Lagboði 56

Gólf er liðugt, löng og stór

Ferskeytt – vísur 1, 2, 3, 4, 5 og 6 hringhendar

 

Gólf er liðugt, löng og stór
leikjarsvið hjá unni.
Spriklar, iðar allur sjór,
yztu mið að grunni.

Byljir kátir kveðast á,
hvín í sátri og hjöllum.
Báruhlátrar hlakka frá
hamralátrum öllum.

Stormur þróast, reigir rá,
Rán um flóann eltir,
kólgum sjóarkletta á
köldum lófa veltir.

Heim að vörum hleypum inn
hátt á skörum rasta.
Bára ör, á arminn þinn
önd og fjöri ég kasta.

Skipið stanzar, skýzt á hlið
skeið til landsins horfna.
Bárur glansa og glotta við,
glatt er á dansi norna.

Mastrið syngur sveigt í keng,
seglið kringum hljómar,
raddir þvinga úr stagi og streng
stormsins fingurgómar.

Leggðu barminn alvot að,
aftanbjarma gljáa.
Strjúktu harm úr hjartastað,
hrönn in armabláa.

Vísur: Stephan G. Stephansson
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson.(kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu.

Til baka -o- Lagboði 57