Lagboði 27

Númi undi lengi í lundi

Langhent – vísa 1 frumstikluð og vísur 2,3 og 4 víxlhendar

 

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni
4. ríma, vísur 13-16

Númi undi lengi í lundi
leiðir sveigir hér og þar
lítur hann sprund hún lá í blundi
lík skjaldmey að búning var.

Höfuðið ljósa lagt hún hefur
létt á skjöldinn, vanga hjá
hjálmur drósar hýrt er sefur
hulinn öldustjörnum lá.

Hárið bjarta brynju þekur
í bylgjum gylltum niður flaut
allt hvað hjartans undrun vekur
augun fyllti brúðar skraut.

Spjót eitt undir hefur hendi
hún í dúni skógar lá
ljósið Þundar ljóma sendi
lindatúni meyjar frá.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð.
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson.(kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn M. Ólsen.

Til baka -o- Lagboði 28