Um félagið

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 15. september 1929 og hefur tilgangur félagsins frá upphafi verið að æfa kveðskap og safna rímnalögum og alþýðuvísum, fornum og nýjum.

Þegar Iðunn varð 40 ára skrifaði Guðmundur Guðni Guðmundsson eftirfarandi um tilurð félagsins:

Sumarið 1929, um Jónsmessuleytið, gerðist merkilegur atburður á hinum fræga sögustað, Þingvöllum. Atburðurinn gerðist síðla dags á bakka Almannagjár. Þá er þar staddur með fjölskyldu sína í skemmtiferð, Björn Friðriksson frá Bergsstöðum á Vatnsnesi, búsettur í Reykjavík. Með honum voru þarna systur hans þrjár, Sigríður, Ingibjörg og Þuríður, einnig Ingigerður kona Björns og dóttir hans, Rósa.

Veðrið var unaðslega gott og fjölskyldan gekk á gjábakkann, settist niður og fór að kveða rímnalög. — Þá gerist það að sú hugmynd fæddist, að stofna kvæðamannafélag. Ræddi fjölskyldan málið nokkra stund, þar til Þuríður, systir Björns, segir: „Ég þarf að tala við Kjartan.“ Að skammri stund liðinni kemur hún með Kjartan og kynnir hann fyrir Birni og fólki hans, en þessi Kjartan var Kjartan Ólafsson bæjarfulltrúi og múrarameistari frá Dísarstöðum í Flóa, landskunnur maður. Hófst nú kveðskapur á ný, en því næst var farið að ræða um stofnun kvæðamannafélags og tók Kjartan þátt í umræðunum.

Ekki er vitað hvernig málið stóð eftir þær umræður, en þarna mun hafa verið lagður hornsteinninn að stofnun Iðunnar og kynni þeirra Björns og Kjartans upphaf að framkvæmd á sameiginlegu áhugamáli íslenskra kvæðamanna og alþýðuskálda — að stofna með sér félagsskap til varðveislu og verndar þeirrar listar, sem íslenskar rímnastemmur og stökur eru grundvallaðar á.

Um sumarið komu áhugamenn um félagsstofnun nokkrum sinnum saman að heimili Ingibjargar Friðriksdóttur, að Grettisgötu 46, og ræddu málið af áhuga.

Fyrsta september 1929 var fundur haldinn af nokkrum konum og körlum til undirbúnings stofnunar Kvæðamannafélags í Reykjavík. Jósep S. Húnfjörð skýrði tilgang þessa fundar og stakk upp á Kjartani Ólafssyni bæjarfulltrúa sem fundarstjóra og var það samþykkt í einu hjóði. Setti Kjartan fundinn og tilnefndi Björn Friðriksson sem fundarritara.

Á þessum fundi tóku margir til máls og kom fram einróma vilji fundarmanna um að stofna félagið. Kosin var fimm manna nefnd til að undirbúa stofnfund og semja lög fyrir félagið. Í nefndina voru kosin:

Kjartan Ólafsson
Jósep S. Húnfjörð
Björn Friðriksson
Kristján Jónsson
Ingibjörg Friðriksdóttir

Á þessum fundi var skráð fyrsta fundargerð Iðunnar og er enn til, eins og allar aðrar fundargerðir Iðunnar.

Sunnudaginn 15. september 1929, kl. 3 síðdegis var stofnfundur Kvæðamannafélagsins Iðunnar settur í húsi Góðtemplarareglunnar í Reykjavík. Fundarstjóri var Björn Friðriksson. Þar voru einnig samþykkt löf fyrir félagið. Í 3. grein laganna var tekið fram hvernig stjórn félagsins skyldi vera skipuð, og einnig hinar ýmsu nefndir innan félagsins.

Stjórn félagsins skyldu skipa þrír menn, formaður, ritari og gjaldkeri og þrír menn til vara. Fastar nefndir voru skipaðar og skyldu vera þrír menn í hverri, rímnalaganefnd, vísnanefnd og fjárhagsnefnd. Enn fremur tveir endurskoðendur. Aðalfund skyldi halda í janúar ár hvert. Reikningsár var almanaksárið. Einnig var kosin dagskrárnefnd, í henni áttu sæti 3 menn.

Fysta stjórn Iðunnar var þannig skipuð:

Kartan Ólafsson, formaður
Björn Friðriksson, ritari
Jósep S. Húnfjörð, gjaldkeri

Fyrsta rímnalaganefnd:

Ingibjörg Friðriksdóttir
Kristinn Kristjánsson
Ingþór Sigurbjörnsson

Fyrsta vísnanefnd:

Kristján Jónsson
Þórarinn Bjarnason
Kári Sólmundarson

Fyrsta fjárhagsnefnd:

Björn Sigurbjörnsson
Ingþór Sigurbjörnsson
Sigurður Straumfjörð

Fyrstu endurskoðendur:

Jón Jónsson, læknir
Þuríður Friðriksdóttir

Fyrsta dagskrárnefnd:

Ingibjörg Friðriksdóttir
Kristjón Jónsson
Sigurður Straumfjörð

Stofnfélagar voru 33 og eru nöfn þeirra allra skráð í bók, sem félagið á enn, ásamt öðrum skráðum heimildum um stofnun félagsins.

Netfang: idunn[hjá]rimur.is