Viltu, litla lindin mín
Ferskeytt – vísa 1, 2 og 4 óbreyttar og vísa 3 frumstikluð
Sigrún í Hvammi
Viltu, litla lindin mín,
ljóðin þín mér kenna?
Hver hefur kennt þér kvæðin þín, –
kennt þér hægt að renna?
Ef mér væri innra rótt,
eins og straumi þínum,
sæl ég skyldi um sumarnótt
sjónum loka mínum.
Renna í blundi létt í lund,
um löngun mína dreyma,
faðma grundir, fjöll og sund,
flögra um töfraheima.
Eitthvað þrái eg, eitthvað vil,
í eitthvað fjarri hyllir,
sem ég enn þá sjálf ei skil,
en sálu löngun fyllir.
Vísur: Guðmundur Guðmundsson skólaskáld.
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson. (Kristinn Kristjánsson kenndi)
Stemma: Úr Strandasýslu. Sigurður hundalæknir