Átjánda ríma – Vikhent

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Átjánda ríma – Vikhent

 

391
Vikhent
Vikhent
Ferðalúnum fótum hef ég gengið
yfir fjöllin urðum sett,
óblíð veður fengið.
392
Frumframhent
Þá í lágum litlum bæjarkofa
var mér fagnað vel um kvöld.
Vil ég þetta lofa.
393
Frumframsneitt
Kunni granni kaldra fjallaslóða
lög sem honum hæfðu þar
hátt við landið góða.
394
Vikframhent
Sett var fyrst í fjallabúnas lögum
hreinyrt grein um þrek og þor,
þekkt úr fornum sögum.
395
Framhent
Dalahalur háu nærri fjalli
hreinn og beinn í háttum var,
hlýr og skýr í spjalli.
396
Bakhenduvikað
Geng ég nú um gráar eyður, breiðar,
þar sem vinur besti bjó;
byggðin sneiðist heiðar.
397
Vikbakhent
Flett og rúin fjallaslóðin sýnist.
Þjóðin minnkar þar og hvar
þegar byggðin týnist.
398
Vikbaksneitt
Aftur nytjist okkar kjarnagróður.
Eigi fólk um dali dvöl.
Dafni sæmd og hróður.
399
Vikstiklað
Barðist Kár við borgarmanninn snjalla.
Hlynur þekkir hraustan rekk.
Hann þá tók að spjalla:
400
Vikstímað
„Fljótt ég vil til friðar stilla bragna;
þann ég eflaust þekki mann;
því er síst að fagna.“
401
Hringhent
Gengu menn á milli þeirra síðan.
Rauður kennir hraustan Hlyn,
hermir enn við stríðan;
402
Mishent
„Þínum skildi þig ég vildi ræna,
lof þér gelzt því greipi fast
gripnum hélztu væna.“
403
Samhent
Þú mátt lengi þínu gengi fagna;
sigurfeng úr hönd mér hirt
hefur enginn bragna.
404
Sjöstiklað
Síst mun þrætt ég sakaþætti bætti,
þegar hættir harkið skætt;
halda sættir ætti.“
405
Framrímað
Gekk þá Hlynur garpsins til og sagði:
Ekki lengjum þetta þjark,
þekkjumst frið að bragði.“
406
Framrímvikað
Falla deilur, fest er sættin bragna,
engar sakir urðu meir.
Allir þessu fagna.
407
Stímvikað
Bauð nú mönnum bestu veizlu Rauður.
Borg hann réð og ærinn á
auð, og nokkurt hauður.
408
Aukrímvikað
Dvalir auka drengir þannig máttu;
frömdust þeir og fræddust um
fleiri manna háttu.
409
Samrímað
Fóru vítt og frægir mjög þeir urðu.
Slíkra mennt í minnstri þurð
margar þjóðir spurðu.
410
Miðskárímað
Fé og sæmdir firðar löngum unnu.
Um þá víða margir menn
miklar sögur kunnu.

Til baka -o- Afhent