f. Eftirmáli

Eftirmáli annarar útgáfu 1985

Það hefur orðið að ráði að endurprenta kver þetta sem hefur verið ófáanlegt í nær 20 ár.

Engar breytingar eru gerðar aðrar en leiðréttingar á örfáum villum.

Sumt er það í inngangi sem ég hefði viljað segja öðruvísi núna eða skýra nánar, en það verður að bíða betri tíma.

Nokkur söguleg atriði eru þar sem geta orkað tvímælis og þyrftu nánari athugunar. Þó er það fremur að vanti fyllri frásögn en að rangt sé farið með. Raunar hygg ég að Háttatal skipti mestu máli fyrir þá sem vilja kynna sér rímnahætti og læra reglur vísnagerðar.

Enda þótt best sé að læra bragformið eftir eyranu þá eru alltaf nokkur atriði sem gott er að hafa fyrir sér á bók. Í Háttatali er að finna flesta þá bragarhætti sem algengir voru í rímum og öðrum kveðskap í því formi, þar með taldar lausavísur. Þó er þar ekki að finna verulegar rímþrautir, en þær eru víða í bókum og blöðum.

Rímnamálið, kenningar og önnur einkenni er ekki að finna hér. Nærtækast er að nema slíkt af Snorra-eddu eða rímunum sjálfum.

Háttatal reyndi ég að yrkja þannig að ekki væri þar mikið af braglýtum og var þá margs að gæta.

Mér er kunnugt um að margir hafa gaman af að hnýsast í þessi fræði, eðli rímnaformsins og nöfn háttanna. Þetta litla kver ætti að geta orðið til leiðbeiningar ef vel er lesið.

Draghálsi í febrúar 1985

Sveinbjörn Beinteinsson.