Lagboði 162

Dísir ljóða! dugið mér

Stikluvik – vísur 1, 2, 3 og 4 þríhendar,  vísa 1 vikframsneidd, vísur 2, 3 og 4 vikframhendar

 

Rímur af Víglundi og Ketilríði.  7. ríma.

Dísir ljóða! dugið mér,
dáð svo kvæðum fylgi,
meðan þjóð á mæri hér
mínir bjóðast söngvarnir.

Mitt var yndi áður það
ungri tungu að leika,
stökur mynda og mála blað,
manna hrinda þögn úr stað.

Lysting snör í brjósti brann,
að bála málin kvæða;
líka fjör þá lána vann
lifandi gjörvöll náttúran.

Þegar spjöllin hátta há
hinir vinir sungu,
var sem fjöllin háu hjá
á hljóðum öllum stæðu þá.

Vísur:  Sigurður Breiðfjörð.
Kvæðamaður:  Jóhann Garðar Jóhannsson.
Stemma:  Úr Breiðafirði.

Lagboði 163