Gyllir sjóinn sunna rík (1)
Samhent – hagkveðlingaháttur
Breiðfirðinga-vísur
Gyllir sjóinn sunna rík,
sveipast ró um Faxavík.
Esjan glóir gulli lík,
gleði bjó mér fegurð slík.
Samt ég allra svásast finn
sólarfall við Jökulinn;
vermist mjallar vanginn þinn,
vesturfjalla kóngurinn.
Í landsins hjarta lifði þar
ljósið margt, sem fegurð bar.
Nú er bjart við Breiðamar,
búinn skarti kveldsólar.
Munu enn á æskuslóð
afbragðsmenn og tignarfljóð,
í sem rennur breiðfirskt blóð,
brim í senn og ástarglóð?
Vísur: Ólína Andrésdóttir.
Kvæðamaður: Björn Friðriksson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sigríður Sigfúsdóttir Blöndal.
Til baka -o- Lagboði 74