Varðveizla íslenzkra rímnalaga.

Einar Benediktsson
(Ingólfur 10. nóvember 1906)

Allir sem unna viðreisn og endurfæðingu þjóðlegra lista hér á landi, hljóta fremst af öllu að óska þess, að oss mætti takast að forða frá gleymsku öllu því í grundvelli vors fyrra þjóðlífs, sem byggja verður á listir komandi tíma hjá oss.

Vér vitum allir, hve mjög orðsins list gnæfir yfir allar aðrar listir hjá Íslendingum og á það rót sína að rekja til eðlis og uppruna frumbyggjenda þessa lands, til örbirgðar vorrar og menningarskorts á síðari tímum, og loks að miklu leyti til landshátta vorra. Landnámsmenn lifðu svo að segja öllu sínu andlega lífi í hetjusögum og kvæðum, og menning þeirra miðaði til afreksverka er gáfu hetju-skáldunum ný yrkisefni mann frá manni. Á lægingartímum þjóðarinnar lifði andi hennar í sálmarími og söguljóðum þeim, er kallast rímur. Fátækt manna og hin erlenda kúgun bældu niður og kæfðu önnur ytri lífsmörk listarinnar hjá þjóð vorri. Að undantekinni lítilfjörlegri skurðlist og öðrum ófullkomnum listariðnaði, lifði fegurðarþrá og skapandi afl andans hjá þjóðinni á þessum tímum, einungis í huga manna og á tungu þeirra. Og loks hafa sömu yfirburðir orðlistarinnar hér á landi nærst og varveitst af hinum miklu fjarlægðum milli einstaklinganna í fámenni voru, svo að listarþróttur og efni Íslendinga hafa sótt áfram í sömu átt, einnig eftir að okurkló útlendrar kúgunar og svefnþorni ókunnugra yfirráða yfir oss hefir að nokkur leyti létt af þjóð vorri á síðustu tímum.

Önnur tegund listar, sem er náskyldust list bundins og óbundins máls, sönglistin, hefir þó ef svo mætti segja, rétt sig upp úr auðn þeirri og dauða, er ríkt hefir um andans líf hjá þjóðinni. Því hefir ekki verið gefinn nægilegur gaumur, að vér eigum þar gimstein, illa geymdan að vísu eins og flesta aðra dýrgripi vora, en þó ekki glataðan með öllu. Það sem hér er átt við eru rímnalög frá þeim tímum er rímnakveðskapur var algengur á Íslandi og þjóðin var sjálf höfundur laganna.

Þessi einkennilega sönglist Íslendinga hefir varðveitst lengur en sá almenningssiður að stytta kvöldvökur með rímnakveðskap. Eftir að meiri smekkvísi í ljóðagerð hafði af misskilningi snúið sér frá söguljóðunum til annara yrkisefna og dyradómur Jónasar Hallgrímssonar hafði unnið bug á Fróðárundrum leirburðarins hjá hinum og þessum flækingsskáldum vorum á síðustu öld, lifðu samt lengi á vörum þjóðarinnar lög þau er báru fram rímnakveðskapinn. Ómurinn af íslenzkum kvæðalögum barst niður til vorra tíma frá áheyrendum alþýðusöngvaranna, sem voru illu heilli og ófyrirsynju flæmdir af baðstofubekkjunum of snemma. Í stað þess að deyða þennan lífseiga vísi alíslenzkrar þjóðlegrar kvæðalistar hefði átt að vernda hann og styrkja og reisa við á hærra stig bæði með máli og tónum. Fyrr en annað hærra og betra var í boði handa fólkinu áttu ekki alþýðusöngvarar rímna og mansöngva að víkja.

En þótt trygð alþýðunnar hafi svo lengi staðist hin skaðlegu og vanráðnu frumhlaup framfara og útlendra stælinga frá yfirstéttinni íslenzku jafnt í þessu sem öðru, þá er þó yfirgnæfandi hætta á því, að hin ósviknu rímnalög vor glatist óðum með hverju ári sem líður án þess að sannarleg vísindaleg rannsókn sé hafin til þess að forða því frá gleymsku, sem enn finst af því tagi á vörum þjóðarinnar.

Eg get alls ekki látið mér nægja fyrir mitt leyti að hvíla mig við þá von, að séra Bjarna Þorsteinssyni takist að leysa þetta hlutverk af hendi með þeirri aðferð sem hann beitir og með svo litlu fé sem hann getur varið til þessa. Fyrst og fremst er það öldungis óhæfilegt að taka góðar og gildar uppskriftir hinna og þessara á rímnalögum hér og þar út um bygðir landsins. Sá sem safnar slíkum lögum, er nema verður af vörum fólksins sjálfs, verður sjálfur að taka á móti þeim. Pósturinn dugar ekki til að flytja slíkt á milli. Og í öðru lagi hygg ég að til þess þyrfti mann, er hefði talsvert meiri þekkingu heldur en séra B.Þ. mun hafa getað aflað sér þrátt fyrir þær miklu gáfur og áhuga í þessum efnum, sem enginn vill neita honum um. Mér virðist auðsætt að til þessa þurfi mann, sem bæði má gefa sig allan við því að ferðast um alt land meðal alþýðunnar og getur einnig ritað eftir eigin heyrn það sem safna skal.

Þegar vér tölum um varðveizlu rímnalaga verður einnig að minnast þess, að mikið er komið hér inn af erlendum áhrifum, er kann að hafa spilt víða því frumlega og rammþjóðlega í kvæðalist alþýðunnar, sem hér hefir verið um að ræða. Sá sem safna skal lögum þessum, vísindum vorum og list til verulegs gagns, verður því helzt að kunna að greina vel hismið frá hveitinu og láta sitja í fyrirrúmi uppskrift þess sem einhvers er vert, fram yfir allskonar hégómastælingar og einskisverðan tilbúning hinna og þessara, er kunna að hafa gaman af því að láta safna frá sér einhverjum tónaleir, sem enga rót á sér í hinni þjóðlegu kvæðalist. Eg minnist þess t. a. m. að einn ungur námsmaður í Höfn, sem var allvel gefinn fyrir söng, sagði mér eitt sinn frá því að hann hefði sjálfur búið til rímnalög, tvö eða þrjú, er hann hefði fengið „snuðrara“ einn alkunnan til þess að taka fyrir góða og gilda vöru, sem sýnishorn íslenzkra rímnalaga. Margt sem ég hefi séð prentað með nafni rímnalaga bæði hér heima og erlendis hefir mér virtst vera á líka bók lært og er þá ver farið en heima setið ef slík óvísindaleg starfsemi hinna og þessara hlæðist til tafar og niðurdreps yfir rannsóknarefnið sjálft, líkt í þessari grein sem ýmsum öðrum, þar sem horfa má fram á það verk heillar kynslóðar að fá fyrst rýmt burt villumyrkri og öfugmælum ýmsra svo kallaðra fræðimanna vorra, áður en farið verður að byggja upp sannarleg vísindi í þeirri grein sem um ræðir. Í rímnalögum þeim sem komin eru frá þjóðinni sjálfri og eru upprunaleg sönglög sagnarímsins íslenzka, er svo mikill auður af einkennilegum tónaskáldskap, að þar er margt að nema fyrir þá Íslendinga, er gefa sig við því á komandi tímum að reisa sannarlega þjóðlega sönglist hér á landi. Allir kannast við það, hverju er að þakka reisn skáldmentarinnar íslenzku frá þeirri læging sem hún var komin í; auður forntungunnar var sú náma, er menn sóttu í gull og gersimar þegar kröfur hins nýja tíma kváðu fram endurreisn í íslenzkri ljóðagerð. Líkt mun verða uppi þegar þjóðarandi vor sópar frá sér þeim lélegu og úreltu söngvum sem Íslendingar hafa orðið að fá sér til láns frá útlöndum.

Tónskáld vor munu sökkva sér niður í þær ónumdu auðuppsprettur, er finnast frá fornu fari í lífi þjóðar vorrar sjálfrar, og þar eru rímnalögin eitt hið frumlegasta og mikilvægasta.

Þegar ég heyri sum hin ósviknu íslenzku rímnalög, þykir mér sem ég finni málaða með tónum fyrir mér djúpa þrá, blandaða einkennilegum hreimi af söng sem fæðst hefir af herleiðing þjóðar vorrar gegnum eyðumerkur eigin lands.

Þessi seiga ódrepandi taug í íslenzku þjóðerni hefir klætt þrá sína og hvöt til listar í söng, í þennan tötrabúning sem manni sýnist í fljótu bragði. En sé glögt leitað og skarpar greint inn að kjarnanum, sést það, að hér skín göfug og óðalsborin söngdís þjóðarandans íslenzka tengd við þau yrkisefni sem alt til þessa tíma og lengi fram eftir komandi framfaraöldum vorum, munu verða aðalþáttur skáldskaparins íslenzka ― við söguljóðin.