Lagboði 155

Á mér hrína urðar spár

Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar

 

Á mér hrína urðar spár
æsku dvína verkin
ellin mínar yglir brár
árin sýna merkin.

Efnis kringum óðinn þyl
orðin syng af munni,
hugann þvinga því hann vil
þreyta á hringhendunni.

Rofinn skjótt er rökkurmúr
rís af óttu fagur,
lífsins þróttur austri úr.
Eyðir nóttu dagur.

Hugans óðarfylgsni frá
fæðist ljóða senna,
þegar hlóðum andans á
aringlóðir brenna.

Vísur:  Guðmundur Ingiberg Guðmundsson.
Kvæðamaður:  Björn Friðriksson. (Tyrfingur Jónsson kenndi)
Stemma:  Jón frá Hofi, Húnavatnssýslu.

Lagboði 156