Lagboði 45

Leó þrifnum brandi brá

Ferskeytt vísur 1, 2, 3, 4 og 5 víxlhendar

 

Rímur af Núma kóngi Pompílssyni
8. ríma, vísur 64-68

Leó þrifnum brandi brá
byrstist lundin honum
Núma rifnar röndin þá
rétt hjá mundriðonum.

Númi lemur ljóma þá
lensu móti sveigi
blakið kemur bringu á
en bítur hótið eigi.

Lensan brotnar ljóns á klóm
lagið kenndi stríða
hjálparþrotna handatóm
hetjan stendur fríða.

Leó riða verður við
vigurhöggið bráða
Númi biður ei neitt um grið
nam á skrögginn ráða.

Stöðu gat ei nógri ná
njótur sundaljóma
Leó flatur fellur þá
fjallið stundi tóma.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Hólmfríður Þorláksdóttir kenndi)
Stemma: Úr Breiðafirði.

Til baka -o- Lagboði 46