Lagboði 29

Man ég bjarta bæinn minn

Braghent– vísur 1, 2, 3 og 4 samrímaðar

 

Bærinn minn

Man ég bjarta bæinn minn frá bernskudögum,
þar sem rjáfrið söng af sögum,
sónargaldri, rímnalögum.

Pabbi sjálfur sat þar oft við sagnalestur.
Þróttur kvæða þótti mestur,
þegar skemmti næturgestur.

Okkur bræðrum iðja gafst sem öðrum þjónum.
Löngum amma laut að prjónum,
lagði mamma hönd að skónum.

Það sem bezt í brjósti mínu bærast kunni,
drakk ég allt úr einum brunni:
iðjuríku baðstofunni.

Vísur: Steinn Sigurðsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson.
Stemma: Víða kunnug í Húnavatnssýslu.

Til baka -o- Lagboði 30