3. Að læra að kveða, eða að bæta sig í listinni.

Best er að læra hjá góðri kvæðakonu / góðum kvæðamanni, en ef þú vilt læra þetta á eigin spýtur, þá getur þú byrjað á að hlusta á stemmurnar sem fylgja þessu kveri og skoða síðan textann og nóturnar, ef þú heldur að þær auki skilning þinn á stemmunum. Nóturnar sýna yfirleitt einungis „beinagrind“ stemmunnar, því fáar eða engar skrautnótur eru skráðar. Hér á eftir er lýsing á ferli sem hefur gefist vel við að læra kveðskap. Ferlið er þrískipt: að hlusta, herma og kveða, en þó væri best að bæta við fjórða liðnum sem er að kveða fyrir góðan kvæðamann og fá álit hans á frammistöðunni.

Það er nauðsynlegt að huga að bragfræði, að kynna sér bragarhætti vísnanna sem þú kveður. Þú þarft að skynja hrynjandina í bragnum til að geta valið stemmu við vísurnar sem þú vilt flytja. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur skrifað margt um bragfræði og fleiri höfunda má finna á netinu, t.d. á heimasíðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar (sjá heimildaskrá). Hér verður aðeins fjallað um sjálfan flutninginn, kveðandina.

I Að hlusta

Hlustun er fyrsti þátturinn í því að læra tónlist af hvaða tagi sem er. Þegar ég hlusta á stemmur í fyrsta skipti, heyri ég allt sem kveðið er, texta, laglínu og skraut og finnst þetta stundum flókið. Ég byrja á að skoða textann. Síðan hlusta ég aftur og aftur, fimm til tíu sinnum og fer þá að finnast þetta verða einfaldara þangað til “beinagrindin” af stemmunni er orðin skýr og ég búin að læra “lagið”. Ég held svo áfram að hlusta (og æfa mig á laglínunni) og fer þá aftur að heyra heildina, þ.e. allt þetta sem ég heyrði í fyrstu hlustun og fer þá að geta greint ýmis smáatriði sem hreinlega hurfu meðan ég var að ná laglínunni. Þetta ferli felur í sér að hlusta fimm til tuttugu sinnum á hverja stemmu. Ég mæli þess vegna með að þú hlustir vandlega áður en þú ferð að raula með. Síðan ferðu að raula með og heldur svo áfram að hlusta. Gott er að hlusta fyrst á stemmuna í heild, síðan nokkrum sinnum eingöngu á fyrstu línuna. Reyna að herma eftir henni, kveða með. Hlusta síðan á fyrstu tvær línurnar, herma, svo á þrjár línur og loks allar. Gefa verður gaum að laglínunni sjálfri, skrautnótum, andardrætti kvæðamannsins og sérstaklega að flutningi textans og öllum áherslum þar að lútandi. Hrynur bragarháttarins ræður í raun hvernig stemman er, rytmískt (hrynrænt). Hlusta oft, kveða oft með, og kveða síðan án þess að spila upptökuna með.

II Að herma

Elsta aðferðin við að læra listir (og reyndar flest annað líka) er að herma. Bæði í Evrópu og Asíu eru til heimildir um listnám og kennslu þar sem nemandinn lærir að herma nákvæmlega eftir myndum meistarans og fær ekki leyfi til að mála sínar eigin hugmyndir fyrr en hann er fær um að gera nákvæma eftirmynd af verki meistarans. Þegar ég lærði kveðskap í Noregi var það sama uppi á teningnum. Ég lærði hjá þremur virtum kvæðakonum sem allar sögðu það sama, hver í sínu lagi: að ég yrði að læra þetta nákvæmlega eins og þær vildu að það hljómaði, en þegar þær voru ánægðar með árangur minn mátti ég fara með lagið að vild. Þegar þú hefur hlustað á stemmuna, kveðið með upptökunni og kveðið ein, er næsta skref að herma eftir raddbeitingu kvæðamannsins sem þú ert að læra af. Hvar andar hann? Notar hann andardráttinn til að undirstrika textann? Dregur hann seiminn? (þ.e. er síðasta nótan löng?) Skreytir hann laglínuna? Hvar? Finnst þér hljómhugsun hans samræmast þinni? (Er hann „out-of-tune“?) Kemst textinn greinilega til skila? Leggur hann meiri áherslu á sum orðin í vísunni og minni á önnur? Er greinilegur áherslumunur milli atkvæða í orðum? Er áherslumunur tengdur mikilvægi orðanna í textanum? Hvernig myndar hann orðin? Er hann nefmæltur, flámæltur, virðist hann snúa laglínunni utanum orðin? Hvar myndast tóninn? Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig kvæðamaðurinn fer að, og hvort það er eitthvað sem einkennir hann sérstaklega.

III Að kveða

Nú ertu búin að hlusta oft, greina og herma eftir kvæðamanni sem er þér að skapi. Þá er komið að því að þú veljir þínar eigin vísur og stemmur sem falla að bragarhætti þeirra. Þegar það er komið, er gott að kveða þetta nokkrum sinnum og hljóðrita síðan og hlusta. Flestum finnst erfitt að hlusta á röddina sína í fyrsta sinn, finnst hún óþægilega mjó/ljós/dökk/hás… en sennilega eru allir aðrir á annarri skoðun. Það er því gott að spila hljóðritið fyrir einhvern sem þú treystir. Ef þú átt kost á að kveða fyrir reyndan kvæðamann skaltu gera það og hlusta vel á það sem hann eða hún segir um frammistöðuna hjá þér. Veldu þér vísur sem þú tengist tilfinningalega (ekki samt þannig að grátur eða hlátur heyrist í röddinni), því það er mikilvægt að áheyrendur finni að þú meinir það sem þú kveður. Túlkun þín á textanum skiptir miklu máli. Það er erfitt að flytja texta sem manni þykir ekki vænt um, eða þykir ekkert til koma.

4. Að undirbúa dagskrá

© Ragnheiður Ólafsdóttir 2016