Nítjánda ríma – Afhent

Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar

Nítjánda ríma – Afhent

 

411
Afhending
Afhending
Ennþá hefur okkar bragur aukið gaman,
er við bæði sátum saman.
412
Frumframhent
Meira heyra máttu nú af mærðargreinum
gerðum handa okkur einum.
413
Framhent
Hrósið ljósa hef ég oft í háttum greipað,
ýkjulíking enga geipað.
414
Frumframsneitt
Gleðin kvæðin gerir öll úr garði lundar,
koma þau til kætifundar.
415
Framsneitt
Stefin svífa stundum geyst á stuðlaflugi,
ótt og títt um okkar hugi.
416
Frumtvíframhent, síðframhent
Engan drengur annan svanna áður hitti,
semfremur stundir stytti.
417
Frumtvíframsneitt, síðframsneitt
Satt og rétt á síðum blaða sérðu núna
hæfislofið bragarbúna.
418
Bakhent
Hróður nýjan hefja þar um Hildi skyldi.
Garpa sjá hún ekki gilda vildi.
419
Baksneitt
Mærin kvíðin mátti líta mjöll á fjalli,
óttast hún að illa falli.
420
Sniðstímað
Haustið yfir heiðar fló með hörðum gusti,
fast og strítt að fólki þusti.
421
Stímað
Hnúkar allr huldust loksins hvítum dúkum.
Fjúkið rann í mökkum mjúkum.
422
Stiklað
Fagurpellið fauk af trjám að földum velli.
Blómin hrellir óvæg elli.
423
Framrímað
Safnast vargar svangir þá og sjást á gægjum,
hrafnar fljúga heim að bæjum.
424
Hringhent
Stormur hafði sterkleg tök og stæltan anda.
Vetur krafðist valds og landa.
425
Aukrímað
Rammur Svali galdur gól í giljum fjalla.
Kuls í stuðla kyljur falla.
426
Þráhent
Loftið heiða leyfði sprundi langsýn gnóga;
oft á breiða skyggnst var skóga.
427
Frumhent
Hrundin fríða horfði kvíðin heiman löngum;
sagnafá í sínum öngum.
428
Samhent
Svanni feginn seint á degi sá nú ríða
menn um vegi hvítra hlíða.
429
Frumhent, síðstiklað
Gumi sést á gráum hesti gæddur prýði,
kappinn ríður fremst hinn fríði.
430
Fimmstiklað
Netthent
Átti hrundin fagnafund í fögrum lundi.
Þeirri stund hún allvel undi.

Til baka -o- Stúfhent