Nú skal ýta út á djúp
Ferskeytt – vísur 1, 2, 3 og 4 hringhendar
Í beitivindi
Nú skal ýta út á djúp,
-undir þýtur strengur-
stafns með rýting Ránar hjúp
rista í hvítar lengjur
Gnoð voðsett og seglum knúð
sífellt þéttir skriðinn,
ólgan brettir börð við súð,
báran fettir kviðinn.
Fingrum smellir froðu-grá,
feig og ellilotin –
keyrir skellinn kinnung á
kvika í felling brotin.
Slettum hreytir, hoppar inn
hrönn með breyti-lyndi,
þegar steytir knarar-kinn
Kári í beitivindi.
Vísur: Kristinn Stefánsson
Kvæðamaður: Kristmann Sturlaugsson (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Dalasýslu.
Til baka -o- Lagboði 100