrir í upptökunum. En aðrir þættir höfðu einnig áhrif, hugsanlega. Ingibjörg og Sigríður Friðriksdætur voru báðar í rímnalaganefndinni og voru kannski ekki tilbúnar að segja stóra bróður sínum honum Birni Friðrikssyni, ritara félagsins, að hann væri að kveða sömu stemmuna við þónokkrar vísur, nú eða formanni félagins Kjartani Ólafssyni. Reyndar á Björn metið, hann kveður aðeins færri stemmur en Kjartan en hefur fleiri eins eða mjög líkar stemmur og aðrir kváðu. Hann tvítekur tvær stemmur og þrítekur eina, sem dæmi. (4-75, 84-90, 81-83-96). Það hefur áreiðanlega ekki verið auðvelt að hafa yfirsýn yfir þessar upptökur, þó svo vísurnar hafi verið skráðar. Vísur voru notaðar sem lagboðar, en lögin voru hvergi til. Til samanburðar hafði Bjarni Þorsteinsson hins vegar öll sín rímnalög skrifuð á nótur, og tvítekur þess vegna aðeins einu sinni, og þá af ráðnum hug, í rímnakaflanum í Íslenzkum þjóðlögum.

Við getum hugleitt hvernig við skiljum eða skilgreinum rímnalag, og hversu tengt það er flutningsmáta kvæðamannsins. Hér heyrum við sýnishorn af því sem Kvæðamannafélagið Iðunn taldi vera góðan kveðskap, góðan flutning á rímnalagi. Þetta eru þrír mjög mismunandi kvæðamenn, en allir í miklum metum hjá félaginu. Fyrst er Sigríður Friðriksdóttir, þá Kjartan Ólafsson, svo Björn Friðriksson og síðust Sigríður Hjálmarsdóttir.

 

 Silfurplötur Iðunnar:

CD I Sigríður Friðriksdóttir 14

CD I Kjartan Ólafsson 23

CD II Björn Friðriksson 26 (lagboði 76)

CD II Sigríður Hjálmarsdóttir 27 (lagboði 77)

 

III

Og þá fer ég loksins að koma að aðalefni þessa erindis, sem er flutningsmáti kvæðamanna, eða kveðskapur.

Upptökurnar frá 1935-36 geyma ekki kveðskap eins og hann heyrðist á fundum Iðunnar eða í öðrum sambærilegum kringumstæðum, það er að segja, þær geyma ekki flutning í sínu venjulega umhverfi, þar sem áheyrendur sátu í kring. Þó má gera ráð fyrir að enginn kvæðamaður hafi verið alveg einn þegar upptakan fór fram. Við vitum ekki hvað þeir hugsuðu, nema það sem fram kemur hjá Jóni Eiríkssyni, sem fannst þetta fremur óþægileg reynsla. Voru þau andstyttri en venjulega, titraði röddin meira en vant var eða fannst þeim þetta spennandi eða kannski afslappandi aðstæður? Fóru þau eins með textann, eða reyndu þau að vera skýrmæltari en venjulega? Kváðu þau hraðar eða hægar, eða bara á sama hraða og fyrir áheyrendur? Eru upptökurnar eins og hefðin “á að vera”, sem sé “ekta”? Skiptir það okkur máli? Hvernig er hefðin?

Hvað sem svörunum við þessum spurningum líður, þá “bjargaði” Iðunn kvæðalögum félagsmanna sinna og gaf okkur um leið sýnishorn af flutningi helstu kvæðamanna fjórða áratugar tuttugustu aldar. Í safni Árnastofnunar höfum við að auki aðgang að fjölmörgum klukkutímum af upptökum af kvæðamönnum úr öllum eða í það minnsta allflestum landshlutum. Og hvað nú? Hvernig ætlum við að fara með hefðina? Er kannski kominn tími til að taka flutninginn alvarlega og fara að iðka kveðskap eins og list? Fólk sem er í hljóðfæranámi og venjulegu söngnámi tekur sig alvarlega, fer til kennara, æfir sig heima, hlustar mikið á aðra flytjendur, iðkar tónlistina eitt og sér og í félagi við aðra. Hjá Iðunni eru enn kvæðalagaæfingar, til að læra stemmurnar, en það er ekki mikið um kveðskap uppá gamla mátann, þ.e. að fólk kveði eitt og sér á fundum, og að það sé til þess tekið að þessi eða hinn sé góður kvæðamaður. Eru kannski engir góðir kvæðamenn eftir í Iðunni, eða á landsvísu? Jú, ég held að þeir séu til, og ég held líka að nú sé tíminn kominn til að breyta aðeins um stefnu og hefja kvæðamennskuna upp, taka hana alvarlega og fara að nota aðferðir sem hafa skilað árangri hjá öðrum þjóðum, og einnig hér, í öðrum greinum. Ég mæli eindregið með því að læra kveðskap hjá góðum kvæðamanni, að stunda kveðskap eins og hvert annað nám, hitta lærimeistarann reglulega, æfa sig vel heima, gera upptökur og hlusta á sjálfan sig, hlusta vel á upptökur af kvæðamönnum sem manni falla í geð, reyna að herma sem best eftir lærimeistaranum og reyna að læra hefðina þannig að fólk segi: “ja, þú kannt að kveða”!

Ég held ekki að það sé nauðsynlegt að gera þetta nám formlegt, eins og gert hefur verið í Noregi, þar sem nokkur fjöldi háskólastofnana býður uppá kveðskaparnám, en ég held það sé alveg nauðsynlegt að taka þetta alvarlega: að þeir sem hafa áhuga á að verða góðir kvæðamenn fari í læri til meistara, eða að öðrum kosti, feti í fótspor Steindórs Andersen sem lagðist yfir gamlar upptökur, hermdi eftir þeim og æfði sig í þaula, þar til hann gat ekki lengur lesið Moggann af því það vantaði stuðla og höfuðstafi! Ég held að það sé ekki nóg að hittast í hópi og læra nýtt rímnalag og kveða síðan í hópi einu sinni í mánuði, örfáa mánuði á ári, ég held það sé ekki nóg til að viðhalda hefðinni, og enn síður til að endurnýja kveðskaparhefðina. Það þarf meira til.

Eins og allir vita, er bragfræði rímna röð af ströngum reglum sem vísnasmiðir settu sig vel inní, og almenningur ólst upp við að heyra og vissi þess vegna hvenær vísa var rétt kveðin. Engar slíkar reglur voru til um stemmurnar og ef til vill var það þess vegna sem stofnendum Iðunnar var svona annt um að bjarga rímnalögunum frá gleymsku, og þess vegna voru þau líka svona ströng við þá sem vildu útsetja rímnalög og leika sér með stemmur við undirleik hljóðfæra.

Ég held að það sé þörf á því að gefa fólki frjálsar hendur, þegar það er búið að læra hefðina – búið lesa og kveða ógrynni af rímum og vísum undir rímnaháttum, þegar það getur bögglað saman rétt kveðinni vísu, og hefur hlustað á ógrynni af rímnalögum – að þá sé komið að því að kveða frjálst, það er að segja að semja stemmuna. Að kveða án þess að hafa ákveðna stemmu í huga, en kunna hrynjandina í bragarháttunum, og kunna formið á rímnalögum. Að mínu mati er það hefðin eins og hún var, er og á að vera.  Rímnalögin sömdu sig nefnilega ekki sjálf í þá góðu gömlu daga, ekkert fremur en þau gera núna, á okkar tæknivæddu dögum.[8]

ENDIR


[1] T.d. Gunnsteinn Ólafsson (ritstj.), Silfurplötur Iðunnar . 2004.

[2] Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir. [1934] 1961, bls. 247 & 361.

[3] “Waulking” og “fulling” eiga við um þæfingu og litun ullarklæðis.

[4] Svend Nielsen, Stability in musical improvisation. 1982, bls. 37.

[5] Ibid., bls. 30

[6] Ibid., bls. 29

[7] Børge Bakken, The Exemplary Society, 2000, bls. 137ff.

[8] Sbr. Philip V. Bohlman, The Study of Folk Music in the Modern World, 1988, bls.3