Lagboði 169

Hvíld skal taka, blaut er braut

Ferskeytt – vísa 1 hringhent og frumbakhent, vísur 2, 3 og 4 hringhendar

 

Hvíld skal taka, blaut er braut,
blakkar vakrir mása,
grasi þakin laut við laut
liggur bak við ása.

Hér er kliður heiðlóar
hýrgar sviðinn bala,
geislaiða eyglóar
inn við niðinn dala.

Blika lindir, brosa fjöll
bergmál tindar óma,
laxar synda fossaföll
fuglar mynda hljóma.

Fleygur kári fer á sprett
fyllir gárum haga,
neðar báran leikur létt
laugar tárum skaga.

Vísur:  Hallgrímur Jónsson.
Kvæðamaður:  Sigríður Friðriksdóttir.
Stemma:  Úr Húnavatnssýslu.

Lagboði 170