Lagboði 6

Oftast svellin örlaga

Ferskeytt – vísa 1 og 4 hringhendar,  vísa 2 oddhent og vísa 3 óbreytt

 

Oftast svellin örlaga
illum skellum valda,
fyrir brellum freistinga
fáir velli halda.

Fæst hér nóg af frosti og snjó
og flestu, er ró vill bifa.
En þegar glóey gyllir mó,
gaman er þó að lifa.

Sorgir lífs í margri mynd
mæddar sálir beygja;
en væri hér hvorki vín né synd,
vildi ég aldrei deyja.

Hjarta og sinni harmar þjá
heims af kynningunni.
Og ekki finn ég ylinn frá
æskuminningunni.

Vísur: Herdís Andrésdóttir.
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson.
Stemma: Úr Dalasýslu. Guðmundur Gunnarsson, Tindum.

Til baka -o- Lagboði 7