Króka-Refs Rímur eftir Hallgrím Pétursson

Króka- Refs rímur kveðnar

Hér eru upptökur frá tónleikum nokkurra félaga úr Kvæðamannafélaginu Iðunni frá Kex Hostel þann 28. nóvember 2015, þar sem þeir kveða Króka-Refs rímur eftir Hallgrím Pétursson, alls 13 rímur. Rímurnar eru fluttar í styttri útgáfu og gerði Rósa Þorsteinsdóttir útdráttinn þannig að öll sagan heldur sér.

Flytjendur eru Bára Grímsdóttir, Ingimar Halldórsson, Rósa Jóhannesdóttir, Steindór Andersen, Þórarinn Már Baldursson og Þuríður Guðmundsdóttir.

Ekki er vitað hvenær Hallgrímur orti rímurnar en talið að þetta séu aðrar rímurnar sem hann orti. Hann nefnir í mansöng þunga sorg og menn hafa getið sér þess til að þar sé hann að vitna til sinnar eigin sorgar við missi dótturinnar Steinunnar. Talið er að hún hafi dáið um 1645 og eru þá rímurnar e.t.v. ortar skömmu eftir það.

Ath: hljóðskráin er á undan hverri rímu, sjá hér fyrir neðan.

1. ríma: 26 vísur – Bára Grímsdóttir kveður. 01 Bára Grímsdóttir

Á Breiðafirði bjó sá einn,
er býtti Kraka sáði,
njótur stáls að nafni Steinn,
norður á Ísaláði.

Þorgerður hét þorna brík,
þessa sér nam festa,
Oddleifsdóttir, á elsku rík,
íþrótt kunni besta.

Héldu bæði hjónin trú,
hýrt var þeirra á milli,
höfðu á Kvennabrekku bú
best með sæmd og snilli.

Flest með hefð og heiðri fer
hal og bauga Eiri.
Einn þau áttu arfa sér,
en ekki börnin fleiri.

Að vænleik rétt og þroska þar
þótti flestra jafni,
hann þó rýra röksemd bar,
Refur hét að nafni.

Var honum ei vinnan kring
hjá vöskum bauga njótum,
einatt lá í öskubing
undir kvenna fótum.

Þetta löngum hryggði hjón,
af hörmum brjóstið stundi,
því þau sögðu son sinn flón
sannlega verða mundi.

Sá kemur mann við söguna hér,
sagt er fæstir unni.
Þorbjörn nefnist geira grér,
er gladiel rjóða kunni.

Ódæll mest og illur var,
argur í hyggju bóli,
til vandræðanna varla spar,
vonskufullur drjóli.

Hans var konan ráða rík,
Rannveigu má kalla,
bónda sínum lyndislík,
liljan Fáfnis palla.

Hún var heimsk, en harðlynd þó,
hrekkjafull í æði.
Hvort af öðru dáminn dró,
dyggðalítil bæði.

Svo fær hagað seggurinn frjáls
með sætunni varla þekku,
að nágranni varð stýfir stáls
Steins á Kvennabrekku.

Bæja á milli ein var á,
aurs í gröfnu verki.
Beggja þangað landið lá.
Ljós voru þessi merki.

Ei gat Þorbjörn illskuhár
á sér setið lengi,
hirti lítt, þó hópur fjár
hinum til skaða gengi.

Einhvern dag sig bóndinn býr,
búinn með engu táli.
Hitti glaður geira Týr
granna sinn að máli.

Steinn nam heilsa bauga bör,
blíður í hyggju láði,
þessu næst með þýðleg svör
þannig inna náði:

„Kvikfé hefur þú mikið og margt,
mest á bústað þínum.
Löngum af því líð eg hart
á landi og töðum mínum.

Vil eg þú látir vakta það,
svo verði ei að grandi.
Og gerðu nú með góðu að,
gefst þá minni vandi.“

Að skrafinu þannig skildu þeir,
skiptin frá eg verði.
Þorbjörn ekki þaðan af meir
þannig skaðann gerði.

Leið svo fram um litla hríð,
ljóst bar það til fregna,
Stein nam sigra sóttin stríð,
sorgum þótti gegna.

Mælti svo við menja grund,
mestra kenndi nauða:
„Af vill skríða ævistund,
er mér skammt til dauða.

Þungan hef eg á Þorbjörn grun,
það mun ekki bresta,
eftir dauða minn þér mun
mótgerð sýna versta.“

Þannig endar þeirra skraf.
Þyngir rauna strengi.
Bóndinn upp sinn anda gaf.
Auðþöll grætur lengi.

Þorgerður mikinn þunga fékk,
þrálega varð að gjalda,
yfir töður og engjar gekk,
svo engu mátti halda.

Var það rétt um vetur tvo,
vífið mótgang átti,
hættulega haldin svo
heyja lítið mátti.

 2. ríma: 14 vísur – Þuríður Guðmundsdóttir kveður. 02 Þuríður Guðmundsdóttir

Til sögunnar kemur bauga bör af bónda garði
af lýðum nefndur litli Barði,
er löngum fjárins hagann varði.

Allra manna minnstur var, svo mátti kalla.
glöggur að þekkja gripi alla.
Get eg, að trúrri hittist varla.

Fjár við hirði fríðust mælti Friggjan þráða:
„Til vinnumanns þig vil eg ráða.
Veit eg þú ert fullur dáða.

Búfénaðar- brjótur stáls skal beita hjörðum,
yfirgangi hamla hörðum
og hyggja að landsins merkigörðum.“

Aftur hann fljóði ansar mót í orðum hraður:
„Undir þetta gengst eg glaður,
að gerast yðar vinnumaður.“

Byggði skála af timbri tvo, sem til var vandi,
einn í fjallsins fögru landi,
frá eg annar nærri standi.

Í þeim dvelja einn um nætur ekki sparði.
Fór svo lengi fram, að Barði
fé Þorbjarnar landið varði.

Rannveig sér, að sumars vildi safnið bresta.
Þenkja náði vífið versta,
vonsku ekki lengi fresta.

Við Þorbjörn mann sinn, mennt á slægðir, mælti þanninn:
„Angrast eg um yndisranninn,
að ei höfum hraustan smalamanninn.

Veistu ekki,“ vond réð inna vefjan spjalda,
„Þorgerður mun þessu valda
og þrællinn, sá hún gerir halda.“

Seggurinn spurði, sá hver væri, svo að breytir.
Brúðurin kvað: „Hann Barði heitir,
sem búin mesta ógagn veitir.

Allra manna minnstan vöxt að mæling hefur,
einn í skála sínum sefur.
Sjást mun aldrei flárri refur.“

Bóndinn reiður blakkinn tók og burtu renndi,
skjótlega til skálans vendi,
skógaröxi bar í hendi.

Hrekkja argur hauka láð með heift til reiddi,
byrstur höggið Barða greiddi,
búfjármann til heljar leiddi.

3. ríma: 39 vísur – Steindór Andersen kveður. 03 Steindór Andersen

Norðra lét eg hafna hauk
hlaupa áðan þar í kaf,
sem Barði sínu lífi lauk
og litlar fóru sagnir af.

Þorgerður það frétta fékk,
flestra tekur að halla dug.
Til eldaskála auðþöll gekk,
ei var henni glatt í hug.

Hryggða örin heiftar stinn
hyggju náði fljúga um beð,
eikin hringa arfa sinn
augum þegar líta réð.

„Sterk ógæfa stríddi á mig,
og stóra eykur það mér pín,
aumingjann þá ól eg þig
til óvirðingar frændum mín.

Við yfirgangi gerist ei ró,
grasið eytt, en deyddir menn.
Lyddan þín, þú liggur þó
og læst það ekki vita enn.“

Refur nam þá rísa úr kör,
rakna tók af svefni brátt,
greiddi móður sinni svör
sæmilega á þenna hátt:

„Deilan fyrsta þykir mér þín
þeygi mjúk og næsta löng.
Viskuleg er vonin mín,
að verði hin síðsta nógu ströng.“

Höggspjót eitt þar hanga réð,
halurinn þangað skundar brátt,
flæðar eldinn fagran með,
faðir hans hafði áður átt.

Hrifsar það með hægri mund,
hafði á sér fararsnið
og til dyranna strax á stund,
stóð þá ekki lengi við.

Augum hvimar allt um kring.
Öskurykið bar við ský.
Virðar meintu vitfirring
vera honum sinni í.

En hann gaf sig ekki að því,
áfram heldur rétt í stað,
breytilegur bragði í,
bæ Þorbjarnar stefndi að.

Heim á hlaðið Refur rann,
reiðisvip í brjóstið fékk.
Engan sá hann úti mann,
óboðinn til bæjar gekk.

Skundar inn í skálann hljótt,
er skálka makinn fyrir var.
Sínum bregður svefni fljótt,
síðan spurði: „Hver er þar?“

Ansar hinn, eg innt svo fæ
óðar víst í stirðum þátt:
„Maður einn af öðrum bæ.“
Aftur bóndinn sagði brátt:

„Nafnið veit eg eitthvert átt.“
Ansar hinn á sama veg:
„Raunar um það ræði eg fátt,
Refur,“ sagði hann, „heiti eg.“

Klæðum fleygði sá, er svaf,
sest þá upp í rúmið mitt.
Halurinn mælti: „Herm mér af,
hvert er núna erindi þitt?“

„Hér er kominn að biðja um bót
fyrir Barða dauðan, húskarl minn,
er þú drapst með illskuhót
einmana við skálann sinn.

Þigg eg víst af þínu fé,’
það eg kann að fá í stað.
Líkar mér, þó lítið sé,
ef líst þar mönnum sómi að.“

Sængurklæðin kænn upp reif,
kunni sá að skýfa rönd,
hníf og brýni bráður þreif,
brynju eld í hægri hönd.

Brá í loftið breiðum fal,
bauð, að Refur tæki við:
„Deigt nú bjóða deigum skal.“
Dristuglega snerist við.

Ei var Refur í ráðum seinn,
að rekkju, frá eg, bóndans óð.
Inn um brjóst gekk undateinn,
oddurinn fast í hjarta stóð.

Lét þar Tobbi líf og fé,
læstur dökkum heljar hnút
dauður niður í hvílu hné.
Hljóp þá Refur úr bænum út.

Lýðir gerðu að leita Refs
lengi mjög á degi þeim.
Horfa þótti allt til efs.
Enginn sá hann ferðast heim.

Eikin spjalda spurði að,
hvað spakur frétti nú til sanns.
Refur væna vísu kvað,
var hún gerð um atburð hans.

„Hafðu þökk,“ kvað hringa spöng,
„héðan af skal þér ástin lént.
Heyri eg nú, að heljar göng
hefur versta manni sent.

Grím eg nefni geira hal.
Gistu þar um litla hríð.
Bak við oss í breiðum dal
býr sá einn, hvers lund er þýð.

Kænn er hann að kljúfa rönd.
Kveðju mína honum ber.
Beinan veg á Barðaströnd
til bróður míns hann fylgi þér.

Gestur hans er heitið mætt.
Honum þig eg senda vil,
þar til vort er vígið bætt
og verður annað ráða til.“

Son sinn kvaddi sætan kyrr,
sagði allt um málin vönd.
Létti ekki ferðum fyrr
en finnur Gest á Barðaströnd.“

„Viðtekt unna eg vil þér,“
ansar Gestur rétt í stað,
„hafðu sess og mat hjá mér.“
Mjúkt réð hinn að þakka það.

Ullur seims, sá eldri var,
um íþróttir að spurði greitt.
Komumann gaf settur svar,
sagðist ekki kunna neitt.

Líður svo fram langa stund,
letrin fá nú þetta téð,
allt var blítt um frænda fund,
féll þeim báðum vel í geð.

Eitt sinn Gestur innir greitt,
ætíð var hans hyggjan svinn:
„Af þínum mun eg manndóm eitt
merkja, Refur frændi minn,

hagastan að þenki eg þig.“
Þá nam Refur ansa brátt:
„Hver hefur sagt þér svo um mig?“
Svarar Gestur á þennan hátt:

„Það hafa kvenna keflin innt,
klofin rétt og stuðluð mjó,
skilst mér hvorki skakkt né vindt,
skal eg það betur reyna þó.

Ræðu minni gef að gát,“
Gestur talar lyndishreinn,
„þú skalt seggurinn selabát
sannlega mér smíða einn.“

„Óbilanleg efni þá,“
ansar Refur máli því,
„muntu hljóta mér að fá,
meira en nægja bátinn í.“

Honum var fengið hrófið eitt,
harla stórt á grænan völl,
mektarhátt og býsna breitt,
og borin þangað efnin öll.

Vaknar snemma vaskur sveinn,
víkur nú til smíða ranns,
að sinni iðju ætíð einn.
Enginn maður sá til hans.

4. ríma: 19 vísur – Ingimar Halldórsson kveður. 04 Ingimar Halldórsson

Dregið af sundi dverga far
í Dvalins nausti hvíldi þar.
Rjóður nú með rausna par
Refur enn í smiðju var.

Smíða höldar hitta rann,
hirðir branda athuga vann,
byrðing stóran búinn fann,
bóndinn tók að skoða hann.

Þakkar blítt og þannig tér:
„Þiggja skaltu laun af mér.
Ránar gamminn gef ég þér.“
Gladdist hinn um þagnar sker.

Síðan rennur sögnin mest
senn um byggð og héruð flest,
Refur Steinsson hlunna hest
hefði smíðað manna best.

Fræða örin fljúga kann
Fundings út af viskurann.
Greina skal um gildan mann
Gellir frá eg heiti hann.

Gellir tíðum lagði leik,
löngum efldi gleðinnar kveik
bráður Gests til byggða veik,
biður Ref að fara á kreik.

„Eigi hentar,“ ansar hinn,
„örlög mér að reyna stinn.
Leiktu þér við líkann þinn,
lakur er eg á manndóminn.“

Gellir talar með geðið snjallt,
gamanið þeirra verður kalt:
„Næsta ertu naumur á allt,
nauðugur þú glíma skalt.“

Hljóp af essi hart sem má,
hirðir spjóta þetta sá,
rekk með afli réðist á,
refur mátti verjast þá.

Refur þenkti ráðin klók,
raunir hinum stærri jók,
með linda hans var bundin brók,
báðum þar í höndum tók.

Vatt í loftið veiga njót,
varð hann næsta linur á fót,
fleygði niður fleina brjót.
Furðu var sú byltan ljót.

Hældist mikið hjörva Þór
við hölda sveit, er með honum fór.
Hann lést Refs í heila kór
höggin greiða næsta stór.

„Hefnda bráður sá mun síst,“
segir hann nú og þar við býst.
„Hirði eg ekki, hvernig snýst,
hugblauður mér þessi líst.“

Leyndar að því engan bað,
orðræðan svo gekk úr stað.
Lýðir spott þar lögðu að,
lést ei Refur heyra það.

Eftir jól sem innir spil,
ýtum það eg greina vil.
ránar hestinn rétt með skil
Refur var að búa til.

Gellir nú sem greinir frá
greiða för fyrir hendi á.
Þar um veg hans leiðin lá,
sem laufa Týr var skeiðum hjá.

Smíðaöxi tjörgu Týr
tekur, lítt í bragði hýr,
og að Gelli snöggur snýr
snotur enn með orðin skýr.

Þannig ræddi geira grér,
Gellir á honum reiði sér:
„Fyrir höggin tvö, þú taldir mér,
trúi eg eitt muni nægja þér.“

Reiddi hönd með rauna þol,
rann um holdið unda skol.
Arm og síðu allt frá bol
öxin tók og gekk á hol.

5. ríma: 18 vísur – Rósa Jóhannesdóttir kveður. 05 Rósa Jóhannesdóttir

Ræðan var í rénun, þar
Refur víginu lýsti.
Bóndinn senn, það sagt er enn,
til svaranna aftur fýsti:

„Fór það vel, að fékk sá hel,
sem fyrr þig gerði að hæða.
Um höggin þau er hlaustu tvö,
heyrði eg margan ræða.

Hvaða ráð um hugarins láð
hyggur þú til bóta?“
Randa bör gaf rjóðum svör
ríkum bendi spjóta:

„Í sinni er að sönnu mér
siglu jó að tjalda,
ferð mun greið á græðis heið,
til Grænlands burt að halda.“

Vaska menn sér valdi senn,
vill úr höfnum leysa.
Gladdist hvör, sem hendi hjör,
með honum í burt að reisa.

Létti ei för hinn lúni knörr,
löðrin vaxa þunnu,
þar til land við ljósan sand
lýðir deila kunnu.

Refur þá, sem ræði eg frá,
réð á landið ganga.
Reikaði fljótt á fjallið mjótt
fleygir nöðru spranga.

Sér hann þá fjörð á fríðri jörð
fögrum prýddan jöðrum,
með höfða tvo var háttað svo,
hvor stóð móti öðrum.

Tiginn rekkur trúr og þekkur
traustum býður gotnum
færa skeið um fiska leið
fjarðar inn að botnum.

Byggði dróttin skála skjótt,
skatna enginn sorgar.
Hélt þar vist um veturinn fyrst
veitir sefrings torgar.

Veturnn líður, vindurinn blíður
vorsins blása náði.
Refur hyggur hýr og dyggur
halda þaðan af láði.

Ránar gamm af reyðar damm
rekkar drógu að landi,
bjuggu um víst, svo bilaði síst,
bæði með trjám og sandi.

Sigldu skjótt með svinna drótt
seggur á fari nýju,
hélt svo rétt, það hef eg frétt,
hafsins út á glýju.

Sá var bær við sjóinn nær
siglu dýrs fyrir stafni.
Bóndinn hét, sem beint eg get,
Björn að réttu nafni.

Bauga bör var blíður og ör,
burðuga dóttur átti.
Hún var þýð og harla fríð,
hrósa slíku mátti.

Hringa brú hét Helga sú,
helstar listir kunni,
lyndishýr og líka skýr,
ljúf í hyggju brunni.

Tók þar vist um vorið fyrst
veitir bjartra seima,
tíðkaði smíð með tiginn lýð
hjá traustum bónda heima.

Bóndans rann svo reisti hann,
ræði eg slíkt í letri.
Um Grænlands frón sá flýgur tón,
þar finnist enginn betri.

6. ríma: 19 vísur – Þórarinn Már Baldursson kveður. 06 Þórarinn Már Baldursson

Þormóð hermi eg hýran þar
hal með þelið prúða.
Fleina hlynur fyrr sá var
fóstri lista brúðar.

Húsareisir gæfur gaf
gát að snótar bragði.
Spektar vakti Refur raf,
við reyndan bónda sagði:

„Dóttur áttu, geira grér,
geðugri fæst engi.
Klæða tróðu kjöri eg mér,
ef kost þann besta fengi.“

Þýður brúðar fóstri fyrst
fýsti mest á þetta.
Bóndinn grundar best með list
blíðu ráðið setta.

Lofaði Refur æðstu ást,
er sá borinn til lukku.
Vínið hreina best ei brást
brullaup snjallir drukku.

Sumarið blóma bliku jók,
breytist vetrar lúi.
Refur gæfuríkur tók
ráð yfir auð og búi.

Helgu fylgir heillin öll,
hvergi sorgir mæða.
Virðug gerði vella þöll
vænan svein að fæða.

Afans ljúfa heitið hlaut,
hlaðinn fríðleiks blóma,
stála þolir strit í þraut,
Steinn var gjarn á sóma.

Að úti vetrar tímum tveim
trúnaðar sveini gjörnum,
bróðir fæðist framar í heim.
Fjölgaði Helga börnum.

Hamingjan fróm réð hringa spöng
heilsu frjálsa veita.
Sorgar byrgist bungan löng.
Björn skal sveinninn heita.

Átta rétt um árin þar,
að ævinni Refur gáði,
hlífar kljúfur kyrr þá var
með kænsku á grensku láði.

Nesi ljósu nærri þar,
njótar litu fleina,
bónda kenndur bærinn var,
bókin rík má greina.

Þorgils tjörgu Týrinn hér
tel eg málið kalli,
í fæstu bestur, órór er,
að auki Víkur-Skalli.

Átti hrotta sveigir sá
syni væna fjóra,
tjáð í fræði trúum þá
tignar þegna stóra.

Þengill ungi skíran skar
skrúða Óðins dýra,
aldurs gildur árin bar
yfir ljúfa hýra.

Þorgils argur þetta brátt
þannig innir mönnum:
„Líst mér næsta ljótt og fátt
leiða af skræðumönnum.

Flugs mun vaxa rimman römm.
Refur hinn gæfuþunni
landi greindu grimm er skömm,
giftu hafti unni.

Ógnafregnin fór hans þar
fast og næsta stendur,
Refur um ævi rýr að var
ragur og huglaus kenndur.

Yður ráða vel eg vil,“
vill svo karlinn tína,
„ekki nokkur skuluð skil
skjóma geymi sýna.“

Í 6. rímu varð ég að sleppa alveg frásögninni af því þegar Refur sér hvítabjörn þegar hann er á leið frá bátasmíði sinni og snýr við til að sækja öxi þar sem hann veit að ekki er vit að mæta birninum vopnlaus. Í millitíðinni drepa Þorgilssynir björninn og segja síðan frá því að þeir hafi séð för Refs þar sem hann flúði undan birninum og bæta því við að sést hafi á slóðinni að hann hafi migið á sig af hræðslu. Faðir þeirra bætir síðan við söguna og á Refur hafi hrakist frá Íslandi vegna þess að níundu hverja nótt hafi hann breyst í kvenmann og viljað hafa mök við karla. Reyndar er gefið í skyn (og sem ég varð líka að sleppa að óvinskapur þeirra Þorgilssona við Ref eigi upptök sín í því að Þengill  hafði viljað eiga Helgu en hún ekki viljað hann.

7. ríma: 25 vísur – Ingimar Halldórsson kveður. 07 Ingimar Halldórsson

Suðra far að sandi bar,
Suttungs hlaðið minni,
brotnaði þar, sem Þorgils var
þrotinn að ræðu sinni.

Hátt svo gekk um horskan rekk
hæðnismálið þetta,
Refur fékk um ræðu bekk
róminn þann að frétta.

Hetjan þýð í huga blíð
heyra lést það ekki.
Að skipasmíð á skjótri tíð
skundaði halurinn þekki.

Kvikfé flest úr máta mest
mjög um haustið felldi,
með engan frest, það átti best,
út fyrir varning seldi.

Búgarð sinn, svo beint eg finn,
bændum falan veitti,
varninginn svo verslaði inn,
visku ráða neytti.

Tíminn líður talinn fríður,
trúi eg það sorgum hamli.
Til Refs kom þýður, þekkur og blíður
Þormóður hinn gamli.

„Illum hljóm og orða róm
öldin gerir að fleygja.
Öfundar gróm með engan sóm
að þér margir hneigja.

Eg hugðist, þá hlaustu fyrst
Helgu úr föður ranni,
seima rist með sæmd og list
selt hafa dándismanni.

Líst mér ótt að látir skjótt,
lundur grænna skjalda,
kímna drótt fyrir kallsið ljótt
á kroppi sínum gjalda.“

Hetjan snör gekk hreysti ör
heiman seint á degi.
Hringa bör hefur flein í för,
fleiri vopnin eigi.

Síð um kveld þá sat við eld
sjálfur Þorgils gamli,
soðning felld á seiðnum velgd
sorgum trúi eg hamli.

Þorgils að nam þykja það
þegninn lengi tefði,
erindin bað sér inna í stað,
ef þau nokkur hefði.

Kempan fljót svo kvað í mót:
„Kom eg þig að finna,
með blíðuhót þig bið um bót
fyrir bakmál sona þinna.“

„Ræður þær,“ hann Þorgils hlær,
„þarftu ei aftur bera.
Orðin nær, sem innum vér,
ætla eg sönn að vera.“

Refur fékk þá reiði smekk,
reisir spjótið viður.
Hjó hann rekk, svo hjörinn gekk
úr herðum öllum niður.

Hafði mest í huga fest
halurinn fleira að starfa.
Nýtur sest, sá numdi felst,
í naustinu Þorgils arfa.

Ránar ess mun rísa úr sess
Refur og högg nam veita.
Getið er þess, að Þengill prests
þyrfti ei framar að leita.

Firrtur lá hann fjörinu þá,
fækkuðu Þorgils synir.
Dimman há því megna má,
miður sjá við hinir.

Ekki bar til bóta þar,
bræður mættu kífi.
Ráðasnar að Refur var,
rændi [alla] lífi.

Heim að Hlíð kom hetjan þýð,
hefnda búinn að krefja,
vekja lýð, þó væri síð,
vill ei lengi tefja.

Fylgdi rekk á flæðar bekk
falda sólin ríka
lyndiþekk, og þar á gekk
Þormóður gamli líka.

Synir þrír hjá seima Týr
sátu við lyfting klára.
Steinn var hýr og hugaskýr,
haldinn níu ára.

Björn var einn í yndi hreinn,
ára sjö má letra,
Þormóður sveinn á sóma beinn,
sagður þriggja vetra.

Reiðinn söng, en ránin löng
rann með knarrar stafni.
Sérhver stöng við storma föng
stundi á ægis hrafni.

Skeiðin klár með skraut í ár
Skeljungs fauk til láða
sem valurinn knár, þá vindur stár
vængina undir báða.

8. ríma: 32 vísur – Bára Grímsdóttir kveður. 08 Bára Grímsdóttir

Felldi eg óð í fyrra sinn
um frækinn Ref og mengi.
Heldur þjóð um hafið svinn,
hvergi tefur lengi.

Flæðar dýr á fiska grund
fauk í göldum stormi.
Ræðan snýr frá Ref um stund
róms með völdu formi.

Til Víkur aftur vísan fer,
visku trauð um strengi,
þar ríkan skafta skýfi ber
skjótt frá auð og mengi.

Rjóðir branda brjótar skjótt,
leikir í sorgum megnum,
hljóðir standa ýtar ótt
yfir Þorgils vegnum.

Fréttir lýða sveitin senn,
sögnin fór með skyndi.
Þetta víða virtist enn
vera stórtíðindi.

Síðan Gunnar svoddan spyr,
sá var Þengils mágur,
um blíðu brunna hitnar hyr,
hvergi sorgar lágur.

Næmi gefur nóg fyrir sann
í nauða kífi gildu.
Kæmi Refur, rekkar hann
ræna lífi skyldu.

Lengi Refur renndi gegn
á ránar spöku veldi.
Enginn hefur af honum fregn,
oft þó vöktun héldi.

Gunnar kvíða kastar þó,
kvaðst ei standa í vafa,
unnar stríðan ætlar sjó
ýtum grandað hafa.

— — —

Áður en þessari rímu er haldið áfram þyrfti að segja áheyrendum að eftirfarandi orð þýði öll kóngur: hari, vísir, gramur, ræsir, hilmir, buðlungur, þengill.

Af ljóða porti um Noreg næst
náms eg svipti hurðu,
þjóð að skorti hirði hæst
hara skiptin urðu.

Var á engu yndi von,
ýta þjáði vandi.
Haraldur kóngur Sigurðsson
sá tók ráð í landi.

Var sá maður vísi með,
veifa falnum kunni,
þar og glaður glaður gisti féð.
Gramur halnum unni.

Brjótur skjóma Bárður var
beint að heiti fundinn,
njótur róma Þjasa þar
þegnum veitir mundinn.

Burðugur gekk í ræsis rann
rekkurinn svaramildi.
Spurði þekkur hilmir hann,
hvert nú fara skyldi.

„Láttu ganga í Grænland enn
greitt um hrönn á flæði.
Máttu þangað sækja senn
svörð og tönnur bæði.“

Með blíðu segist Bárður þó
buðlungs hlýða ráði.
Þýður fleyi þegar á sjó
þegninn hýða náði.

Skjótt Grænlandi skatnar ná,
skipi í hafnir undu.
Fljótt á sandi fyrðar gá,
á fleyinu stafninn bundu.

Gunnar langa veturvist
veitti komumanni.
Runnar spanga léku í list,
líður svo með sanni.

Sveigir spjóta sinnishýr
sæmdir kunni megna,
segist hljóta beint hvað býr
í brjósti Gunnars fregna.

Frá íslenskum manni mest
mál það fló fyrir löngu,
sá af grenskum gabbið verst
gisti þó með röngu.

„Heldur sein varð hefndin grimm,“
hann nam svo að greina.
„Kveldi á einu feðga fimm
frækinn vó alleina.“

Þagði varla þrautin slétt.
Þundur stála bráði
sagði alla söguna rétt
satt og málið tjáði.

Gunnar mælti hefðarhár,
herma lést með sanni:
„Unnar stælti stormur klár
steypti versta manni.

Hræddur flúði hér í frá,
hætta vegs ei tafði.
Klæddur skrúði kólgu á
karlinn sex þó hafði.“

Branda aftur brjóta spyr,
hvort búið sé hans að leita.
Randa raftur rétt sem fyrr
réði andsvör veita:

„Nærri og fjarri um fold og fjöll
með fylking manna þýða
hærri og smærri héruðin öll
höfum kannað víða.“

„Förum báðir bragnar víst!“
Bárður kann svo inna.
„Spörum dáð og spektir síst
spillvirkjann að finna.“

Býður styggur beint án efs
Bárður frá að drífa.
Lýður hyggur leita Refs.
Loksins má það hrífa.

Mengið lenti síð við sand
senn hjá höfða einum.
Enginn nennti nú á land,
náðum vöfðust hreinum.

ýsti landið bauga bör,
Bárð, með hreysti kanna,
snýst að sandi snotur og ör,
snarskyggnastur manna.

Sá nú fjörð með sundin mjó
sveigir falsins stinni,
lá með jörðu langur þó,
líka dalsins mynni.

Gekk á skip og gladdist ótt,
gerðist hagurinn sóma.
Fékk í svip að falla nótt,
fagurt nam dagur ljóma.

9. ríma: 30 vísur – Þórarinn Már Baldursson kveður. 09 Þórarinn Már Baldursson

Hnikars lá þar hulin ör,
sem hraðar Bárður göngu.
Landið á gekk bauga bör,
bragna fá hann hafði í för.

Fylgdi Gunnar fyrðum greitt
fram með sjónum lengra.
Við lagið unnar litu breitt
laufa runnar virkið eitt.

Athuga grannt að öllu rétt
ýtar skjótt að bragði,
var ferkantað, vafið þétt,
vel til pantað, hátt og slétt.

En sem glaður geira Þór
gerði slíkt að skoða,
vaskur maður, vexti stór,
í virkið hraður ofan fór.

Kveðjur gefur Gunnar snar
greiða hjörva runni.
Nú er Refur þekktur þar,
þeygi tefur listasnar.

Með köppum snjöllum Bárður bjó
bál um virkið stranga.
Listaföllum leyndi þó,
loganum öllum niður sló.

Refur gekk um virkið víst
vitur og þannig ræddi:
„Sækist rekkum seint mér líst.“
Sorgarekki um brjóstið snýst.

„Best mun falla,“ Bárður kvað,
„þó brúkir lista nægðir,
hælstu varla hátt um það,
hvað eg spjalla, gáðu að.“

Enn því spáði örva grér:
„Þá árin fjögur líða,
við Gunnar báðir bönum þér,
ef bíða á láði þorir hér.“

Skildu að máli, skjótt er má,
skatna kvaddi engi.
Hættu báli höldar þá,
huldir stáli gengu frá.

Strauma létu hauk á haf
heim í byggðir renna,
humra fleti héldu af.
Hvíld þá vetur Bárði gaf.

Um vorið síðan vildi heim
vitja halurinn ríki.
Góins skíða geymir þeim,
Gunnar, fríðan valdi seim.

Hefðarframur hlutina þrjá
Haraldi kóngi sendi:
húna gram, sem hvítan á,
harla tamur mundi sá.

Hér næst tafl af tönnum rennt,
tel eg það gripinn besta,
með hverjum kafli hvítt og klént,
handar skafli dýrum spennt.

Hilmi enn, það hef eg frétt,
haus af rostung sendi,
gulli rennt í lautir létt,
líka tennur sátu þétt.

Noregs láði nýtur vann
ná í réttan tíma,
kænn í ráðum kónginn fann,
kvaddi bráður stilli hann.

Hilmir fagna honum réð,
hlaðinn all kyns blóma,
gætir sagna greitt fékk séð
grenska bragna varning með.

„Yður sendi,“ svo hann kvað,
„sikling dyggða prúði,
hinn grænlendi Gunnar það,
greitt afhenda mig hér bað.“

„Máttu skýra máls um beð,“
mælir gramur hinn kyrri,
„eitthvað býr hér undir með.“
Örva Týr þá greina réð:

„Sá hefur Refur í lýða land
listugur komið næsta,
virðum gefur versta kland,
vondur hefur aukið grand.“

Milding réð svo mæla greitt:
„Mun það Refur vera,
hafskipið sem byggði breitt,
beint þó séð hann hefði ei neitt.

Til Grænlands dimman gegnum mar
gerði því að renna.
Feðga fimm hann felldi þar
fyrir grimmar lygarnar.“

Orðabráður ekki seinn
ansar Bárður tiggja:
„Við ræðum báðir enn um einn,
er sem tjáði sjóli hreinn.

Hann hefur smíðað,“ halurinn kvað,
„herlegt virki af timbri,
með eikum víða útsnikkað.
Enginn lýða vinnur það.

Að því bárum eldinn vér
uppi og niðri líka.
Það kláru vatni veitti af sér,
versta fár það þótti mér.“

Skjóma meiðir skrafaði enn,
skildu þegar að stundu.
Veturinn leið. Um vorið senn
á völlinn reyðar héldu menn.

„Hafið þér hugsað,“ halurinn tér,
„herra, um nauðsyn vora?“
Ráðið dugs þá rétt af sér
ræsir flugs gaf andsvör ber:

„Pípur tvær eg trúi hér
taki vatn úr einni.
Fylla þær, sem vitum vér,
virkið nær, svo ekki þverr.“

Fleira ræða fylkir vann
framar um virkis smíði.
Í setning kvæða síst eg kann
sveit að fræða um atburð þann.

Bragnar fengu besta vind,
báran lék á súðum.
Austra gengur árahind,
ekki lengur fer með mynd.

10. ríma: 17 vísur – Þuríður Guðmundsdóttir kveður. 10 Þuríður Guðmundsdóttir

Víkur að Bárði Viðris kveik,
vakur hélt um öldu kvak,
ríkur hafsins reyndi leik,
rak með strengjum öldu blak.

Hraður býtti byrinn lið
í breiðar voðir, setti á leið.
Glaður tók þeim Gunnar við,
greiða mestan Bárður leið.

Runnar tjörgu tólf um sinn
tvenna völdu hrausta menn.
Gunnar svo og seggur hinn
senn frá landi héldu enn.

Reyndir gengu rétt um stund
randa brjótar þegar á land.
Greindir Refs nú girnast fund,
granda skal honum þetta kland.

Setta virkið virðum hátt
veittist glöggt að líta eitt.
Rétt að hyggur Bárður brátt,
breytt fá ekki um það neitt.

Hófu þeir að hrinda töf,
hreif nú sveitin allt og þreif.
Grófu drengir djúpa gröf,
dreif þá vatn úr foldar kleif.

Ljóst þá báru bragnar hast
byrstir eld í virkið fyrst.
Þjóstur vex, en vatnið brast,
vista mæt er horfin list.

Listin byrgð hjá brögnum sést.
Brast nú þegar í virki hast.
Fyrsti hlutinn fallinn sést,
fast þá gerði taka kast.

Féll sá partur fram á völl,
fallið þungt í loftið skall.
Hvellurinn glumdi hátt við fjöll,
hjallur skalf, sem greinir spjall.

Hljóp þar fram á hjólum skip,
hrapaði flugs í sævar gap.
Hrópaði traustur til í svip:
„Tapið ekki veiðiskap!“

Vatt þá Refur voðir hátt,
veittist byr af landi greitt,
hratt nam stika hauðrið blátt,
hreytti bylgjum fleyið breitt.

Hljóðum Bárður háum með
hraða alla sér nú bað.
Óðum víst á vastrið réð
vaða skútan hans af stað.

Hvetur Refur ryðugt spjót,
rataðist allt, sem til hann gat.
Setur skútan fram hjá fljót,
við flata lyfting Bárður sat.

Falur stinnur stefndi vel,
stálið veitti Bárði tál.
Halurinn norski nú fékk hel,
nálega hvarf vit og mál.

Sneru aftur þegnar þar,
þeir ei vildu sækja meir,
reru fleyi fljótt af mar,
fleiri síðar rjóða geir.

Kom þá Gunnar hryggur heim
hræmuleg var ferðin slæm.
Sómadauf hjá drengjum þeim
dæmist hún og skaðanæm.

Stuttan, breyttan hnýtti hátt,
hætti, þrátt er kætti sætt,
fluttan, þreyttan býtti brátt,
bætti fátt í þætti rætt.

11. ríma: 20 vísur – Rósa Jóhannesdóttir kveður. 11 Rósa Jóhannesdóttir

Ríman þangað ræðu snýr,
Refur út á hafið flýr.
Gunnar skildi hratt og hann.
Hvorugur síðar annan fann.

Reiðinn söng, en röstin hvein,
rétt varð ekki ferðin sein.
Dróttin svinna tigin, traust
tók þá Noreg seint um haust.

Komu þeir við Æðey ótt,
ýtar gengu á landið skjótt.
Blíðan hitti borgar lýð
bragna sveitin lyndisþýð.

Hallar múgur herma bað,
hver þar stýrði borða glað.
Nú er skipt um nafnið hans,
Narfi er heiti þessa manns.

Til Niðaróss kom Narfi heim,
náði vist í byggðum þeim,
tók til leigu skemmu skjótt,
skipti fátt við hölda drótt.

Hafði kóngur hirðmann einn,
hvergi var til rómu seinn.
Skálp-Grani hét skjóma bör,
skötnum sýndi hrekkjapör.

Fleina brjótur fríður var,
fegurðar skrúða mestan bar,
yfirlætið ekki brast.
Elskar kóngur þennan fast.

Mörgum veitti vífum smán,
verstu blygð og ærurán.
Illa bragnar þoldu það,
en þorðu ekki að finna að.

Nokkurn dag, sem nú eg get,
niflung frægur þinga lét,
sjálfur vildi segja dóm.
Safnast þangað hirðin fróm.

Narfi og Steinn, sem greini eg glöggt,
gengu nú á þingið snöggt.
Þegnum fylgdi þá til sanns
Þormóður, yngsti sonur hans.

Björn var eftir brúði hjá,
burtu gengu hinir frá,
illa heima undi nú,
orlof fékk af menja brú.

Gekk á þingið þegar í stað.
Þóttist Narfi skilja það
enginn mundi auðs hjá grund,
út nam ganga hratt að stund.

En er Björn frá bauga Bil
burtu gekk, sem innir spil,
kom þá maður kátur þar,
klæðum bláum prýddur var.

Sveigi skafta Helga hratt
heilsar nú og spurði glatt
að nafni greiðu gildan mann.
Grani sagðist heita hann.

Í bili því, sem bauga Gná
baugs við hirði svipting á,
Narfi kom að glugga greitt.
Grana mun því verða heitt.

Bar þá skuggann skemmu í,
skundar Grani burt með því.
Hinn vill líka hraða sér,
hlaupandi með veggnum fer.

Engu síður hleypur hinn,
hræðslan frá eg hann mæði um sinn.
Hjá skíðgarðshliði hittast þeir.
Hræðast tekur Grani meir.

Ansar Narfi: „Illa þér
í öllum hlutum farið er.
Yfirlætið engan mann
í örlögsverkum stoða kann.“

Létti þannig laufa hríð,
lífið missti Grani um síð.
Í fjörbrotunum fallinn mann
sér flýtti Narfi að jarða hann.

Biður síðan brúði fljótt
til burtferðar að ráðast skjótt.
Hún nam þessu hlýða þá,
hraðar öllu best sem má.

12. ríma: 18 vísur – Steindór Andersen kveður. 12 Steindór Andersen

Hvarf eg frá, þar hélt hann Narfi hafs á brunna.
Vindur gerði voðir spenna.
Vakurt skeiðin tók að renna.

Líkið Grana lýðir fundu ljóst með greinum.
Firrðir lífs er fjarri að vonum,
fann þá enginn neitt af honum.

Að morgni eftir milding lét til mönnum blása.
Hilmir réð svo hátt að glósa
heyra mátti þjóðin ljósa:

„Höldar kenndu hirðmann vorn að heiti Grana.
Í gær var veginn geymir fleina.
Eg get það ekki blíðu neina.

Enginn hefur ýta svo af Ísalandi
þorað að hreyfa hryggðar fundi
handarjaðri vorum undir.

Heldur get eg hafi sá Refur hingað leitað,
grænlenskum sem gerði úr máta
glettingar í frammi láta.“

Eftir þetta öðling gerði ýtum bjóða
leita Refs um landið víða,
líka hafsins strauma stríða.

Ræðan víkur ræsi frá og röskvum fyrðum.
Segir Refs af sjávarferðum,
seglin breiðast í gusti herðum.

Allt að Danmörk undan sigldi Ullur hringa.
Kaskur náði kljúfur spanga
fyrir kónginn sjálfan inn að ganga.

Málavöxtu alla fyrir öðling tjáði,
vísi þá um viðtekt beiðir.
Vænleg frá eg hann svörin greiði:

„Velkominn skal veitir auðs,“ kvað vísir frægur.
„Heldur ertu hermannlegur,
hver veit, nema þér fylgi sigur.

Þú skalt bústað þiggja af oss til þýðra náða.
Þegar stundir lengur líða,
lukku muntu stærri bíða.

Hlýrar báðir, Björn og Steinn, skulu buðlung þéna.
Þeim vil eg allar sæmdir sýna,
ef seggir stunda blíðu mína.

Þormóður, þinn þriðji son,“ kvað þengill blíður,
„fyrst má sinni fylgja móður.
Fleina Tý mun aukast hróður.“

Sagði Refur sjóli skyldi sjálfur ráða.
„Látið þér hjá mér hlýra bíða,“
hetjan svaraði lyndisþýða.

„Meðan fjárhlut mínum kann að mestu að lóga.“
Ræsir kvað hann ráða mega.
Runnur gladdist nöðru teiga.

Á sigludýrið safnað hafði svörð og tönnum,
hér með dýra hvítum skinnum.
Í historíunni þetta finnum.

Hvítabirni hafði fimm og harla stóra,
fimmtíu líka fálka dýra.
Frá eg svo vilji bókin skýra.

í 11. og 12. rímu er alveg sleppt gátunni sem Refur leggur fyrir kóng þegar hann lýsir vígi Grana á hendur sér.

13. ríma: 14 vísur – Samkveðskapur. 13 Samkveðskapur

Mansöngs hætti mælskan treg,
mál er söguna að enda.
Hróðurinn skal um hyggju veg
heim í Noreg venda.

Áður lýsti eg atburð þeim
í óðar versi bráðu,
fylgjarar Bárðar fóru heim
og fjöri ræntan tjáðu.

Lét þá hilmir leita þess,
sem lýsti vígi snjöllu,
bæði um frón og fiska sess,
forgefins með öllu.

Vill þá setja mannamót
milding, klæddur stáli.
Hirðin þangað þusti fljót,
þengils hlýddu máli.

Líflát Bárðar lýsti þar
lofðung hefðarstælti,
eftir því sem augljóst var,
eins um Grana mælti.

„Helstan vissan hef eg grun
í hyggju rótum bera,
rétt sá Narfi raunar mun
Refur Steinsson vera.

Nú vil eg,“ kvað niflung frí,
„nafnið hans svo lengja:
Króka-Refur kallist því
kljúfur öglis þvengja.

Af þingi síðan þjóðin býst,
þakin linna síki.
Útlegð Refs er einatt lýst
í öllu Noregs ríki.

— — —

Skipið norska Refur rétt
ræsi dönskum færði.
Hef eg það af fræði frétt
fylkis gleði nærði.

„Á Vendilskaga vestur jörð,“
kvað veitir Hrumnis teiga,
„fjögur bú með gæðum gjörð
gefins skaltu eiga.“

Þakkaði Refur þetta bert
og þóttist lukku finna,
á Vendilskaga vestur þvert
vitjaði búa sinna.

Átján ár þar sat með sóm,
svo er greint í letri,
til hugar koma að halda í Róm
og heilsa sankti Pétri.

Á reisu þeirri rauna sótt
Refur síðan hreppti,
af nam draga afl og þrótt,
önd frá lífi sleppti.

Ofsóknanna þoldi þjóst,
þó með hyggju traustri.
Í Frankaríki líkið ljóst
liggur í munkaklaustri.

Hér í lokarímunni er sleppt frásögninni af því er Eiríkur, bróðir Grana, veitir Ref eftirför til Danmerkur og því hvernig Refur leikur á hann.