4. Að undirbúa dagskrá

Þegar kemur að því að undirbúa eigin kvæðadagskrá er fyrst að athuga hvert tilefnið er, og síðan að ákveða hvort þú ætlar sjálf að yrkja vísurnar. Ef þú ætlar ekki að yrkja um tilefnið, þá er hægt að finna vísur eftir aðra sem að henta því. Síðan þarf að ákveða hvaða stemmur passa við vísurnar/bragarhætti vísnanna og raða þessu upp í hæfilega röð, þannig að það sé einhver þráður í textanum, ef hægt er. Það er næstum alltaf hægt að tengja vísurnar saman á einhvern hátt, ef til vill eftir höfundum, aldri þeirra/aldri vísnanna, staðsetningu/heimahögum, þema eða öðru því sem þykir vert að nefna.

Þegar vísur og stemmur eru fundnar og búið að ákveða fjölda þeirra og röð, þá þarf að huga að framkomunni. Sumir eru illa haldnir af kvíða áður en þeir stíga á svið. Við því eru til ýmis ráð, meðal annars það að fara á staðinn daginn áður, standa á sviðinu og ímynda sér það versta sem gæti gerst í þeim aðstæðum. Þá hríslast adrenalínið um æðarnar, hnén skjálfa og röddin verður veik, en það gerir ekkert því þetta er bara æfing. Á sjálfan daginn er mikilvægt að taka sér hlé frá amstri, allavega klukkutíma fyrir flutning og reyna að hafa það rólegt og hugsa helst um hvað þetta verði skemmtilegt. Það er ágætt að vera ofurlítið stressuð, en ekki um of. Smá stress lyftir oft flutningnum og gerir hann betri.

Huga þarf að klæðaburði, að hann sé í samræmi við tilefnið og að þér líði vel í fötum og skóm. Þú þarft líka að ákveða með góðum fyrirvara hvort þú kannt þetta allt utanað eða hvort þú þarft að hafa textann með þér á bók. Það er engin skömm að því, þetta hafa kvæðamenn gert gegnum aldirnar, ef marka má heimildir (þeir voru reyndar að kveða langar rímur, en hvað um það). Sparaðu röddina á flutningsdaginn og hitaðu hana varlega upp sérstaklega ef kalt er úti. Gott að drekka te eða heitt vatn, og jafnvel kalt.

Nauðsynlegt er að ákveða fyrirfram hvort þú ætlar að tala líka, hvort þú ætlar að kynna hverja vísu/stemmu fyrir sig, eða dagskrána í heild sinni. Ef þú ákveður að kynna kveðskapinn, nokkuð sem gefur dagskránni meiri dýpt og gerir hana skemmtilegri, er best að skrifa allt niður sem þú ætlar að segja (nema þú sért mjög vön að koma fram og tala blaðlaust). Það komast nefnilega miklu fleiri upplýsingar á framfæri ef skipulagið er gott. Þú ættir líka að gefa þér tíma til að lesa þetta yfir upphátt og taka tímann á lestrinum og kveðskapnum, því þér er nær undantekningarlaust úthlutaður ákveðinn tími. Það er vinsælt að halda sig innan tímamarkanna.

Þegar á sviðið er komið, er gott að taka sér stöðu, rólega, líta yfir salinn – án þess þó að horfast í augu við neinn – heilsa, og byrja síðan dagskrána (hvort heldur sem hún hefst á kveðskap eða umfjöllun um hann). Þessi augnablik eru mjög mikilvæg, því þau gera það að verkum að fólkið í salnum beinir athyglinni að þér og þinni dagskrá og það eru minni líkur á því að einhver missi af þessari góðu skemmtun sem þú ert búin að leggja miklu vinnu í. Þegar dagskráin þín er búin, skaltu líka standa kyrr og þakka fyrir þig, hneigja þig þegar fagnaðarlætin ætla allt um koll að keyra og ganga svo rólega út af sviðinu.

Gangi þér vel!

Heimildir

© Ragnheiður Ólafsdóttir 2016